Fréttir

Birt þann 15. febrúar, 2017 | Höfundur: Bjarki Þór Jónsson

EVEREST VR nú á Oculus Rift

EVEREST VR sýndarveruleikaupplifunin frá íslenska fyrirtækinu Sólfar hefur verið fáanleg á Steam og Viveport síðan í ágúst í fyrra. EVEREST VR var búinn til í Unreal leikjavélinni og er grafíkin í honum mjög raunveruleg. Hingað til hefur aðeins verið hægt að keyra EVEREST VR með HTC Vive sýndarveruleikabúnaðinum, en í gær tilkynnti Sólfar að nú virkar EVEREST VR einnig með Oculus Rift sýndarveruleikagleraugunum og er hægt að nálgast nýju útgáfuna á Oculus Home, heimasvæði Oculus Rift.

EVEREST VR er upplifun frekar en leikur í hefðbundnum skilningi þar sem hægt er að upplifa fimm mismunandi atriði sem gerast á Everest fjalli í fyrstu persónu, þar á meðal er hægt að standa uppi á toppi þessa fræga fjalls. Það eru íslensku fyrirtækin Sólfar og RVX sem standa að gerð sýndarveruleikans. Þetta er fyrsti útgefni titillinn frá Sólfar en fyrirtækið hefur einnig verið að vinna að gerð VR-leiksins Godling sem kynntur var á E3 tölvuleikjasýningunni 2015. RVX sérhæfir sig í brellum og myndvinnslu á kvikmyndum og sá meðal annars um brellurnar í Everest myndinni sem Baltasar Kormákur leikstýrði.

EVEREST VR hefur fengið mjög blendna dóma á Steam þar sem aðeins 40% af 234 notendum gefa leiknum jákvæða einkunn. Þar gagnrýna nokkrir notendur hátt verð, og þá sérstaklega með tilliti til þess hve stuttan tíma tekur að fara í gegnum alla upplifunina, en hægt er að fara í gegnum EVEREST VR á innan við klukkutíma. Síðan þá hefur EVEREST VR lækkaði í verði. Upphaflega kostaði hann 25 dali (ca. 2.800 kr.) en kostar nú aðeins 15 dali (ca. 1.700 kr.)

SKOÐA EVEREST VR Á HEIMASÍÐU OCULUS

Skoðaðu þig um svæðið í nýju 360 gráðu myndskeiði úr EVEREST VR

Deila efni

Tögg: , , , ,


Upplýsingar um höfund:Efst upp ↑