Bíó og TV

Birt þann 24. desember, 2013 | Höfundur: Nörd Norðursins

0

Instant jól – Kvikmyndaatriði sem vekja upp jólaandann

Ég er ekki beint jólabarn og þó ég hafi gaman af einstaka jólamynd í desember, piparkökum og heitu súkkulaði þá er ég oft tregur til þess að komast í jólaskapið. Jólalög utan desembermánaðar eru t.d. algjört eitur fyrir mér og snjór minnir mig frekar á umferðarteppu en jól. Í gegnum árin hef ég hins vegar lært að plata mig í jólaskapið á réttum tímum með því að horfa á kvikmyndir sem geta hugsanlega vakið upp jólaandann í mér. Yfirleitt eru það ekki heilar myndir, heldur ákveðin atriði sem vekja upp þessa tilfinningu og mér finnst ég þurfa að deila þeim með ykkur. Kannski glíma sum ykkar við sama vandamál og þá er ekki seinna vænna en að skoða þessi atriði því stutt er í jólin.

Ein af fyrstu minningum sem ég tengi við jólin er að horfa á teiknimyndina Hnetubrjótsprinsinn, eða The Nutcracker Prince, frá árinu 1990 með systur minni þegar ég var krakki. Myndin byrjar einmitt með systkinum á svipuðum aldri og við vorum sem eru í snjókasti og fara í kapphlaup heim úr snjónum til að opna jólagjafirnar. Ég man að þetta atriði vakti upp jólaskapið en um leið vafði það dulúð og spennu um tilfinninguna. Teikningarstíllinn er hlýr og þægilegur og tónlist Tchaikovskys undirstrikar hátíðleikann. Sagan sjálf, Hnotubrjótsprinsinn og músakóngurinn, er svolítið hrottaleg, enda er hún skrifuð af E.T.A. Hoffmann sem sérhæfði sig í myrkum barnasögum. Teiknimyndin er hins vegar falleg og við allra hæfi. Hún var gefin út af Warner Bros. í Bandaríkjunum, en þar fór Kiefer Sutherland með hlutverk Hnotubrjótsins og Peter O‘Toole heitinn með hlutverk hershöfðingjans. Ég horfði hins vegar á íslensku talsetninguna og hef ekki hugmynd um leikarahópinn, en hann var eflaust prýddur hæfileikaríku og landsþekktu fólki.

Atriðið er á bilinu 01:13 – 05:06.

Næsta atriði er töluvert nýlegra og þó ég hafi ekki verið krakki þegar ég sá þessa mynd hafði ég mjög gaman af henni. Elf (2003), sem leikstýrð var af Jon Favreu og með Will Ferrell í aðalhlutverki, segir frá munaðarleysingja sem stalst ungur að aldri í pokann hjá jólasveininum og ólst því upp með álfum á Norðurpólnum. Þegar hann eldist ferðast hann til New York til að hitta pabba sinn, en það reynist erfiðara en hann bjóst við. Atriðin sem hér um ræðir eru tæknilega séð tvö. Eitt þeirra er nokkuð lúmskt með að koma manni í jólaandann á meðan hitt fer alla leið. Hið fyrra er merkilegt að því leyti að mér er yfirleitt illa við jólalög en söngurinn virkar bara svo vel á milli Zoey Dechanel og Will Ferrell. Hið seinna inniheldur líka söng en þar fær hann aukið gildi í samhengi jólanna og atriðið endar svo á nokkuð lummulegum hápunkti þar sem að jólaandinn rýkur bókstaflega upp.

Bæði atriði eru sýnd í þessu myndskeiði:

Næsta mynd er ekki beint jólamynd en tengir hátíðina sterkum böndum við hrekkjavöku. Myndin, sem ber nafnið The Nightmare Before Christmas (1993), hefur notið gríðarlegra vinsælda sökum þessa. Hún segir frá Jack Skellington, veru frá Hrekkjavökubæ sem ferðast óvænt til Jólabæjar og ákveður að halda upp á jólin í heimabæ sínum, en það endar auðvitað skelfilega. Myndin var tekin upp með stop-motion tækni í leikstjórn Henry Selick. Hún er skrifuð af Tim Burton og ætti því ekki að koma neinum á óvart að Danny Elfman sjái um tónlistina. Atriðið sem ég held upp á sýnir komu Jacks til Jólabæjar og þar sjáum við jólahefðir og skreytingar með augum algjörs nýgræðings sem er vanur töluvert hryllilegri hefðum.

Hér er atriðið í fullri lengd:

Næsta atriði gæti vakið upp hroll hjá viðkvæmum sálum en líklegra er að einhver kjánalegur jólaandi vakni hjá flestum. Það er úr gamanhrollvekjunni Gremlins frá árinu 1984 sem leikstýrt er af Joe Dante. Myndin fjallar um um mann sem finnur undarlegt gæludýr sem kallast Mogwai handa unglingssyni sínum í jólagjöf. Dýrið fær nafnið Gizmo og er selt manninum með þeim skilyrðum að hann fylgi þremur reglum. Það má ekki sjá bjart ljós, blotna eða borða eftir miðnætti. Eins auðvelt og það kann að hljóma gengur ekki nógu vel að fara eftir settum reglum og það endar með miklum ósköpum. Sérstaklega þegar hann byrjar að fjölga sér.

Hér er atriðið:

Uppáhalds jólamyndin mín er, án nokkurs efa, Home Alone 2: Lost in New York (1992) í leikstjórn John Hughes. Ég hef líklega horft á hana oftar en ég hef haldið upp á jólin. Af hverju mynd númer tvö? Í fyrsta lagi átti ég þessa mynd á VHS sem krakki en ekki þá fyrri. En hún er líka fyndnari en sú fyrri og gerist að mestu leyti í New York. Sem krakki virðist allt sem stærra er einnig vera betra og því virðast jól í New York mjög heillandi. Ekki er svo verra ef maður er með veski foreldra sinna í þokkabót. Það hjálpaði líka að ég átti Macaulay Culkin snýr aftur sem Kevin McCallister og tekst að týna fjölskyldu sinni í jólaferðalagi þeirra annað skiptið í röð. Hann tekur óvart flug til New York í stað Miami og notar kreditkort föður síns til að leigja fínt hótelherbergi með allri þeirri þjónustu sem honum þóknast. Tim Curry stendur sig sérstaklega vel sem undirgefni en einnig lævísi hótelstarfsmaðurinn. Því miður rekst Kevin á sömu glæpamenn og hrella hann í fyrri myndinni, sem leiknir eru kostulega af Joe Pesci og Daniel Stern, og hann neyðist til að bjarga jólunum enn á ný með eigin hrekkjum. Mörg atriði í þessari mynd lyfta upp jólaskapinu en það sem sýnir best þá kosti við að halda upp á jólin með kreditkorti annarra varð fyrir valinu. Þar fær Kevin eðalvagn með pizzu, kóki og teiknimynd á leiðinni í leikafangaverslun. Ekki slæmur dagur fyrir krakka.

Atriðið er á bilinu 0:40:43 – 0:43:21

Auðvitað er ekki hægt að gera lista yfir atriði sem vekja upp mestan jólaanda án þess að minnast á eina vinsælustu jólamynd allra tíma. It‘s A Wonderful Life (1946) er oft valin sem uppáhalds jólamynd (eða bara mynd) fólks um allan heim og ekki út af engu. Þessi klassík í leikstjórn Frank Capra segir frá George Bailey (James Stewart) sem tileinkar lífi sínu öðrum til hjálpar og lendir svo í vandræðum sem leiða hann til sjálfsmorðs hugleiðinga á aðfangadagskvöldi. Sem betur fer er hann stöðvaður af verndarengli sem sýnir honum mikilvægi hans í samfélaginu og hversu mörgum lífum hann hefur breytt með góðvild sinni. Endirinn er kannski klisjukenndur fyrir suma en ef maður horfir á myndina í heild sinni er endirinn algjör hamingjusprengja og því mæli ég hiklaust með henni. Fyrir þá sem vilja fá hamingjuskammtinn sinn sem fyrst er hægt að horfa á enda myndarinnar hér:

Svo finnst mér tilvalið að enda á uppáhalds jólakveðjunni minni, en hún er auðvitað úr Home Alone 2. Gleðilega hátíð og farsælt komandi vídjógláp.

 

Höfundur er Andri Þór Jóhannsson,
fastur penni á Nörd Norðursins.

 

Deila efni

Tögg: ,


Upplýsingar um höfund:

Birt af ritstjórnComments are closed.

Efst upp ↑