Bíó og TV

Birt þann 21. október, 2013 | Höfundur: Nörd Norðursins

0

Kvikmyndarýni: Insidious: Chapter 2

Insidious 2 er beint framhald af fyrri myndinni, en þó er miklu púðri eytt í forsögu beggja mynda og púslað er saman nýjum tengingum við fyrri myndina. Það er allt gott og blessað og sæmilega framkvæmt, en nýja myndin þarf að bæta nýrri sögu við þetta allt saman svo að einhver framþróun eigi sér stað. Sá hluti virkaði frekar óspennandi á mig, eins og það væri verið að þröngva útskýringum á mann sem maður kærði sig ekkert mikið um, en dulúð fyrri myndarinnar gerði henni mjög gott. Formúlan er þó nokkuð svipuð í heildina en hún virkar bara alls ekki jafn vel í þetta skiptið.

Á meðan lögreglurannsókn á morði, ja… einnar persónu úr fyrri myndinni, stendur yfir gistir fjölskyldan hjá mömmu Josh. Hann er fyrst grunaður um morðið en það líður hjá. Fjölskyldan er hins vegar ekki laus við undarlega atburði og þó Josh reyni að gera lítið úr þeim sjá allir aðrir að þau séu enn í mikilli hættu. Atburðarrásin breytist svo yfir í rannsókn til að komast að því hver rót vandamálsins sé og hvernig sé hægt að leysa það.

Insidious2

En hversu oft höfum við séð nákvæmlega þetta gerast í framhaldsmyndum? Myndin breytist þannig í rauninni yfir í trylli og gleymir að sinna hrollvekjunni sem ég held að flestir vonuðust eftir að sjá. Ég hef a.m.k. takmarkaðann áhuga á því að horfa á púsluspil með bregðuatriðum. Það virkar stundum eins og leikstjórinn hafi misskilið styrk fyrri myndarinnar. Dulúðin er töluvert minni, sagan er ofútskýrð og hryllingurinn áhrifaminni. Stundum fannst mér ég vera að horfa á aðra mynd eftir sama leikstjóra og einnig með Patrick Wilson, The Conjuring, sem kom út fyrr í ár. Báðar myndir eiga við sama vandamál að stríða: þær skilja of lítið eftir sig. Fyrri Insidious myndin var virkilega vel stílgerð þannig að skemmtanagildið hélst í hendur við hryllinginn. Sú seinni er ekki með slíkt jafnvægi og því hefur maður minni þolinmæði fyrir útúrsnúningum. Fjölskyldudramað var líka mjög sterkt í fyrri myndinni en þar sem sú seinni skiptist í tvo hópa missir maður nándina. Sem betur fer er tónlistin notuð á sama hátt og þrælvirkar. Patrick Wilson er líka áberandi og stendur sig mjög vel en fer e.t.v. aðeins of nálægt túlkun Jack Nicholson á Jack Torrance í The Shining (1980). Tvíeykið sem hjálpar fjölskyldunni að komast að nærveru anda kom stundum með lúmskt grín inn í fyrri myndina en í seinni myndinni er ekkert lúmskt við grínið. Gamaleikararnir Laurel og Hardy úr þöglu myndum þriðja áratugarins hefðu allt eins getað séð um það, ef ég leyfi mér að ýkja smá.

Það má kannski segja að gamaldags stíll fyrri myndarinnar sé það sem vantar í þá seinni. Þó það séu mjög flott atriði inn á milli minnir hún svolítið á The Blair Witch Project (1999) eða Grave Encounters (2011) í seinni hlutanum og missir að mestu þráðinn í lokin. Fullorðið fólk að brjótast inn í yfirgefinn spítala um miðja nótt? Hættu nú alveg. En þó að slíkar klisjur hafi verið misjafnlega vel notaðar er myndin ekki algjört drasl og býður upp á margt athyglisvert fyrir aðdáendur fyrri myndarinnar og hryllingsmynda almennt.

Insidious2

Það hefur nú þegar verið staðfest að þriðja myndin sé á leiðinni og það verður forvitnilegt að sjá hvaða leið verður valin til að drífa söguna áfram. Vonandi var önnur myndin bara fylling til að undirbúa mann fyrir þá þriðju, en í hrollvekjubransanum er ekkert víst.

 

Smelltu hér til að lesa Insidious (2010) kvikmyndarýnina.

 

 

Höfundur er Andri Þór Jóhannsson,
fastur penni á Nörd Norðursins.

 

Deila efni

Tögg: , , , ,


Upplýsingar um höfund:

Birt af ritstjórn



Comments are closed.

Efst upp ↑