Fréttir

Birt þann 2. ágúst, 2016 | Höfundur: Bjarki Þór Jónsson

Íslenskur Everest sýndarveruleiki lentur á Steam

Sýndarveruleikinn EVEREST VR var að lenda á Steam rétt í þessu! Það eru íslensku fyrirtækin Sólfar og RVX sem standa að gerð sýndarveruleikans sem Sólfar kynnti fyrst í nóvember á síðasta ári á heimasíðu sinni. EVEREST VR er upplifun frekar en leikur í hefðbundnum skilningi þar sem hægt er að upplifa fimm mismunandi atriði sem gerast á Everest fjalli í fyrstu persónu, þar á meðal er hægt að standa uppi á toppi þessa fræga fjalls.

Þetta er fyrsti útgefni titillinn frá Sólfar en fyrirtækið hefur einnig verið að vinna að gerð VR-leiksins Godling sem kynntur var á E3 tölvuleikjasýningunni í fyrra. RVX sérhæfir sig í brellum og myndvinnslu á kvikmyndum og sá meðal annars um brellurnar í Everest myndinni sem Baltasar Kormákur leikstýrði.

EVEREST VR var búinn til í Unreal leikjavélinni og er grafíkin í honum mjög raunveruleg. Til að spila EVEREST VR er nauðsynlegt að hafa aðgang að HTC Vive sýndarveruleikagleraugunum ásamt fjarstýringum. Eintak af EVEREST VR kostar 24,99 dali (ca. 2.900 kr. á núverandi gengi) en er á sérstökum útgáfuafslætti fyrstu dagana og kostar því 22,49 dali (ca. 2.700 kr.).

Íslensk fyrirtæki hafa verið nokkuð áberandi í VR heiminum undanfarið; CCP með útgáfau EVE Valkyrie og EVE Gunjack, Waltz of the Wizard frá Aldin Dynamics og Sólfar með EVEREST VR auk þess sem fleiri titlar eru í vinnslu, þar á meðal áðurnefndur Godling frá Sólfar og Project Arena frá CCP. Þess ber að geta að í september á þessu ári verður Slush Play ráðstefnan haldin í annað sinn í Reykjavík, en það er ráðstefna sem fókusar á sýndarveruleika og tölvuleiki.

SKOÐA EVEREST VR Á STEAM

Deila efni

Tögg: , , , ,


Upplýsingar um höfund:Efst upp ↑