Vefur Nörd Norðursins hefur fengið andlitslyftingu og er orðinn hraðvirkari og skilvirkari en áður. Enn er verið að ganga frá lausum endum og við biðjumst velvirðingar á villum sem kunna að koma upp á meðan vinna stendur yfir.
Samhliða nýju útlitið hefur verið ákveðið að leggja ríkari áherslu á efni sem tengjast tölvuleikjum. Nú er til að mynda hægt með auðveldum hætti að finna nýjustu fréttir, greinar, leikjarýni, Leikjavarpsþætti og annað efni sem tengist tölvuleikjum á heimasíðunni. Opnað hefur fyrir nýja flokk sem ber heitið íslenskt, þar verður hægt að nálgast efni sem tengist íslenskum leikjafyrirtækjum, íslenskum tölvuleikjaspilurum, leikjum, viðburðum og fleiru sem tengist Íslandi og Íslendingum. Einnig breytum við einkunnarkerfinu okkar sem hefur miðast við fimm stjörnu skalann en tökum nú upp 0-10 einkunnarkerfi. Eldri leikjarýni þar sem leikur fékk 4 af 5 stjörnur fær því 8,0 af 10,0 í einkunn í nýja einkunnarkerfinu.
Einnig breytum við einkunnarkerfinu okkar sem hefur miðast við fimm stjörnu skalann en tökum nú upp 0-10 einkunnarkerfi.
Annað efni sem hefur fengið minna vægi undanfarin ár víkur, þó verður hægt að nálgast efnið áfram á vef Nörd Norðursins. Óvirkir flokkar eru kvikmyndir, spil og bækur og blöð.
Nörd Norðursins hóf göngu sína í apríl árið 2011 sem veftímarit og voru gefin út alls fimm tölublöð. Í ágúst sama ár var útgáfu tímaritsins hætt og vefur opnaður þar sem fjölbreytt efni sem tengist tölvuleikjum og ýmsu öðru sem má tengja við nördamenningu var birt. Árið 2013 var útlit vefsins uppfært og aftur árið 2016 og hefur það haldist að mestu óbreytt síðan þá – þar til nú.
Markmið Nörd Norðursins hefur ávallt verið að vekja athygli á nördamenningunni á íslensku og fjalla þar á meðal um tölvuleiki, kvikmyndir, spil og fleira sem má skilgreina sem nördalegt. Á vefnum okkar má finna um 2.500 færslur í heildina og munum við halda áfram að birta fjölbreytt efni tengt tölvuleikjum á síðunni okkar og samfélagsmiðlum.
