Bækur og blöð

Birt þann 24. desember, 2013 | Höfundur: Nörd Norðursins

Myndasögurýni: Ógæfa

Myndasögurýni: Ógæfa Nörd Norðursins

Samantekt: Ógæfa er nokkuð skemmtileg teiknimyndasaga en er ekki alveg nógu beitt og skortir samspil sögu og teikninga.

3,5

Nokkuð góð


Einkunn lesenda: 0 (0 atkvæði)

Bjarki Þór Jónsson skrifar:

Ógæfa er ný teiknimyndasaga sem Hugleikur Dagsson skrifaði og Rán Flygenring teiknaði. Sagan gerist að mestu leyti á helgardjamminu niðrí miðbæ Reykjavíkur þar sem zombíar birtast skyndilega  með sitt vesen (éta fólk, bíta, gubba blóði og þetta hefðbundna), en með skemmtilegu tvisti. Enginn annar en Páll Óskar fer með stórt hlutverk í þessari sögu sem er full af blóði, húmor, og meira blóði.

Sjálfur er ég mikill aðdáandi verka Hugleiks og hrifinn af flestum teiknimyndasögum hans, en lítið kynnst verkum Ránar Flygenring. Ógæfa er sjálfstæð saga og annar hluti af Endir-seríunni, en fyrsta bókin í seríunni er Opinberun sem kom út árið 2012 (gagnrýni Nörd Norðursins).

Hugmyndin er skemmtileg og gaman að upplifa sig í gegnum zombíárásir í umhverfi sem flestir Íslendingar þekkja. Það tók svolítinn tíma að venjast óhefðbundnum teikningum Ránar sem minna svolítið á fljótlega gerðar skissur. Myndirnar og textinn í sögunni eru ekki alltaf auðlesnar og stundum nauðsynlegt að píra aðeins augun eða lesa aftur. Þetta getur verið svolítið pirrandi, en á sama tíma liggur ákveðinn sjarmi yfir þessu og gaman þegar fólk velur að fara óhefðbundnar leiðir.

ÓgæfaEins ánægður og ég var með fyrstu bókina í Endir-seríunni, Opinberun, þá var ég ekki alveg nóg ánægður með Ógæfu. Margar af teikningum Ránar Flygenring í Ógæfu eru skemmtilegar og Hulla-húmorinn stendur alltaf fyrir sínu, en mér fannst teikningarnar og sagan ekki ná að spila neitt sérlega vel saman. Sagan á sína góðu kafla og ágæt tilbreyting frá hinum hefðbundna teiknistíl Hugleiks, en ég bjóst við einhverju meiru og betra. Það vantar aðeins meiri kraft í teikningarnar og húmorinn. Eftir að hafa klárað söguna fannst mér hún skilja frekar lítið eftir sig og heldur fá atriði sem stóðu uppúr.

Tilhugsunin um zombífaraldur í Reykjavík heillaði mig uppúr skónum og hlakkaði ég til að skoða hvernig íslenskt umhverfi væri notað í sögunni (sérstaklega eftir að hafa séð forsíðu Ógæfu þar sem Harpa er í bakgrunni). Borgin fær aftur á móti lítið að njóta sín og fáar teikningar sem sýna Reykjavík eitthvað sérstaklega. Í raun gæti sagan alveg eins gerst í Osló, London eða einhverri annari borg þar sem byttifyllur leika lausum hala um helgar. Myndirnar hennar Ránar minna á skissur þar sem er lítið um smáatriði og oft engum bakgrunni og þar af leiðandi heldur lítið að skoða á hverri mynd.

En já, það má ekki gleyma að skoða jákvæðu punktana líka! Sagan er frumleg – þó heldur stutt. Hún var aldrei leiðinleg og fær húmor Hugleiks að njóta sín sem reglulegu millibili út söguna.

Á heildina litið er Ógæfa nokkuð skemmtileg teiknimyndasaga sem íslenskir zombí aðdáendur ættu að kíkja á. Aftur á móti eru til margar mun betri bækur eftir Hugleik – til dæmis Opinberun. Ógæfa er ekki alveg nógu beitt og skortir samspil sögu og teikninga.

Deila efni

Tögg: , , , ,


Upplýsingar um höfund:

Birt af ritstjórnEfst upp ↑