Leikjarýni

Birt þann 11. apríl, 2017 | Höfundur: Daníel Rósinkrans

Leikjarýni: Horizon Zero Dawn – „Falleg og dularfull veröld“

Leikjarýni: Horizon Zero Dawn – „Falleg og dularfull veröld“ Daníel Rósinkrans

Samantekt: Forvitnileg veröld sem verður ætíð betri og áhugaverðari eftir því lengra sem komið er inn í leikinn.

4

Góður


Einkunn lesenda: 4.9 (2 atkvæði)

Í heil níu ár keyrði Guerilla Games leikjaframleiðandinn Killzone leikjaseríuna áfram í samstarfi við Sony þrátt fyrir misgóðar viðtökur eftir því sem leið á seríuna. Árið 2015 á E3 leikjaráðstefnuninni kynnti fyrirtækið óvænt til leiks splunku nýjan leik sem var gjörbreyting á því sem fyrirtækið hafði áður unnið að.

Sá leikur sem um er rætt er að sjálfsögðu Horizon: Zero Dawn sem kom út fyrir PlayStation 4 leikjatölvuna í byrjun mars. Má segja að þeim hafi loksins verið gefið leyfi til að yfirgefa þann vettvang sem við þekktum of vel, sem Killzone serían bauð upp á, og fengu síðan að hanna eitthvað algjörlega nýtt. Að fara úr fyrstu persónu skotleikja seríu yfir í þriðju persónu ævintýra og hasar leik er alls ekkert auðvelt.

SAGA

Leikurinn gerist í dularfullum heimi, á plánetunni okkar samt sem áður, löngu eftir að öllu mannkyninu hefur verið nánast eytt út. Eftir standa ættbálkar af ýmsum toga sem minna helst á steinaldarmenn sem berjast fyrir lífi sínu með spjótum, bogum, örvum og samskonar vopnum. Í þessum ævintýra heimi kynnumst við kvenkynspersónunni Aloy sem hefur verið dæmd í útlegð frá fæðingu vegna uppruna hennar.

Leikurinn gerist í dularfullum heimi, á plánetunni okkar samt sem áður, löngu eftir að öllu mannkyninu hefur verið nánast eytt út.

Árin líða og hefur Aloy sett sér þau markmið að gerast meðlimur eins ættbálksins og vinna sér inn blessun hans. Til stuðnings hefur hún Rost, fósturföður hennar, sem aðstoðar hana og kennir henni að bregðast rétt við ýmsum hættum sem finnast í náttúrunni. En ævisaga hennar er langt því frá að vera miðpunkturinn í þessu ferðalagi þar sem sjálfur heimurinn stelur algjörlega senunni og „lífverurnar“ sem fyrirfinnast í honum. Á meðal mannfólksins er að finna vélmenni sem haga sér eins og dýr af allskonar toga sem við þekkjum svo vel í okkar heimi. Leikurinn vinnur mikið með þau og er það hlutverk spilarans að komast að uppruna þeirra og hvaða tilgangi þau þjóna í heiminum.

SPILUN

Spilunin í Horizon er mjög kunnugleg og fær í láni formúlur úr öðrum leikjum sem við þekkjum svo vel í dag. Í honum er að finna smjörþef af leikjum á borð við Tomb Raider, Uncharted og jafnvel Aassassins svo eitthvað sé nefnt. Út frá þeim hugmyndum verður til heldur skemmtileg blanda sem gaman er að spila með út leikinn.

Spilunin í Horizon er mjög kunnugleg og fær í láni formúlur úr öðrum leikjum sem við þekkjum svo vel í dag.

Þótt mannkynið sé nánast útdautt er tæknin sem var uppi áður enn þá til staðar. Aloy uppgötvar heldur skemmtilegan hlut í byrjun leiksins er nefnist „Focus“, sem minnir svolítið á handfrjálsan búnað án farsíma. Með þessum búnaði getur hún skannað og virt fyrir sér umhverfið með sýndarveruleikatækni sem gerir henni kleift að skyggnast inn í veröldina með öðru sjónarmiði. Með þessum búnaði nær leikurinn að innleiða ýmsa tækninýjungar sem og keyra leikinn í fornum stíl sem er heldur forvitnileg blanda sem kemur mjög skemmtilega út.

Í heiminum eru allskyns hættur á ferli og hefur Aloy boga og örvar sér til varnar ásamt annarra vopna. Fjölmargar örvar af ýmsum gerðum eru til staðar sem hægt er að hanna á ferðinni á hvaða tímapunkti sem er. Þær eru lykil þáttur þess að sigrast á vélmennunum sem hafa mismunandi veikleika, eftir hvaða örvar eru beittar gegn þeim.

Vélmennin setja án efa mesta svipinn á leikinn og er virkilega gaman að sjá hve mikil vinna var lögð í gerð þeirra. Því lengra sem komið er inn í leikinn fer maður að sjá allskonar skepnur,…

Vélmennin setja án efa mesta svipinn á leikinn og er virkilega gaman að sjá hve mikil vinna var lögð í gerð þeirra. Því lengra sem komið er inn í leikinn fer maður að sjá allskonar skepnur, í formi risaeðla til dæmis, sem verða sífellt erfiðari að takast á við. Þá þarf maður að byggja sig upp og læra inn á þau smátt og smátt til þess að tækla þau síðar meir. Á endanum nær maður betri tökum á þeim sem gefur manni aukið sjálfstraust og vellíðan þar sem tilfinningin minnir svolítið á ávinning, líkt og maður hafi afrekað eitthvað stórt sem er gott og blessað.

Leikurinn skartar 50 stigum (level) sem spilarinn getur unnið sér inn með því að ljúka við megin parta af sögunni, drepa skepnur eða með því að sigrast á aukaverkefnum sem eru ávallt á næsta leiti. Eftir ákveðin þrep er svo hægt að opna fyrir hæfni sem gefur Aloy auka styrkleika til þess að sigrast á umhverfinu.

HÖNNUN, GRAFÍK OG HLJÓÐ

Veröldin sem Horizon: Zero Dawn gerist í er klárlega sterkasti vendipunkturinn í öllum leiknum og lítur hann svakalega vel út. Smávægilegir þættir hefðu mátt betur fara sem hefði skilað leiknum betra vægi. Til að mynda mætti umhverfið vera örlítið frjálslegra sem og klifur geta Aloy. Það er mjög skrítið að horfa upp á litla hóla og kletta sem ættu ekki að vera henni neitt um megn en ósýnilegir veggir koma hins vegar í veg fyrir það.

Veröldin sem Horizon: Zero Dawn gerist í er klárlega sterkasti vendipunkturinn í öllum leiknum og lítur hann svakalega vel út.

Söguþráðurinn er alls ekki stórbrotinn enda ekki hans sterkasta hlið. Persónurnar sem bregða fyrir í leiknum eru flest allar litlausar sem hefðu mátt hafa betra handrit á bak við sig. Það var engin sem stóð eitthvað sérstaklega upp úr nema auðvitað Aloy sem hefði mátt vera tilfinningaríkari, sem verður henni að falli á köflum.

Þrátt fyrir ýmsa galla hér og þar lítur leikurinn stórglæsilega út og er án vafa einn flottasti PlayStation 4 leikurinn á markaðnum í dag. Leikurinn nýtir PlayStation 4 Pro 4K stuðninginn til fulls og er leikurinn sagður líta gullfallega út þegar sú upplausn er keyrð. (Því miður hafði ég ekki tök á að spila leikinn í þeirri upplausn þar sem ég á hvorki 4K sjónvarp né PS4 Pro. Ábending frá vini verður að duga í þetta sinn.)

Einnig er að finna marga galla er tengjast bæði útliti á persónum og hljóði sem hönnuðir leiksins hefðu mátt fara betur í. Samt alls ekkert Mass Effect: Andromeda slæmt. Á tímabili eru varirnar ekki alveg í takti við hljóðið sem er svo sem fyrirgefanlegt á köflum.

LOKAORÐ

Horizon: Zero Dawn er klárlega leikurinn sem Guerilla Games hefur þurft á að halda öll þessi ár sem setur fyrirtækið í topp stöðu.

Horizon: Zero Dawn er klárlega leikurinn sem Guerilla Games hefur þurft á að halda öll þessi ár sem setur fyrirtækið í topp stöðu. Það er virkilega skrítið og mjög ánægjulegt á sama tíma að sjá leikjaframleiðandann njóta sín og hanna einstaka veröld sem er uppfull af leyndardómum sem verður sífellt áhugaverðari því lengra sem kafað er inn í leikinn.

Það sést að Sony eiga fullt af hæfileikaríku starfsfólki sem er tilbúið að sýna sitt rétta andlit fái það tækifæri til þess. Guerilla Games er einstaklega gott dæmi hvað þetta dæmi varðar. Sömuleiðis eiga Guerilla Games helling inni með þessari stórfenglegu veröld. Það verður bara spennandi að sjá þá takast á við næsta verkefni. Gefi þeir sér örlítið lengri tíma að fínpússa næsta verkefni verða trompinn öll þeirra megin sem á eftir að skila ennþá betri árangri.

Deila efni

Tögg: , , , ,


Upplýsingar um höfund:



Efst upp ↑