Bíó og TV

Birt þann 3. ágúst, 2016 | Höfundur: Steinar Logi

Kvikmyndarýni: Suicide Squad – „vonaðist eftir Mad Max Fury Road en fékk Age of Ultron“

Kvikmyndarýni: Suicide Squad – „vonaðist eftir Mad Max Fury Road en fékk Age of Ultron“ Steinar Logi

Samantekt: Fín skemmtun en hefði getað verið betri.

3.5

Poppkornsmynd


Einkunn lesenda: 2.2 (4 atkvæði)

Það þarf ekki að kynna Suicide Squad fyrir lesendur Nörd Norðursins þannig að við vindum okkur strax í spillafría gagnrýni, enda erfitt að komast hjá því að vita eitthvað um Suicide Squad því að stiklur og auglýsingar fyrir hana hafa verið keyrðar látlaust í langan tíma. Þetta „yfirhæp“ vinnur gegn því að myndin virki því að númer eitt þá hækka væntingarnar verulega og númer tvö þá hefur Jókerinn mun minna hlutverk en maður var látinn halda.

Afgreiðum Jókerinn fyrst; Jared leto hefur einfaldlega ekki það mikinn skjátíma til að hafa mikil áhrif á myndina en hann er ekki það slæmur. Hann er enginn Heath Ledger en það sem tekst vel upp  er hversu ógnandi hann er. Það er því miður eina sem er sérstakt við hann, það vantar allan frumleikann, hann er nánast eins og hver annar brenglaður krimmi og það er handritinu að kenna ekki Leto. Ef hann hefði meiri skjátíma og væri betur skrifaður, sem hann kannski fær í myndum í framtíðinni, þá gæti hann verið fínn Jóker. Hann er bara of lítið í þessari mynd.

Jókerinn hefur ekki mikinn skjátíma

Will Smith kom mér skemmtilega á óvart, hann er alls ekki að leika sjálfan sig eins og hann hefur stundum gert og er mjög sannfærandi sem Deadshot. Hann spilar hlutverkið á lágu nótunum og treystir á sjarmann sinn sem svínvirkar. Margot Robbie sem Harley Quinn stelur samt senunni. Hún á bestu línurnar í myndinni (sem því miður voru margar hverjar í stiklunum) og nær að skapa mjög eftirminnilegan karakter, nánast nákvæmlega eins og maður ímyndaði sér hana.

Suicide_Squad_01

David Ayer notar mjög hraðan stíl með mörgum stuttum atriðum og nýja tónlist fyrir hvert þeirra í fyrri hluta myndarinnar, aðallega til að kynna allar þessar persónur fljótlega, en stundum getur þetta verið of mikið og ruglandi. Flæði myndarinnar er ójafnt á köflum og stundum er eins og myndin hoppi áfram eflaust vegna þess að eitthvað hefur verið klippt út. Hugsanlega væri lengri útgáfa betri. Annað sem hefði hjálpað myndinni er að hafa hana bannaða innan 16 ára í stað 12 ára. Markaðslega veit maður af hverju, en þessi mynd væri með mun meira bit hefði hún verið bönnuð innan 16 ára og hefði hreinlega verið betri, þetta snýst jú um vondu gaurana.

maður vonaðist eftir Mad Max Fury Road en fékk Age of Ultron.

Maður er enn með blendnar tilfinningar gagnvart Suicide Squad, það er margt gott við hana og einnig margt slæmt. Þetta er fínasta afþreying en ekki gallalaus, maður vonaðist eftir Mad Max Fury Road en fékk Age of Ultron.

Deila efni

Tögg: , , ,


Upplýsingar um höfund:



Efst upp ↑