Bíó og TV

Birt þann 21. október, 2013 | Höfundur: Nörd Norðursins

0

Kvikmyndarýni: Insidious

Insidious 2 er nýkomin í kvikmyndahús og áður en ég skrifa um hana vil ég hnipra niður nokkur orð um forvera hennar. Insidious kom út árið 2010 og ég man að ég beið hennar með mikilli eftirvæntingu. Leikstjóri hennar er James Wan, en hann er e.t.v. frægastur fyrir að hafa gert fyrstu Saw (2004) myndina. Það var ekki ástæðan fyrir áhuga mínum á henni, heldur var það gamaldags auglýsingaplakat sem ég sá með skuggamynd af krakka sem umkringdur er af höndum. Neðst á plakatinu stendur að það sé ekki húsið sem er andsetið. Svo einfalt var það. Mig grunaði að Insidious bæri með sér einhvers konar afturhvarf til fortíðar og á sinn hátt hljómaði það endurnærandi. Það má kannski segja að gullöld hryllingsmyndarinnar sé liðin og þó ég sé ekki endilega sammála því þá má vel vera að sumar aðferðir hafi nú þegar verið fullkomnaðar. Þess vegna finnst mér ekkert að því að sækja í arfinn og vinna með gamlar hefðir. Það sem gerði Insidious einstaka var hins vegar að þróa áfram þessar hefðir og stílfæra það vel.

Um leið og myndin byrjar tekst henni að grípa mig. Tónlistin kemur mér úr jafnvægi og myndefnið vekur upp hroll. Myndatakan undirstrikar þetta og þegar titill myndarinn kemur á skjáinn er ég seldur. Ég var rétt svo búinn að koma mér fyrir, ljósin ennþá kveikt, en það skipti ekki máli. Formúlan virkaði og ég sá til þess að ljósin færu og heyrnartólin væru nógu hátt stillt. Ég ætlaði að njóta þess að vera einn í myrkrinu.

Insidious

Byrjun myndarinnar er nokkuð hefðbundin. Hjónin Josh og Renai, sem leikin eru af Patrick Wilson og Rose Byrne, flytja inn í nýtt hús með tvo unga bræður og eitt lítið barn. Renai hætti í starfi sínu til að einbeita sér að tónlistinni og er heima allan daginn með yngsta barnið. Þau eru öll að venjast nýju umhverfi, en sum hús er háværari en önnur og undarleg hljóð geta heyrst þegar maður er annars hugar. Þetta er nokkuð týpísk uppsetning fyrir draugahúsamynd, en hér er eitthvað annað á seyði. Insidious blandar eiginlega saman draugahúsa- og andsetningarhefðunum en kemur með nýjan vinkil. Hvað ef húsið væri ekki vandamálið og engin andsetning hefur átt sér stað? Ég ætla ekki að gefa upp mikið meira en myndin fær strax stig fyrir að fara ótroðnar slóðir, þó að hún vísi vissulega í önnur nýleg verk (t.d. Poltergeist (1982), tælensku hryllingsmyndina Shutter (2004) og The Sandman teiknimyndasöguna). Útlit myndarinnar er mjög vel heppnað og martraðakennda andrúmsloftið kemst vel til skila. Leikarar standa sig vel og þá sérstaklega Lin Shaye í hlutverki miðilsins Elise. Draugar og djöflar eru oftast mjög vel útfærðir, þó að aðal skúrkurinn sé pínu undirþyrmandi. Tónlistin fær toppeinkunn og þó að bregðuatriði komi fyrir í myndinni virka þau ekki ódýr, heldur hafa þau yfirleitt tilgang innan sögunnar og meiri áhrif á áhorfandann en gengur og gerist.

Í heildina séð er Insidious vel heppnuð hryllingsmynd sem nýtir miðilinn til fulls til að vekja hroll hjá áhorfendum og reiðir ekki bara á tölvutækni til þess.

 

Smelltu hér til að lesa Insidious: Chapter 2 (2013) kvikmyndarýnina.

 

 

Höfundur er Andri Þór Jóhannsson,
fastur penni á Nörd Norðursins.

 

Deila efni

Tögg: , , ,


Upplýsingar um höfund:

Birt af ritstjórn



Comments are closed.

Efst upp ↑