Greinar

Birt þann 4. maí, 2023 | Höfundur: Sveinn A. Gunnarsson

0

Frekar ókláruð PC útgáfa

Frekar ókláruð PC útgáfa Sveinn A. Gunnarsson

Samantekt: Slök útgáfa af frábærum leik. Spilið frekar PS5 eða eldri útgáfur hans.

2

Frekar brotinn


The Last of Us er einn af þekktustu og vinsælustu leikjum sem hefur komið út á Playstation. Upprunalega kom leikurinn út á PlayStation 3 árið 2013 og fagnar því 10 ára afmæli sínu. Leikurinn fékk svo Remaster útgáfu fyrir PS4 ári síðar. 

Í september síðasta ára kom út endurgerð útgáfa The Last of Us Part I á PS5 með þeirri tækni sem hafði verið notuð í The Last of Us Part 2 ásamt öðrum leikjum Naughty Dog fyrirtækisins. Ólíkt Remaster útgáfunni á PS4, sem var betrumbætt útgáfa sem keyrði á betri rammahraða (fps) og hærri upplausn, þá er þessi nýja útgáfa endurbyggð frá grunni án þess að breyta upprunalegu sýn leiksins of mikið.

Tilgangurinn var að nútímavæða vissa hluta leiksins og nýta aukinn kraft PS5. Þegar þessi nýja útgáfan var kynnt var einnig minnst á að við ættum von á þessari útgáfu á PC og fyrir stuttu kom sú útgáfa út í Steam og Epic Store búðunum.

Leikjarisinn Sony hefur síðustu árin verið að opna fyrir að stærstu leikir þeirra komi út fyrir PC tölvur og höfum við fengið leiki eins og Days Gone, Flower, God of War (2018), Horizon: Zero Dawn, Spider-Man: Remastered, Returnal, Uncharted: Legacy of Thieves safnið auk annarra titla.

Þetta er plan PlayStation til að víkka hóp þeirra sem spila leiki þeirra og eitthvað sem Microsoft hafa verið mjög duglegir við í mörg ár.

Að mestu hefur þetta gengið vel fyrir Sony og hafa þessar uppfærðu PC útgáfur innihaldið stuðning við nýjustu tækni sem er í boði hverju sinni á PC ásamt þeim uppfærslu möguleikum sem verða í boði í framtíðinni. 

Það sem stendur upp úr fyrir PC útgáfuna af The Last of Us Part I er:

  • AMD FSR 2.2 og Nvidia DLSS sem sem býður upp á uppskölun grafíkar úr lægri upplausn yfir í hærri án þess að notandinn taki eftir of mikilli breytingu á gæðum leiksins. Einnig getur þessi tækni hjálpað mikið við ramma hraða (fps) leikja og fyrir leiki sem þurfa mikið afl til að keyra sem best. 
  • Leikurinn hefur verið endurgerður í The Last of Us Part 2 grafíkvélinni ásamt Left Behind DLC pakkanum.
  • 21:9 Ultrawide og 32:9 Super Ultrawide tölvuskjái. 
  • 3D hljóð í gegnum heyrnartól eða heimabíó eða hátalara.
  • Hægt er að nota PS5 DualSense fjarstýringu með kapli til að fá alla þá möguleika sem eru í boði á PlayStation 5. Að auki er stuðningur við allar helstu fjarstýringar, lyklaborð og mýs. Auðvelt er að sérsníða stjórnun leiksins að eigin þörf og jafnvel hoppa á milli músar og lyklaborðs og DualSense. 
  • Að auki eru allar þær nýjungar sem PS5 endurgerðin innihélt eins og “Permadeath” erfiðleika stilling, photo mode, speedrun mode, 4K upplausn í annað hvort 30 eða 60 römmum á sek, aðgengi stillingar fyrir sjón og heyrnarskerta ásamt öðru.

Ég hef einmitt sjálfur verið að renna í marga af þessum leikjum í gegnum tíðina og fjallað um þá hérna á Nörd Norðursins og má finna tengla á þær PC útgáfur hérna fyrir ofan í textanum. Það var stórt og jákvætt skref þegar að Sony keyptu hollenska fyrirtækið Nixxes sumarið 2021 og var búist við að þeir myndu leiða vinnuna við tilfærslu leikja frá PlayStation yfir á PC tölvur, eitthvað sem fyrirtækið hafði gert við góðan orðstír í mörg ár. Þeir unnu einmitt að Spider-Man: Remastered og Spider-Man: Miles Morales PC útgáfunum en það er ekki vitað hvað fyrirtækið er að vinna að núna.

Því miður komu þeir ekki að PC útgáfunni af The Last of Us Part I, heldur var það unnið innan Naughty Dog Studios með aðstoð frá Iron Galaxy sem hafa unnið að porta leiki eins og The Elder Scrolls V: Skyrim á Nintendo Switch, Crash Bandicoot N Sane Trilogy á PC að auki við aðra titla og unnið að stuðningi við önnur leikjastúdíó. 

Það sem ég rak mig fyrst á eftir að hafa ræst upp PC útgáfu leiksins var það sem kallast Shader Compilation sem byrjar í fyrsta sinn þegar þú ræsir upp leikinn. Þetta er hlutur sem leikir á PC og leikjavélar nota oft í byrjun til að minna hleðslu hluta leiks síðar meir og geta minnkað visst hökt í leikjaspilun ef það þarf að reikna út ljós, skugga, pixla og aðra grafík í miðri spilun. Gallinn hérna er að í fyrsta sinn hjá mér tók það rétt um 1 klukkutíma að gera þetta áður en ég gat byrjað að spila leikinn.

Þegar var svo komið inn í leikinn var það ekki mikið betra, í fyrstu átti leikurinn talsvert til að krassa aftur á skjáborðið, persónur og hlutir í leiknum átti til að haga sér skringilega, og keyra mjög illa á kraftmiklum vélbúnaði. Vélbúnaðarkröfur leiksins á PC eru vægast samt háar og er fólk með nokkur hundruð þúsund króna skjákort og tölvur í takt við það að lenda í vanda við að keyra leikinn í stöðugum gæðum og fps án þess að notast við lækkun ýmsa stillinga og notast við DLSS eða AMD FSR bara til að fá stöðug gæði. Leikurinn er t.d með kröfur um 16-32GB vinnsluminni á tölvu og það er bjartsýni að reyna að keyra leikinn ef þú ert með minna skjákort minni en 8GB og jafnvel það er á mörkunum að vera nóg. Ég er með Nvidia GeForce 3080Ti skjákort með 12GB minni og það var í raun ekki nóg fyrir leikinn.

Það sem virðist vera með þessa útgáfu að henni hafið verið ýtt út of snemma og þurft einhverjar vikur eða mánuði í vinnslu til að slípa leikinn til og laga hvernig hann keyrir á PC. Margir eru með þær tilgátur að það hafi verið einhver pressa að ná að gefa leikinn út á meðan að The Last of Us þættir HBO sjónvarpsstöðvarinnar voru enn í loftinu og athyglin á seríunni sem mest. 

Það eru búnir að koma út fimm plástrar (patches) fyrir leikinn síðan að hann kom út í lok mars og hefur sumt skánað, annað versnað og virðist vera að það þurfi talsvert en til að leikurinn standi undir því góða nafni sem serían hefur unnið sér inn á PlayStation leikja vélunum síðustu 10 árin. 

The Last of Us er einn besti leikur síðustu ára, sama hvaða vél er skoðað og mæli ég innilega með að fólk spili leikinn ef það hefur ekki gert það ennþá. En það er líklega gáfulegra að skoða Remaster útgáfuna á PS4 eða endurgerðina á PS5. Sú síðari er hrikalega vel gerð og dæmdi Bjarki hana einmitt á síðunni fyrir okkur. 

Það er vonandi að Sony og fyrirtækin tengd þeim læri af þessari reynslu og sjái til að leikir þeirra komi út í betra ástandi. Við eigum enn inni leiki eins og Horizon Forbidden West og God of War: Ragnarök sem eiga eftir að koma út á PC og eiga þeir klárlega bara það besta skilið og sem flestir nái að spila þessa skemmtilegu leiki.

Hvernig væri svo að koma með Demon’s Souls endurgerðina á PC og útgáfu af Bloodborne, Sony? Ég skal fyrirgefa ykkur flest þá.

Deila efni

Tögg: , , , , , , , , , , ,


Upplýsingar um höfund:Comments are closed.

Efst upp ↑