Bækur og blöð

Birt þann 7. apríl, 2014 | Höfundur: Nörd Norðursins

Myndasögurýni: God is Dead

Myndasögurýni: God is Dead Nörd Norðursins

Samantekt: Sjaldan hefur jafn góðri hugmynd verið sóað jafn hræðilega.

1

Slæmt


Einkunn lesenda: 0 (0 atkvæði)

Kristján Már Gunnarsson skrifar:

Indie myndasögur eru gróðrarstía „high concept“ verka. Það þýðir að hugmynd, eða hugsjón, frekar en persónur og söguþráður skipta höfuðmáli. Þá er ekki verið að leita að næsta Tony Stark eða Bruce Wayne heldur er reynt að rýna í ákveðna hugmynd og reynt að sjá hvernig hægt er að toga hana til. Spurt er: hvað ef Bretar hefðu fengið alla vísindamenn nasista eftir seinni heimstyrjöld? Svarið er serían Ministry of Space. Ofurhetja verður ill og eyðir heiminum? Irredeemable. Hvað ef geimverur ráðast á kúreka? Cowboys and Aliens.

Myndasögur eru sérstaklega hentugur miðill fyrir „high concept“ sögur þar sem myndasögur eru hlutfallslega ódýrar í framleiðslu og hafa lengi vel ekki verið teknar mjög alvarlega. Það er því auðvelt að koma með hugmynd og breyta henni í myndasögu. Þessar myndasögur eru sjaldnast langlífar, eðli þeirra gefur ekki mikið tækifæri til persónusköpunar og eftir að lesendinn hefur „jafnað sig“ á hugmyndinni stendur sjaldnast mikið eftir. Jafnvel Irredeemable, mjög gott dæmi um „high concept“ myndasögu sem tókst frábærlega upp þjáist af verulegum persónuleikaskorti og þegar á líður las maður söguna bara til að komast að því hvernig hún endaði. Til að lifa af verður myndasaga að gera meira en að segja: „VÁ SJÁÐU NINJUR OG SJÓRÆNINGJAR AÐ SLÁST! EN FRÁBÆR HUGMYND!

Sumar sögur hinsvegar þurfa ekki að lifa endalaust, stundum er nóg að leyfa hugmyndinni að fljóta um og gera sitt verk, klára eina eða tvær sögur og láta það gott heita.

Hér tek ég fyrir tvær nýjar „high concept“ myndasögur sem hafa verið í gangi síðustu mánuði: God is Dead og Über. Hafið í huga að hér er um að ræða seríur sem eru ennþá nýjar og hafa enn tækifæri til að sanna sig eða hverfa ofan í hyldýpi meðalmennskunnar.

 

God is Dead

Einn daginn gengur Seifur inn í Sixtínsku kapelluna og segist vera kominn aftur. Um allan heim birtast léttklæddar furðuverur og segjast vera löngu gleymdir guðir. Ásarnir birtast í Norður-Evrópu, grísku guðirnir við Miðjarðarhafið, aztekaguðirnir í Mexíkó og þar fram eftir götunum. Þeir krefjast fórna, tilbeiðslu og skilyrðislausrar hlýðni. Þess er ekki lengi að bíða uns blóðið flýtur eftir götum stórborganna og mannkynið er búið að krjúpa fyrir nýjum drottnurum sínum. Þjóðir og menningarheimar þurrkast út og í stað þess skiptist heimurinn í áhrifasvæði ákveðinna guða. Eina von mannkynsins er hópur vísindamanna og trúleysingja sem reyna að berjast gegn ofstækismönnum og almáttugum guðum.

Þetta er áhugaverð hugmynd: hvað ef gömlu guðirnir birtust skyndilega? Það er hægt að vinna ótrúlegustu hluti með þessa hugmynd í farteskinu. Hvaða áhrif hefur nýja trúin á mannlegt samfélag? Hvernig samræmist vísindalegur skilningur okkar á alheiminum þessum nýju herrum sem segjast vera komnir af sólinni, eða eitthvað álíka? Hvað finnst guðunum um nútímann? Er Seifur með Facebook?

En því miður er ekki reynt að kryfja neitt af þessu til mergjar. Reyndar virðist fæst vera krufið. Guðirnir koma og mannkynið breytir allri samfélagsbyggingu og vindur ofan af tækniþróun. Skyndilega er barist með sverðum og valslöngvum, tréskip fylla höfin og menn ganga um í fjaðrabúningum og hlébarðaskinni.

Þetta er eiginlega stærsti gallinn við þessa seríu. Það er sterkari persónusköpun í símaskránni en góð „concept“ saga á að geta yfirstigið það. Vandamálið er að höfundarnir virðast bara ekkert vita um hvað þessi sería á að vera. Vísindamennirnir eru eins og maurar að slást við eldfjall og hrútleiðinlegir í þokkabót. Guðirnir eru hverjum öðrum kjánalegri og einvíðari en klósettpappír. Þetta er í fyrsta og vonandi síðasta skipti sem ég þarf ítrekað að horfa á skínandi magavöðva Óðins á meðan hann talar í klisjum um heimsyfirráð.

God_is_Dead2

Hverjum datt í hug að gera Óðin að vaxtaræktartrölli. Maðurinn er skáld! Horfið á þessa vöðva! Einhver teiknaði þessa vöðva og hugsaði með sér: „Svona á Óðinn að líta út!“

Ég veit satt að segja ekki hvort seríunni sé viðbjargandi. Sjaldan hefur jafn góðri hugmynd verið sóað jafn hræðilega. Í hvert skipti sem ég las blað velti ég því fyrir mér af hverju við fengjum ekki að kynnast guðunum betur, hvaðan komu þeir, af hverju komu þeir til baka? Hvað finnst venjulegu fólki um að skipta á snjallsímanum og sólguði? Hvernig í veröldinni heldur Óðinn sér við? Hann ætti að vera sitjandi á hásæti og íhuga ragnarök, ekki að misnota bumbubanann!

En í stað þess fáum við undarlega stirð og kjánaleg atriði þar sem guðirnir slást sín á milli og vísindamennirnir reyna að breyta sér í guði til að berjast gegn þeim. Þegar meirihluti guðanna er horfinn breytir serían um tón og verður að einhverskonar „post-apocalypse“ sögu. Höfundarnir virðast ekki geta ákveðið sig hvað þeir eru að reyna að segja.

Myndasagan er vel teiknuð, og á sér sín ofursvölu augnablik sem stundum bjarga seríunni. Eins og stendur eru komin 9 blöð í seríunni og eflaust eiga þeir eftir að fá að klára nokkur blöð í viðbót. En ég efast stórkostlega um að þessi sería verði á svæðinu eftir ár.

 

Næsta myndasaga: Über »

 

Deila efni

Tögg: , ,


Upplýsingar um höfund:

Birt af ritstjórn



Efst upp ↑