Greinar

Birt þann 14. desember, 2021 | Höfundur: Bjarki Þór Jónsson

Fimm bestu tölvuleikir ársins 2021

Nörd Norðursins hefur valið fimm bestu tölvuleiki ársins 2021. Listann er hægt að skoða í hér fyrir neðan. Í dómnefnd Nörd Norðursins þetta árið sat undirritaður, Bjarki Þór, ásamt þeim Daníel Rósinkrans og Sveini Aðalsteini. Einhugur ríkti um hvaða leikur ætti heima í fyrsta sætinu í ár en skiptar skoðanir voru um önnur sæti á listanum. Fjallað var um topplistann og tölvuleikina fimm í þrítugasta og sjötta þætti af Leikjavarpinu, hlaðvarpsþætti Nörd Norðursins.

Fjölmargir vel heppnaðir tölvuleikir koma út ár hvert en þessir fimm leikir þykja hafa náð að skara fram úr með einhverjum hætti að mati dómefndar. Þess má geta að þá stendur kosning yfir um þessar mundir þar sem lesendur Nörd Norðursins og hlustendur Leikjavarpsins geta valið tölvuleik ársins, hægt er að taka þátt á Facebook-síðu Nörd Norðursins. Þátttakenndur fara sjálfkrafa í gjafapott og geta unnið 5.000 kr. gjafabréf í Gamestöðinni.

5. FORZA HORIZON 5

Leikurinn býður upp á skemmtilega fjölbreyttann opinn heim sem er hvorutveggja stór og spennandi.

Kappakstursleikurinn Forza Horizon 5 er gerður af tölvuleikjastúdíóinu Playground Games og er hluti af hinni frægu Forza leikjaseríu. Leikurinn býður upp á skemmtilega fjölbreyttann opinn heim sem er hvorutveggja stór og spennandi. Þar er að finna eldfjöll, skóga, strendur, bæi, borgir og margt fleira og býður opinn leikjaheimur upp á opnari spilunarmöguleika. Leikurinn náði fljótt miklum vinsældum og hlaut meðal annars þrenn verðlaun á The Game Awards, sem besti íþrótta-/kappakstursleikur, fyrir bestu hljóðhönnun og að lokum nýjunga í aðgengileika.

4. DEATHLOOP

Leikurinn býður upp á áhugaverða sögu, góða talsetningu, frumlega nálgun og nokkuð fjölbreytta spilun.

Í þessum fyrstu persónu skotleik frá Arkane Studios fer spilarinn með hlutverk Colts sem er fastur í tímalykkju. Colt hefur fengið það verkefni í hendurnar að drepa átta hugsjónarmenn á eyjunni og til þess þarf hann að ferðast milli mismunandi svæða á mismunandi tímum. Ef honum mistekst þarf hann að byrja frá byrjun og reyna aftur. Leikurinn býður upp á áhugaverða sögu, góða talsetningu, frumlega nálgun og nokkuð fjölbreytta spilun. „Ef þú hefur gaman af Dishonored ættir þú að tjékka á Deathloop“ segir Sveinn í gagnrýni sinni á leiknum sem fær fjórar stjörnur af fimm mögulegum.

3. RATCHET & CLANK: RIFT APART

Spilun leiksins er kannski ekki það eftirminnilegasta við leikinn en tæknileg útfærsla er til fyrirmyndar.

Fyrsti Ratchet & Clank leikurinn á PlayStation 5! Spilun leiksins er kannski ekki það eftirminnilegasta við leikinn en tæknileg útfærsla er til fyrirmyndar. Leikurinn er gullfallegur á sjónvarpsskjá sem styður tæknikröfur PlayStation 5 leikjatölvunnar. Ratchet & Clank: Rift Apart er þægilegur í spilun, ekki of krefjandi, inniheldur skörp myndgæði og grípandi litardýrð sem gerir leikinn áhugaverðan og eftirminnilegan. Leikurinn fékk þrjár og hálfa til fjórar stjörnur hjá strákunum sem fjölluðu um leikinn í Leikjavarpinu og voru þar sammála um að leikurinn bjóði upp á góða afþreyingu og nær að nýta sér krafta PlayStation 5 leikjatölvunnar.

2. IT TAKES TWO

It Takes Two nær að að útfara tveggja manna samvinnuleik virkilega vel og skemmtanagildið er gott út leikinn.

Fallegur tveggja manna samvinnuleikur frá Hazelight Studios (sem gerðu A Way Out). Hjón sem íhuga skilnað breytast skyndilega í litlar brúður sem þurfa að berjast fyrir lífi sínu. Ýmsar hættur leynast í umhverfinu þegar maður er smár og þarf parið að vinna vel saman til að komast í gegnum margt og mikið. Leikurinn er vel gerður en það sem stendur upp úr er sjálf spilunin. It Takes Two nær að að útfara tveggja manna samvinnuleik virkilega vel og skemmtanagildið er gott út leikinn. Verkefnin eru fjölbreytt í leiknum og inn á milli leynast erfiðari áskoranir, þrautir, endakallar og líka léttur húmor. Frábær leikur fyrir hjón, pör og vini.

1. RETURNAL

Spilunin er hröð og áskorarnirnar eru margar. Leikurinn er fljótur að refsa spilurum sem þurfa þá að endurtaka lotuna aftur. Leikurinn krefst mikillar þolinmæði og er þar af leiðandi ekki fyrir alla, „hann er haltu-mér-slepptu-mér samband í leikjaformi“ segir Steinar í gagnrýni sinni á leiknum.

Þriðju persónu róglegi (e. rogue-like) leikurinn Returnal endaði efstur á lista yfir tölvuleiki ársins að mati dómnefndar. Grafík leiksins er virkilega flott og hljóðvinnslan til fyrirmyndar. Leikurinn er eingöngu fáanlegur á PlayStation 5 og nær að nota krafta hennar vel. Spilunin er hröð og áskorarnirnar eru margar. Leikurinn er fljótur að refsa spilurum sem þurfa þá að endurtaka lotuna aftur. Leikurinn krefst mikillar þolinmæði og er þar af leiðandi ekki fyrir alla, „hann er haltu-mér-slepptu-mér samband í leikjaformi“ segir Steinar í gagnrýni sinni á leiknum. Stærsti ókostur leiksins við útgáfu var hve langar loturnar voru í leiknum en til þess að vista framgang í leiknum þurfa spilarinn að klára lotu sem getur tekið yfir tvo klukkutíma í spilun. Ef spilarinn dó á meðan þessari lotu stóð eða slökkti á leiknum var nauðsynlegt að endurtaka alla lotuna aftur frá byrjun. Þetta þótti heldur stór galli við leikinn en með nýlegri uppfærslu er hægt að vista leikinn inn í þessum lotum, þó með takmörkunum.

Steinar segir einnig í gagnrýni sinni að þessi leikur er „fyrir fólk sem vill hraða spilun og áskorun en einnig smá sögu. Hann notar vel „haptic“ eiginleika PS5 fjarstýringarinnar og eykur þannig upplifunina ásamt 3D audio eiginleikum. Hann keyrir líka á 60 FPS og í 4K þannig að þetta er ekkert slor. Lýsingin, blossar, endurvarp og allt í þeim stíl kemur frábærlega út.

Finnska leikjastúdíóið Housemarque stendur á bakvið gerð leiksins en þeir voru meðal annars þekktir fyrir Resogun (2013) sem var töluvert smærri í sniðum en Returnal. Íslendingurinn Ari Þór Arnbjörnsson kom að gerð leiksins og starfaði sem reyndur forritari (lead programmer) hjá Housemarque. Leikjavarpið tók nýlega viðtal við Ara þar sem hann fór meðal annars yfir gerð Returnal.

Fleiri leikir voru tilnefndir en náðu ekki sæti á listanum, það voru Resident Evil: Village, Hitman 3, Metroid Dread og Guardians of the Galaxy. Fleiri leikir þykja eftirminnilegir að mati dómnefndar sem vert er að nefna, það eru leikirnir Twelve Minutes, Kena: Bridge of Spirits, Halo Infinite, Football Manager 2022, Far Cry 6 og Psychonauts 2.

Mynd (myndblanda): Returnal (2021)

Deila efni

Tögg: , , , , , , , ,


Upplýsingar um höfund:Efst upp ↑