Leikjarýni

Birt þann 22. september, 2024 | Höfundur: Unnur Sól

0

Cult of the Lamb – Krúttlegt kaos sem þú munt elska

Cult of the Lamb – Krúttlegt kaos sem þú munt elska Unnur Sól

Samantekt: Einstök blanda af taugatrekkjandi bardögum og rólegri uppbyggingu samfélags þar sem þú stjórnar krúttlegum en djöfullegum söfnuði.

4

Skemmtilegur


Í Cult of the Lamb spilarðu sem lamb sem hefur verið bjargað frá dauðanum af dularfullri veru sem fer fram á að þú endurgjaldir lífgjöfina með því að stofna og stjórna eigin sértrúarsöfnuði.

Leikurinn er einstök blanda af tveimur ólíkum spilunarstílum: annars vegar stjórnun og uppbyggingu safnaðarins þar sem þú sérð um fylgjendur þína, byggir fyrir þá byggingar og heldur þeim ánægðum og hins vegar dýflissuherferðir þar sem þú ferð inn í hættulegar dýflissur, safnar auðlindum og berst við óvini.

Þessi blanda af samfélagsstjórnun og dýflissukönnun heldur spiluninni ferskri og spennandi. Á meðan þú byggir upp þitt eigið smáríki af fylgjendum, þarftu líka að sigrast á hættulegum óvinum og reisa sjálfan þig sem voldugan leiðtoga.

Leikurinn er fullkomin blanda af krúttlegu og djöfullegu. Allir þættir hans eru einstaklega ánægjulegir og veita spilurum tilfinningu fyrir stjórn á kaotískum heimi sem þeir sjálfir skapa. Þessi einstaki stíll fangaði mig frá upphafi og er leikurinn bæði skemmtilegur og ótrúlega heillandi.

Leikurinn skiptist í tvo meginhluta. Annars vegar dýflissuhlutann, þar sem þú ferð í gegnum dýflissur og berst við óvini í rogue-like stíl, og hins vegar stjórnunarkaflann, þar sem þú stjórnar þínum eigin söfnuði, sérð um fylgjendur og byggir upp samfélagið þeirra. Það er eitthvað sérstaklega spennandi við að rótera á milli þessara spilunarstíla – bardaga í dýflissum og rólega stjórnun safnaðarins. Það minnir svolítið á blöndu af leikjunum Binding of Isaac og Animal Crossing, en Cult of the Lamb hefur sinn einstaka sjarma sem enginn annar leikur jafnast á við.

Þú getur verið góður leiðtogi, sem heldur þeim glöðum og tryggum með blíðu og góðmennsku eða þú getur fetað myrkari slóð og notað fórnir, refsingar og hræðslu til að tryggja hollustu þeirra.

Einn af sterkustu þáttum leiksins er hversu vel hann blandar saman þessum ólíku spilunarstílum. Þú færð adrenalínið í bardögunum en getur svo slakað á og fengið listræna útrás í því að byggja upp samfélagið þitt. Það eru óteljandi leiðir til að skreyta og sérsníða heiminn þinn og það gerir upplifunina svo persónulega. Það er mjög ánægjulegt að fylgjast með söfnuðinum stækka smám saman, verða tæknilegri og verkefni eins og að þrífa upp skít eða sjá um matjurtagarðinn verður útvistað til fylgjanda þinna. Hver fylgjandi í söfnuðinum þínum er með sinn eigin persónuleika, hægt er að breyta útliti og nafni hvers meðlims sem gerir það að verkum að þú myndar tengsl við þá og viðheldur áhuganum.

Það sem gerir leikinn sérstaklega heillandi er hvernig þú færð val um hvernig þú kemur fram við fylgjendur þína. Þú getur verið góður leiðtogi, sem heldur þeim glöðum og tryggum með blíðu og góðmennsku eða þú getur fetað myrkari slóð og notað fórnir, refsingar og hræðslu til að tryggja hollustu þeirra. Þetta er ekki bara siðferðisleg ákvörðun – val þitt hefur bein áhrif á kraft þinn og stöðu safnaðarins.

Dýflissuhlutinn er með handahófskenndri uppsetningu og mismunandi hluti sem þú getur áskotnast sem gerir hvert skipti nokkuð einstakt. Þessi hluti leiksins er u.þ.b. 10 mínútur í spilun þar sem þú endar á að þurfa að takast á í erfiðum boss-bardaga. Þessi hluti skortir því þessa kunnulegu spennu um að sjá hversu djúpt í dýflissuna spilunin leiðir mann en lang stærsti hluti minnar spilunar fór í stjórnunarhluta leiksins. Bardagakerfið sjálft er einfalt og flestir munu líklega fljótlega auka erfiðleikastigið. Þrátt fyrir einfaldleikann er bardagaspilunin mjög skemmtileg – þú ert með tvo vopnaárásarmöguleika, bölvunarkraft og rúllustökk til að forðast árásir óvina. Tarot spil sem þú dregur veita þér tímabundna hæfileika, eins og auka hjarta eða meiri hraða, sem gerir bardagana fjölbreyttari.

Fyrir utan þessa tvo meginþætti er leikurinn fullur af öðrum litlum ævintýrum og svæðum til að skoða. Þú getur spilað teningaspil, veitt fisk og kannað önnur svæði þar sem þú hittir sérkennilega karaktera sem bjóða þér ný verkefni, selja þér tarot spil eða veita þér önnur verðmæti sem þú getur notað til að bæta stöðu þína og safnaðarins. Þessir karakterar eru ótrúlega vel hannaðir og hafa sitt eigið sérkenni sem gerir þá ógleymanlega. Þessi auka svæði gera leikinn enn fjölbreyttari.

Unholy Alliance – Ný tveggja spilara upplifun

Leikurinn kom út árið 2022 en það sem hefur haldið leiknum ferskum er hversu reglulegar uppfærslur hann fær, þessar uppfærslur innihalda yfirleitt nýjar persónur í söfnuðinn og ný fylgjenda quest. Í ágúst síðastliðnum kom út uppfærslan Unholy Alliance sem gerir tveimur spilurum kleift að spila saman. Spilari tvö fer í hlutverk geitar og fær sama hlutverk og stjórn og aðalpersónan, lambið.

Tveggja spilara spilunin bætir skemmtilega við upplifunina, sérstaklega í dýflissuhlutanum. Svæðin eru nógu lítil til að myndavélin haldist á þægilegu svæði fyrir báða spilara. Hjartafjöldinn er helmingaður þannig að saman eru þið með jafnmörg hjörtu og í eins manns spilun. Þetta krefst meiri samvinnu þar sem ef annar spilari fellur þarf hinn að eyða einu hjarta til að endurlífga félagann. Það er þó sjaldan þörf á því þar sem félaginn endurlífgast með 1 hjarta eftir hvern lítinn bardaga sem gerir það óþarft að endurlífga á miðjum bardaga. Á heildina litið er þetta vel útfært og heldur dýflissuævintýrinu lifandi og spennandi.

Hins vegar getur tveggja spilara spilun verið svolítið pirrandi í stjórnunarkaflanum. Þegar annar spilari er að eiga samskipti við fylgjendur þysjast myndavélin inn á það svæði og hinn spilarinn þarf að bíða. Einnig eru þið föst á sama svæði þar sem myndavélin leyfir ykkur ekki að vera of langt í sundur, sem getur verið pirrandi þegar báðir vilja sinna ólíkum verkefnum á fjarlægum stöðum. Það væri mun betra að hafa þennan hluta í split screen.

Allt í allt er samspil tveggja spilara virkilega skemmtilegt. Leikurinn er svo krúttlegur og fyndinn að það er frábært að deila upplifuninni með öðrum. Þið munið hlæja saman yfir ótrúlegum augnablikum bæði í bardögum og í uppbyggingu samfélagsins. Fyrir þá sem hafa gaman af því að vinna saman, er Cult of the Lamb í tveggja spilara ham frábær viðbót við upprunalegu spilunina.

Samantekt

Cult of the Lamb er leikur sem sameinar dýflissubardaga og samfélagsstjórnun á einstakan hátt. Hann býður upp á blöndu af spennandi bardögum og rólegri uppbyggingu sértrúarsafnaðar. Leikurinn tekst á við andstæður, þar sem krúttleg grafík mætir dökku þema sem gerir upplifunina einstaka. Reglulegar uppfærslur hafa haldið leiknum ferskum, og nýja tveggja spilara spilunin bætir við skemmtilegum möguleikum fyrir þá sem vilja deila þessari upplifun með öðrum.

Ef þú ert að leita að leik sem getur bæði fengið þig til að brosa yfir fyndnum augnablikum og svitna yfir erfiðum bardögum, þá er Cult of the Lamb leikurinn fyrir þig. Leikurinn er bæði fyndinn og dramatískur, spennandi og rólegur, og heldur þér við efnið frá fyrstu mínútu til hinnar síðustu.

Deila efni

Tögg: , , ,


Upplýsingar um höfund:



Efst upp ↑