Fréttir

Birt þann 28. apríl, 2015 | Höfundur: Bjarki Þór Jónsson

Norrænar tækni- og leikjahugmyndir kynntar á SlushPLAY

Átta norræn sprotafyrirtæki héldu söluræður (pitch) fyrir dómnefnd og aðra áhugasama á SlushPLAY ráðstefnunni í dag. Af þessum átta fyrirtækjum voru fjögur frá Íslandi: Sólfar, Solid Clouds, Aldin Dynamics og Radiant Games. Auk þeirra voru Poppermost frá Svíþjóð, Antagonist frá Noregi, Vulpine Games frá Finnlandi og Rokoko frá Danmörk.

Poppermost

Það voru Svíjarnir í Poppermost sem sigruðu söluræðukeppnina með viðskiptahugmynd sem snýr að þróun tölvuleikja sem tengjast ýmis konar jaðaríþróttum. Sigurvegarar fengu miða á Slush ráðstefnuna sem verður haldin í Finnlandi í nóvember og ókeypis pláss fyrir sýningarbás á ráðstefnunni.
>> Heimasíða Poppermost

Solid Clouds

Dómnefnd minntist sérstaklega á íslenska fyrirtækið Solid Clouds. Fyrirtækið vinnur að gerð tölvuleiksins PROSPER sem er RTS herkænskuleikur sem gerist í geimnum. Leikurinn inniheldur mjög stórt svæði og blandar saman hugmyndum RTS herkænskuleikja og herkænskuborðspila á áhugaverðan hátt.
>> Heimasíða Solid Clouds

Sólfar

Sex starfa hjá fyrirtækinu í dag, þar á meðal þrír fyrrum stjórnendur CCP. Sólfar stefnir á að framleiða hágæðaefni fyrir sýndarveruleika (VR) og notar til þess Unreal 4 vélina. En samkvæmt spám sem Sólfar kynnti á VR markaðurinn eftir að stækka hratt og örugglega á komandi árum.
>> Heimasíða Sólfars

Antagonist

Þetta norska leikjafyrirtæki er að vinna að gerð hryllingleiks sem heitir Through the Woods. Leikurinn gerist inní skógi og virkar mjög dimmur og drungalegur. Í leiknum má finna ýmis konar norræna hluti að sögn leikjahönnuða.
>> Heimasíða Antagonist

Aldin Dynamics

Okkar lesendur kannast eflaust við nafnið á þessu fyrirtæki en það var einmitt Aldrin Dynamics sem gerði Asunder: Earthbound, fyrsta íslenska Oculus Rift leikinn. Fyrirtækið fókusar á VR og hefur verið að hanna RTS leik sem er væntanlegur, mögulega í næsta mánuði.
>> Heimasíða Aldin Dynamics

Radiant Games

Íslenska leikjafyrirtækið Radiant Games kynnti tölvuleikinn Box Island. Leikurinn er litríkur og ætlaður sem kennsluleikur fyrir krakka þar sem þau læra fyrstu skrefin í forritun. Leikurinn á fyrst og fremst að vera skemmtun fyrir krakkana, en mun á sama tíma kenna þeim grunninn í forritun.
>> Heimasíða Radiant Games

Rokoko

Danska fyrirtækið Rokoko kynnti til leiks sérstakan hreyfiskynjaragalla, eða motion-capture galla. Umræddur galli er útbúinn sérstakri tækni sem skynjar hreyfingar og halla (ekki ósvipað og snjallsímarnir gera í dag) sem auðveldar ferlið til muna. Ekki væri lengur nauðsynlegt að útbúa sérstakt svæði með mörgum myndavélum sem skynja allar hreyfingar með þessum galla.
>> Heimasíða Rokoko

Vulpine Games

Síðast en ekki síst kynnti finnska leikjafyrirtækið Vulpine Games tölvuleikinn Last Planets. Í leiknum er að finna fjölmargar plánetur þar sem spilarar geta átt samskipti við hvort annað, byggt hluti og stækkað heiminn. Hægt er að skrá sig í Alpha útgáfuna hér á heimasíðu Vulpine Games.
>> Heimasíða Vulpine Games

Forsíðumynd: SlushPLAY og Poppermost

 

Deila efni

Tögg:


Upplýsingar um höfund:Efst upp ↑