Bækur og blöð

Birt þann 7. apríl, 2014 | Höfundur: Nörd Norðursins

Myndasögurýni: Über

Myndasögurýni: Über Nörd Norðursins

Samantekt: Über tekst að skoða áhrif ofurmanna ofan í kjölinn, ofurmanna sem enginn vildi og enginn bjóst við.

3.5

Gott


Einkunn lesenda: 0 (0 atkvæði)

Kristján Már Gunnarsson skrifar:

Indie myndasögur eru gróðrarstía „high concept“ verka. Það þýðir að hugmynd, eða hugsjón, frekar en persónur og söguþráður skipta höfuðmáli. Þá er ekki verið að leita að næsta Tony Stark eða Bruce Wayne heldur er reynt að rýna í ákveðna hugmynd og reynt að sjá hvernig hægt er að toga hana til. Spurt er: hvað ef Bretar hefðu fengið alla vísindamenn nasista eftir seinni heimstyrjöld? Svarið er serían Ministry of Space. Ofurhetja verður ill og eyðir heiminum? Irredeemable. Hvað ef geimverur ráðast á kúreka? Cowboys and Aliens.

Myndasögur eru sérstaklega hentugur miðill fyrir „high concept“ sögur þar sem myndasögur eru hlutfallslega ódýrar í framleiðslu og hafa lengi vel ekki verið teknar mjög alvarlega. Það er því auðvelt að koma með hugmynd og breyta henni í myndasögu. Þessar myndasögur eru sjaldnast langlífar, eðli þeirra gefur ekki mikið tækifæri til persónusköpunar og eftir að lesendinn hefur „jafnað sig“ á hugmyndinni stendur sjaldnast mikið eftir. Jafnvel Irredeemable, mjög gott dæmi um „high concept“ myndasögu sem tókst frábærlega upp þjáist af verulegum persónuleikaskorti og þegar á líður las maður söguna bara til að komast að því hvernig hún endaði. Til að lifa af verður myndasaga að gera meira en að segja: „VÁ SJÁÐU NINJUR OG SJÓRÆNINGJAR AÐ SLÁST! EN FRÁBÆR HUGMYND!

Sumar sögur hinsvegar þurfa ekki að lifa endalaust, stundum er nóg að leyfa hugmyndinni að fljóta um og gera sitt verk, klára eina eða tvær sögur og láta það gott heita.

Hér tek ég fyrir tvær nýjar „high concept“ myndasögur sem hafa verið í gangi síðustu mánuði: God is Dead og Über. Hafið í huga að hér er um að ræða seríur sem eru ennþá nýjar og hafa enn tækifæri til að sanna sig eða hverfa ofan í hyldýpi meðalmennskunnar.

 

Über

Hvað ef nasistar hefðu ekki einbeitt sér að þróun eldflauga og skriðdreka á stærð við hús og í stað þess unnið að því að skapa ofurmenni? Og hvað ef þeir hefðu fullkomnað aðferðina við lok stríðsins, þegar Hitler er bókstaflega kominn með byssuna í munninn?

Í Über „bjarga“ ofurmennskir hermenn þriðja ríkinu á elleftu stundu. Þrír hermenn, nefnd herskip, leiða hundruði skriðdrekamanna, Panzermensch, gegn bandamönnum. Þessi ofurmenni skjóta eldingum og eru mörgum sinnum sterkari en venjulegt fólk. Byssukúlur bíta ekki á þeim og ekkert stendur raunverulega í vegi fyrir þeim. Bardagar verða að undarlegum og hryllilegum fjöldamorðum. Eins og hendi sé veifað eru nasistar í sókn á ný og bandamenn reyna að smíða sín eigin „herskip“ og „skriðdrekamenn“.

Rétt eins og God is Dead á Über við persónuleikavandamál að stríða. Þ.e, það er svo mikið að gerast um allan heim með svo mörgum persónum að það er ómögulegt að tengjast einum né neinum. Kannski ekki slæmt þar sem helstu persónur eru Nasistar sem drepa þúsundir eins og ekkert sé, drifnir áfram af hatri og hefndargirnd. En samt. Ekkert að því að kynnast fólkinu sem er að rífa draum milljóna um frið í sundur. Það gæti dregið aðeins úr velgjunni sem kemur upp þegar þúsundir hermanna eru rifnir í sundur af eldingum.

Uber_01

Það er til lítils að berjast gegn ofurmennum. En hvað annað er hægt að gera, þegar ofurmennin eru nasistar?

Þrátt fyrir það er Über betri af því að manneskjurnar sem koma þar fram eru hugsandi verur. Það er ástæða fyrir því sem er að gerast og það er raunveruleg og skiljanlegar ástæður fyrir því hvernig fólk hagar sér. Þrátt fyrir að Þjóðverjar búi yfir óstöðvandi ofurvopnum sjá þeir fram á að tapa einfaldlega vegna þess að Þýskaland er í rúst á meðan bandamenn ráða yfir stórum og vel búnum her með sterkan efnahag á bakvið sig. Báðar hliðar breyta því áætlunum sínum í samræmi við þennan nýja veruleika.

Über tekst að skoða áhrif ofurmanna ofan í kjölinn, ofurmanna sem enginn vildi og enginn bjóst við. Ofurmanna sem voru skapaðir gagngert í þeim tilgangi að drepa og eyðileggja. Þetta kollvarpar hugmyndum um að ofurhetjur geti gert eitthvað gott í heiminum og eimar í stað þess eyðileggingarhneigð þeirra og notar hann í hernaðarlegum tilgangi. Venjulega þegar við sjáum ofurhetjur notaðar á álíka hátt er það sem einhverskonar „leynilegir fulltrúar.“ Launmorðingjar og sérsveitarmenn. En hér sjáum við ofurhetjur sem voru þjálfaðar sem hermenn, hannaðar af hernum og notaðar gagngert í hernaðarlegum tilgangi. Það er skemmst að segja að hegðun þeirra og saga er öðruvísi en við eigum að venjast. Þetta eru hermenn, þjálfaðir til að drepa þúsundir og vita að þau eru betri en allir aðrir. Þetta sést í þau fáu skipti sem við sjáum glitta í mannverurnar undir einkennisbúningnum. Við eigum ekki að dást að þeim eða vona að þau geri heiminn betri. Við eigum að óttast þau.

Über er betri sería að flestu leyti, en teikningarnar eru að mínu mati skemmtilegri í God is Dead. Það er einhvern veginn of dökkt yfir öllu og fólkið ekki nægilega áhugavert. Aðeins ofurmennin virðast lifa. En það sem virkilega aðgreinir Über frá God is Dead er tvennt: Über er með plan og Über drepur ekki alla karakterana sína á tveggja blaða fresti. Maður finnur fyrir því að þessi sería á ekki eftir að enda farsællega, Þýskaland á að öllum líkindum eftir að enda sem kjarnorku auðn, ef ekki Evrópa öll. En mikilvægast er að lesandinn finnur fyrir því að sagan er að segja eitthvað. Að það er tilgangur með því sem hann er að lesa. Það fæ ég ekki frá God is Dead.

Ég get mælt með Über en God is Dead ætti aðeins að höfða til… fárra. Þar sem serían getur ekki ákveðið sig er erfitt að vita hver markhópurinn er. Kannski höfðar hún til þeirra sem hafa gaman af heimsendasögum og goðafræði.

 

« Fyrri myndasaga: God is Dead
Deila efni

Tögg: , ,


Upplýsingar um höfund:

Birt af ritstjórnEfst upp ↑