Gagnrýni

Birt þann 3. október, 2023 | Höfundur: Steinar Logi

Crew Motorfest

Crew Motorfest Steinar Logi

Samantekt: Mikil bæting frá Crew 2 og byrjar vel en græðgin sést í baksýnisspeglinum

3.5

Vrúm Vrúm


Einkunn lesenda: 0 (0 atkvæði)

Ubisoft hefur lært af Crew 2 og afraksturinn er ansi góð skemmtun í Crew Motorfest. Margt af því sem truflaði mann í Crew 2 er núna betrumbætt. Nokkur dæmi:

  • Meiri áhersla á bíla heldur en báta og flugvélar enda liggur áhugi fólks frekar þar. Ekki verið að neyða fólk í að fljúga og sigla ef það vill það ekki.
  • Að því sögðu þá hefur stýring báta og flugvéla verið bætt að miklu leyti og mun skemmtilegra en áður.
  • Mun færri hindranir í keppnum þ.e.a.s. hlutir sem snarstöðva mann eins og grjót og skilti. Núna hægja hlutir eins og grjóthleðsla aðeins á manni en stöðva ekki. Auðvitað eru áfram hindranir eins og stór tré sem stöðva mann en mun minna en áður.
  • Minni áhersla á sögu og samræður sem eru núna meira í bakgrunni á meðan þú ert að spila, áherslan meiri á skemmtanagildið. En fyrir aðdáendur Ubisoft „cringe“ þá er það auðvitað til staðar, bara í minni mæli.
  • Betrumbætt hljóð og spilun.
  • Styttri og hnitmiðaðri keppnir.
  • Bæting á aukaverkefnum t.d. það að taka ljósmyndir sem var óþarflega flókið í Crew 2.
  • Vel valin tónlist, nógu óþekktir listamenn til að maður fái ekki leið strax sem passar vel við aðstæður hverju sinni. Fjölbreytileg líka með slögurum eins og Rock around the clock með Bill Haley þó að áherslan sé að sjálfsögðu á nútímalegri tónlist.
far out, man

Í Crew 2 þá var heimurinn mun stærra svæði enda þverskurður af öllum Bandaríkjunum. Núna erum við á Hawaii og maður spyr sig af hverju nota fleiri leikir ekki þann stað sem bakgrunn. Þrátt fyrir minna svæði finnur maður ekki fyrir því. Nýting dagsbirtu, veðuráhrifa, skrauts í lofti og láði og síðast en ekki síðast mikil litadýrðar Hawaii gera þetta að mjög passlegum heimi.

Spilun gengur að mestu leyti út frá svokölluðum „playlists“ sem er röð kappakstra yfirleitt á landi en líka í lofti og á vatni. Hver spilunarlisti hefur sitt þema eins og landslag Hawaii, japanskir drift bílar eða off-road keppnir. Það eru 15 svona listar í boði í dag og þetta hefur verið mjög skemmtilegt og vonandi halda  framleiðendur leiksins Ivory Tower áfram á sömu braut í framtíðinni. Yfirleitt taka þessir listar 1-2 tíma. Þegar maður klárar spilunarlista þá opnast áskoranir og aukaverkefni. Það eru mismunandi reynslustig (experience) fyrir fjölspilun, skoða og safna hlutum og að keppa á móti tölvunni og hvert er með sitt verðlaunakerfi. Þar að auki þá er tímabil og vikulegar áskoranir svo að það er yfirleitt eitthvað að gera. Sjálfur er ég kominn með um 30 tíma og þá fer aðeins að minnka um stærri verkefni þegar maður hefur klárað spilunarlistana og mikið af áskorunum en það fer að líða að næsta tímabili (season).

Þar sem þetta er lifandi leikur þá er stóra spurningin hvort að þetta sé bara brúðkaupsferðin til Hawaii en ekki farsælt hjónaband til lengri tíma. Til að svara því þá þurfum við fyrst að heilsa upp á fílinn í herberginu eða keypta þjónustu (microtransactions) sem er til staðar í Crew Motorfest.

er leikurinn brúðkaupsferð til Hawaii eða farsælt hjónaband til lengri tíma

Hingað til þá er þetta ekki slæmt, þrátt fyrir að maður þurfi að kaupa bíl til að geta farið í marga af spilunarlistunum þá hef ég alltaf haft efni á því og meira til bara með því að spila þ.e.a.s. ég hef ekki þurft að „grinda“. Það er einn gjaldmiðill sem maður fær á eðlilegan hátt með því að spila leikinn en annar sem maður kaupir með raunverulegum pening og þú getur valið hvorn gjaldmiðilinn þú notar. Það er framtíðin sem ég hef áhyggjur af. Munu þeir gera spilunarlistana dýrari eða eitthvað annað til að reyna að neyða mann í að kaupa gjaldmiðil? Það er erfitt að vita en maður óttast það. Það eru einstaka hlutir núna sem er bara hægt að kaupa með keypta gjaldmiðlinum. Líklega góð hugmynd að kynna sér hvernig leikurinn er að þróast áður en borgað er fyrir hann.

whoa, man

En leikurinn sjálfur er góður, fyrsta tímabilið stenst vel kröfur og við þurfum að sjá til með þau seinni. Þetta er ekki eins slæmt og NBA2K þar sem þú getur ekki einu sinni spilað á móti öðrum á jafnréttisgrundvell í MyPlayer nema að eyða tugþúsundum. Hérna eru fjölspilunarkeppnir á svokölluðu „fairPvP“ formi þ.e.a.s. allir bílar eru jafn öflugir, þeir líta bara mismunandi út.

Ein stórskemmtileg nýjung er svokallað Demolition Royale þar sem keppendum er raðað í lið og reyna að skemma alla hina bílana. Bónusar falla niður úr himninum af og til og bílunum er sleppt niður úr flugvél í upphafi og þú getur valið hvar þú lendir. Hljómar kunnuglega? Já, þeir nota sömu spilun og í t.d. Fortnite nema bara bílar sem er alger snilld.

Ein stórskemmtileg nýjung er svokallað Demolition Royale

Fjölspilun er stór partur af Motorfest og ég hef verið að ég hef verið að spila með yngri syni mínum og við fáum „crew bonus“ fyrir að klára hluti. Við getum séð hvorn annan í heiminum í heiminum en stundum ekki svo að þetta er ekki alveg pottþétt. Höfum stundum þurft að endurræsa til að sjá hvort annan. Hef ekki upplifað hökt (notast við „performance mode“) en stundum hangir hleðsluskjár og ég þarf að endurræsa þá líka. Við spilum báðir á PS5 og erum á sama stað svo það hjálpar eflaust, reynslan gæti verið þrautameiri fyrir crossplay sem er mögulegt að gera (Xbox og PC).

Það er ansi mikið af bílum til sölu, eða yfir 600, en maður þarf að passa sig á því að sami bíllinn getur verið í mörgum útgáfum. Það er hægt að flytja inn farartæki frá Crew 2 sem hjálpar mikið, þannig gat ég flutt inn 16 farartæki. Bílana er svo hægt að uppfæra með bílahlutum sem þú vinnur þér inn eftir flestar keppnir eða áskoranir.

Niðurstaðan er sú að þetta er mjög góður bílaleikur, líklega einn af þeim bestu af þessari sandkassagerð í dag en það þarf að vera meðvitaður um peningamódelið sérstaklega upp á framtíð leiksins. Það dregur einkunnina aðeins niður og einnig sú staðreynd að maður þarf alltaf að vera tengdur við netið eins og sá fyrri.

Deila efni

Tögg: , , , ,


Upplýsingar um höfund:Efst upp ↑