Bækur og blöð

Birt þann 12. október, 2011 | Höfundur: Nörd Norðursins

1

Þriðja besta vísindaskáldsaga allra tíma!

Jóhann Þórsson fjallar um FIMM BESTU VÍSINDASKÁLDSÖGUR ALLRA TÍMA.

Neuromancer og Snow Crash – Cyberpönkið sameinað.

Cyberpönk er sérgrein innan vísindaskáldsagna og byrjaði í raun og veru í bók William Gibson, Neuromancer. Það sem sameinar cyberpönkið er tækni á mjög háu stigi aðgengileg almenningi, einkafyrirtæki sem ráða heiminum og áberandi post-apocalyptic fílingur, þó ekkert bendi til að slíkur atburður hafi átt sér stað. Í báðum bókunum er nokkurs konar eilíf nótt, það eru a.m.k. allar lýsingar og öll frásögning þannig að erfitt sé að sjá hlutina fyrir sér öðruvísi en að kvöldi eða um nótt.

Fljótlegasta leiðin til að fá upp hugmyndina um cyberpönk er að hugsa um bíómyndina Blade Runner eða þau atriði Star Wars myndanna sem gerast á Coruscant. Þó skal tekið fram að bókin Do Androids Dream of Electric Sheep, sem Blade Runner er byggð á, telst seint cyberpönk.

En aftur að bókunum. Neuromancer fjallar um Case, sem er „tölvuþrjótur“ sem getur samt ekki loggað sig inn á netið lengur eftir aðmiðtaugakerfi hans var eyðilagt af manni sem hann sveik (það tengja sig allir beint inn á cyberspace, eða eins og það er líka kallað í bókinni, the Matrix. (Núna er tíminn til að átta sig á því að bókin er skrifuð árið 1984). Hann fær tilboð frá manni sem býðst til að lækna hann í skiptum fyrir að hann brjótist inn í tölvukerfi. Eftir smá athuganir á Armitage, sem er sá sem býður honum vinnuna, kemst Case að því að hann er í raun að vinna fyrir risa gervigreind sem vill sameinast annarri.

Neuromancer er algjör lykilbók í vísindaskáldskapsgeiranum, og komst meðal annars á lista TIME yfir 100 bestu skáldsögur frá 1923. Hún gerði orðið „cyberspace“ að því sem það er í dag, og sá fyrir árásir og varnir við árásum á netinu. Ef eitt orð ætti að lýsa bókinni, þá væri það „kúl“. Það er allt svo svalt við þessa bók, karakterarnir, stóru tölvurnar Wintermute og Neuromancer, heimurinn og orðalagið.

Á einum stað fara aðalsögupersónurnar á veitingastað og Case pantar steik en lǽtur svo vera að borða hana. Þá segir einhver: „You know they had to raise a whole animal just so you could have that.“ Mér fannst flott hvað Gibson lét það hljóma fáranlega að verið væri að ala upp heila skepnu, gefa henni mat, vatn og pláss sem gæti nýst mannveru, bara svo maður gæti fengið sér steik.

You know they had to raise a whole animal just so you could have that.

Neuromancer var fyrsta bókin til að vinna öll þrenn helstu verðlaun vísindaskáldsagnageirans, Hugo, Nebula og Philip K. Dick verðlaunin. Neuromancer rokkar.

Snow Crash fjallar um svipaða hetju og Case í Neuromancer, einfarann Hiro Protagonist (besta nafn ever?) sem vinnur sem pitsasendill í nálægri framtíð en er einnig snillingur með samurai sverð og, jú, er tölvuþrjótur. Snow Crash er afar svipuð Neuromancer þegar kemur að stíl og heimsmynd en tekur sig einhvernveginn ekki alveg eins alvarlega (Hiro er t.d. í byrjun bókarinnar pitsasendill fyrir mafíuna) og er fyrir vikið ekki alveg eins góð. En góð er hún þó. Hún er skrifuð 1992 en lýsir interneti sem er ansi líkt því sem það er í dag, en þó þannig að maður er alltaf inni á því í þrívidd; í raun er eftirmynd manns á netinu. Mikill hluti bókarinnar, líkt og Neuromancer, á sér stað á netinu en þó er þar allt mjög sjónrænt. Notkun Neil Stephenson á orðinu „avatar“ í Snow Crash varð til þess að orðið er nú notað til að tákna myndir af notendum á netinu í daglegu tali.

Hiro kemst að því að einhver er að dreifa tölvuvírus sem kallast Snow Crash sem er svo skæður að hann drepur heilastarfsemi þeirra sem fá hann, smitast þannig yfir netið og inn í líkama notandans. Hiro vinnur að því, ásamt Y.T. (Yours Truly) að komast að því hver sé á bakvið þetta. Þetta leiðir Hiro inn í heim tungumálasögu og goðsagnarinnar um Babel turninn, sem hægir reyndar á framvindu sögunnar.

Snow Crash, öfugt við Neuromancer, hlaut engin verðlaun en var tilnefnd til bæði British Science Fiction og Arthur C Clarke verðlaunanna. Snow Crash er erfiðari aflestrar en Neuromancer, og á tímabili fór fræðin fram úr öllu hófi þannig að ég hoppaði yfir blaðsíður, sem ég geri annars afar sjaldan.

Bækurnar saman eru snilld. Finnið ykkur gott teknó, gott tómarúm og tætið þær í ykkur.

Bækurnar saman eru snilld. Finnið ykkur gott teknó, gott tómarúm og tætið þær í ykkur.

Cyberpönkið, Neuromancer og Snow Crash, eru sameiginlega í þriðja sæti yfir bestu vísindaskáldsögur allra tíma.

Jóhann Þórsson

Deila efni

Tögg: , , , , , , , , ,


Upplýsingar um höfund:

Birt af ritstjórnOne Response to Þriðja besta vísindaskáldsaga allra tíma!

  1. Pingback: Vísindaskáldskapur « Jóhann Þórsson

Skildu eftir svar

Efst upp ↑