Greinar

Birt þann 31. maí, 2015 | Höfundur: Nörd Norðursins

0

Nordic Game ráðstefnan 2015

Bjarki Þór Jónsson, ritstjóri Nörd Norðursins, ákvað því að skella sér á Nordic Game ráðstefnuna sem var haldin í Malmö í Svíþjóð dagana 20.-22. maí. Þetta er í tólfta sinn sem þessi norræna leikjaráðstefna fer fram en hún er ætluð öllum þeim sem hafa áhuga á því helsta sem er að gerast í leikjaiðnaðinum og á sama tíma tilvalið tækifæri fyrir töluvleikjafólk á Norðurlöndum til að hittast. Í ár mættu yfir 2.000 manns á ráðstefnuna samkvæmt tölum frá Nordic Game.

Fjölbreyttir fyrirlestrar

NordicGameConf_03

Yfir 90 mannst flutti erlendi á ráðstefnunni í ár. Fyrirlestrarnir voru af öllum stærðargráðum en stóru fyrirlestrarnir fóru fram í stærsta salnum sem bar heitið Unreal Theater – en Unreal er einmitt einn af stóru styrktaraðilum ráðstefnunnar. Á ráðstefnunni fór Chris Avellone (Fallout 2, Knights of the Old Republic II, Fallout: New Vegas) meðal annars yfir uppsetningu og hugmyndir sem voru notaðar fyrir þróun á Fallout: Van Buren og hvernig margar af þeim hugmyndum enduðu svo í Fallout: New Vegas þar sem gamlar glósur, teikningar og karakterar fengu nýtt líf. Nicole Lazzaro var með fyrirlesturinn “Virtual Reality, Neuropsychology, Fun and the Future of Games” og Oskar Guilbert (DONTNOD Entertainment), David Gaider (Bioware) og Brie Code (Child of Light, Ubisoft) voru meðal þeirra sem fluttu erindi. Fyrirlestrarnir voru fjölbreyttir og náðu yfir breitt svið svo þarna fundu flest allir eitthvað við sitt hæfi.

Íslensk náttúra í boði Samsung

NordicGameConf_01

Opið sýningarsvæði var opið gestum Nordic Game ráðstefnunnar. Þar var meðal annars hægt að prófa sýndarveruleikagleraugu frá Samsung og taka rúnt um náttúru Íslands. Þar var flogið yfir landið okkar fagra, fylgst með íslenska hestinum og staðið á bak við Seljalandsfoss svo eitthvað sé nefnt. Þarna var einnig almenn kynning á leikjaiðnaðinum á Norðurlöndum, þrívíddarprentun, og hægt að prófa ýmsa leiki sem eru væntanlegir.

NordicGameConf_02

Einnig voru tækninýjungar kynntar. King leikjafyrirtækið bauð gestum meðal annars uppá að prófa sérstakan leik þar sem hugarorkan og einbeiting eru lykillinn að sigri. Þá sitja andstæðingar sitt hvoru megin við borð og kúla er sett á milli þeirra. Hver keppandi festir tæki utan um höfuðið sem mælir þessa einbeitingu og var hægt að sjá línurit yfir styrk spilaranna. Markmiðið var að ýta kúlunni frá sér og sá sem var fyrstu að ýta henni alla leið til andstæðingsins með einbeitingunni sigraði leikinn.

Íslensk leikjafyrirtæki á svæðinu

Mussikids_01Að minnsta kosti þrjú – og hálft – íslensk tölvuleikjafyrirtæki voru á staðnum þetta árið; Rosamosi, Solid Clouds og Radiant Games.

Rosamosi fékk styrk upp á 200.000 danskar krónur (tæpar fjórar milljónir í íslenskum krónum) frá Nordic Game til að þróa Mussikids sem er tónlistarleikur ætlaður krökkum. Til gamans má geta að þá hlaut Plain Vanilla svipaðan styrk á sínum tíma til að þróa barnaleikinn The Moogies, en eftir útgáfu leiksins fór fyrirtækið að þróa QuizUp spurningar-appið sem flestir Íslendingar þekkja í dag.

Solid Clouds var á staðnum til að vekja athygli á herkænskutölvuleiknum sínum PROSPER sem gerist í geimnum og inniheldur risavaxinn geim þar sem spilarar keppa um yfirráðasvæði. Leikurinn sækir það besta úr borðspilum þar sem einstaklingar og hópar keppa á móti hvor öðrum (í stað þess að spila á móti tölvunni) þar sem hver leikur mun taka u.þ.b. sex mánuði að klára. Solid Clouds voru áberandi á Slush Play ráðstefnunni í Reykjavík í seinasta mánuði og sýndi dómnefnd leiknum þeirra sérstakan áhuga. Vefsíðan VentureBeats birti nýlega grein um Soldi Clouds og kallaði fyrirtækið “”hið nýja CCP” á Íslandi”, en stór hluti starfsmanna Solid Clouds koma frá CCP.

PROSPER_01

Þeir hjá Radiant Games voru einnig á staðnum en þeir eru að vinna að gerð Box Island sem á að kenna krökkum grunnatriði í forritun á einfaldan og skemmtilegan hátt. Í leiknum eiga krakkarnir að leysa þrautir sem tengjast forritun en kennslunni er vafið inní fallegan leikjaheim með skemmtilegri sögu og áhugaverðum karakterum svo það má segja að lærdómur verði „leikur einn“. Til gamans má geta þá tók Radiant Games þátt í Imagine Cup 2012 og lentu þar í 4.-5. sæti með leikinn Robert’s Quest.

Box_Island

Færri Íslendingar hafa eflaust heyrt talað um Bifrost Entertainment en það leikjafyrirtæki er staðsett í Noregi. Fyrirtækið er óbeint tengt Íslandi en einn af stofnendum fyrirtækisins, Kalli Karlsson, á rætur sínar að rekja til Íslands. Fyrirtækið sýndi úr leiknum sínum Myriad á indíkvöldinu sem haldið var á ráðstefnunni, en sá leikur er enn á vinnslustigi. Myriad fer nýjar og óhefðbundnar leiðir og má segja að leikurinn sé einskonar samblanda af tvívíddar geimskotleik og abstrakt list í bland við taktfasta teknótónlist. Í leiknum þarf spilarinn að skjóta óvini með því að færa umhverfið til og eiga við tímann. Hljómar einkinnilega eða flókið? Það er kannski vegna þess að þetta er einn af þessum leikjum sem maður verður hreinlega að prófa til að skilja almennilega. Hægt er að skoða sýnishorn úr leiknum hér fyrir neðan.

Fleiri indíleikir voru til sýnis á umræddu indíkvöldi og má þar meðal annars nefna fílaherminn Awkward Ellie þar sem spilarinn fer í hlutverk fíls í teboði. Þar þarft hann að drekka te, hella í bolla og skera kökur og fleira sem skiptir miklu máli þegar verið er að halda gott teboð. Manuel Samuel var einnig til sýnis en í honum eru einfaldir hlutir gerðir ótrúlega flóknir á kómískan hátt (svipað og QWOP og Surgeon Simulator); allt frá því að láta Samuel einfaldlega að labba á milli staða yfir í flóknari hluti, eins og að stjórna honum í sturtu og setja sjampó í hárið. Þetta er mun flóknara og erfiðara en það hljómar!

Nordic Game Awards 2015

NordicGameConf_NGA15

Einn af stóru viðburðunum ár hvert er Nordic Game Awards þar sem helstu leikirnir frá Norðurlöndunum eru tilnefndir í sex flokkum. Í dómnefnd voru aðilar frá öllum Norðurlöndunum og Bjarki Þór, ritstjóri Nörd Norðursins, var þar á meðal. Hægt að nálgast lista yfir dómnefndina hér.

Í ár var Wolfenstein: The New Order valinn sem besti norræni tölvuleikurinn en þar náði sænska tölvuleikjafyrirtækið Machine Games að endurlífga gamlan klassískan tölvuleikjatitil með góðum árangri. Aðrir leikir sem voru verðlaunaðir voru: Size DOES Matter sem besti norræni handheldi leikurinn, WuWu & Co. sem besti barnaleikurinn, Among the Sleep fyrir listræna nálgun og Kalimba fyrir nýjungar í norrænum tölvuleik. Max: The Curse of Brotherhood hlaut sérstaka umgetningu í flokknum besti norræni barnaleikurinn. Hér er hægt að skoða lista yfir þá leiki sem voru tilnefndir í ár.

Borðað og sungið saman

NordicGameConf_04

Á fimmtudagskvöldinu var boðið uppá gala kvöldverð og má áætla að hátt í 1.000 manns hafi borðað saman í risastórum sal í Slagthuset, húsinu sem Nordic Game ráðstefnan fór fram í. Á boðstólnum var glæsileg þriggja rétta máltíð og að því loknu var salnum breytt í risastórt dansgólf með ennþá stærri diskókúlu! Í öðru herbergi gátu gestir skellt sér í „Mariokie“ með One Life Left þar sem tölvuleikjaspilarar sungu saman vinsæl lög með skemmtilegu tölvuleikjatvisti. Til dæmis fjallaði lagið Pruple Rain um Heavy Rain, Beat It var um Wii Fit og slagarinn Common People fjallaði um Console People.

Nordic Game ráðstefnan 2016

Nordic Game ráðstefnan bauð upp á fjölbreytta fyrirlestra, áhugaverða sýningarbása og líka tækifæri til að kynnast og spjalla við aðra gesti ráðstefnunnar. Malmö er mjög hentugur bær fyrir norræna ráðstefnu þar sem það er fljótleg og frekar ódýrt að taka lestina beint frá flugvellinum í Kaupmannahöfn til Malmö og tekur það ekki nema um hálftíma aðra leið. Nordic Game ráðstefnan 2016 verður í Malmö dagana 18.-20. maí 2016.

 

MYNDIR

Myndir: Nörd Norðursins, Mussikids, Solid Clouds, og Box Island

 

Höfundur er
Bjarki Þór Jónsson

Deila efni

Tögg: , , , ,


Upplýsingar um höfund:

Birt af ritstjórnComments are closed.

Efst upp ↑