Bækur og blöð

Birt þann 13. maí, 2012 | Höfundur: Nörd Norðursins

0

Bókarýni: 11/22/63 eftir Stephen King

Þeir sem hafa lesið Stephen King í gegnum árin vita að hann hefur róast með aldrinum. Rétt eins og að Bubbi hóf að syngja um ástina í stað Hiroshima og Michael Jordan fór að taka fleiri þriggja stiga skot í stað þess að troða í annarri hverri sókn; þá hefur King dregið úr yfirnáttúrlegum hryllingi og skrifar frekar um venjulegt fólk, þeirra aðstæður og hvað mannveran sjálf getur verið grimm . Það er samt alltaf eitthvað yfirnáttúrulegt í gangi í bókum hans en það hefur smátt og smátt færst í bakgrunninn. Sjaldan hefur þetta verið eins áberandi og nú.

11/22/63 fjallar um hinn 35 ára Jake Epping sem er skólakennari í Maine (hvar annars staðar?). Dag einn fær hann símhringingu frá kunningja sínum; búðareiganda sem vantar aðstoð hans. Í ljós kemur að sú aðstoð er ekki smávægileg; búðareigandinn hefur uppgötvað tímahlið í geymslunni hjá sér sem leiðir til ársins 1958 og vill að Jake taki við af honum sem tímaflakkari þar sem hann er að deyja úr krabbameini. Verkefnið sem hann var að vinna að er ekki af smærri endanum; hann vill að Jake komi í veg fyrir morðið á John F. Kennedy og til þess þarf hann að stöðva Lee Harvey Oswald. Það flækir málið að 5 ár eru á milli tímahliðsins og hinnar örlagaríku dagsetningar og Jake þarf að vera 100% viss um að Oswald hafi verið einn í ráðum. Bókin fjallar að mestu leyti um þessi 5 ár; hvernig þetta tímaskeið í sögu Bandaríkjanna lítur út með augum aðkomumannsins og hvernig hann nær að aðlaga sig að breyttum aðstæðum.

Þeir sem búast við gamla Stephen King verða illa sviknir og ættu ekki að kaupa þessi bók. Hún er löng eða 849 síður, sem er ekki óvenjulegt fyrir King, en hún er langdregin á köflum.

Þeir sem búast við gamla Stephen King verða illa sviknir og ættu ekki að kaupa þessi bók. Hún er löng eða 849 síður, sem er ekki óvenjulegt fyrir King, en hún er langdregin á köflum. Það sem verra er að það yfirnáttúrulega er í algjöru aukahlutverki. Bókin er að mestu leyti samanburður á lífinu í dag og þessum árum, sem var tími ákveðins sakleysis en einnig mikils misréttis í Bandaríkjunum. Ef ég þyrfti að flokka bókina væri þetta í fyrsta lagi samfélagsrýni, í öðru lagi ástarsaga og í þriðja sæti yfirnáttúruleg spennusaga með hryllingsívafi.

Hryllingurinn í sögunni er þegar venjulegt fólk beitir annað fólk ofbeldi, það að maðurinn sjálfur sé versta skrímslið (Stephen King hefur lengi lagt áherslu á þetta, hver man t.d. ekki eftir Annie Wilkes (leikin af Kathy Bates) úr Misery). Einnig er ógn kalda stríðsins til staðar en hún er lítilvæg þar sem tímaflakkarinn (og við) veit að ekkert mun gerast, engin kjarnorkuvopn voru notuð. Allt það dularfulla í sögunni eins og af hverju er þetta tímahlið til staðar, eru fleiri svona tímahlið, af hverju eru „dyraverðir“ við tímahliðin, af hverju berst fortíðin gegn breytingum á dularfullan hátt (eins og kemur fljótlega fram) og fleiri spurningum er ósvarað. Það er eins og  að þessi nýji Stephen King hafi skellt þessum þáttum inn bara til að setja upp sviðið fyrir aðalsöguna þ.e.a.s. daglegt líf árin 1958 – 1963 með augum nútímamannsins, meðan að gamli Stephen King hefði gert sér mun meiri mat úr þessu.

Stephen King er frábær rithöfundur og hefði einhver annar skrifað þessa bók hefði ég gefist upp löngu áður en 849 síðurnar væru fulllesnar þar sem ég sóttist eftir öðru en þessi bók gaf mér.

Stephen King er frábær rithöfundur og hefði einhver annar skrifað þessa bók hefði ég gefist upp löngu áður en 849 síðurnar væru fulllesnar þar sem ég sóttist eftir öðru en þessi bók gaf mér. Sumt sem hann gerir dregur dálítið úr möguleika hans til að verða virkilegur risi í bókmenntaheiminum, eins og sú staðreynd að nær allar persónurnar eru mjög fyrirsjáanlegar. Þær eru annað hvort mjög góðar, skynsamar og taka alltaf réttar óeigingjarnar ákvarðanir eða illar inn að beini og bregðast fólki á versta mögulega hátt þegar á reynir. Það er voða lítið um grá svæði í þessum efnum.

Góðir eru alltaf góðir og vondir eru alltaf vondir. Einnig eru viðræðurnar ósjaldan aðeins of fullkomnar og passa ekki við það hvernig fólk talar hversdagslega sem tekur mann dálítið úr heimi bókarinnar. En þetta er eitthvað sem er í flestum ritum hans og skrifast frekar á ritstíl Stephen King frekar en á einhver ákveðin verk. Maður veit að hverju maður gengur með Stephen King, það er ákveðinn ævintýrabragur yfir öllu saman; hetjur og skúrkar, súrt og sætt, hið góða sigrar yfirleitt en með miklum fórnum.

Þrátt fyrir ofan nefnt sé ég ekki eftir þvi að hafa lesið 11/22/63. Hún fær 3 stjörnur af 5; hún hefði mátt vera styttri og hnitmiðaðri. Hún hefði mátt útskýra suma hluti betur og aðra hluti minna, það vantaði ákveðið jafnvægi. En eftir stendur að Stephen King gæti skrifað um að skrifa og gert það spennandi (sem hann gerði í On Writing). Bókin ætti hins vegar að koma með aðvörun: „Lesist ekki ef þú býst við einhverju í líkingu við IT, The Stand eða Dark Tower.“

Steinar Logi

Deila efni

Tögg: , , ,


Upplýsingar um höfund:

Birt af ritstjórnSkildu eftir svar

Efst upp ↑