Bíó og TV

Birt þann 21. október, 2013 | Höfundur: Nörd Norðursins

0

Kvikmyndarýni: Gravity

Einstaka sinnum er gerðar kvikmyndir sem reyna eitthvað algjörlega nýtt. Gravity eftir Alfonso Cuarón er ein þeirra. James Cameron hefur kallað hana bestu geimmynd allra tíma og ég held að það sé rétt ályktun. Aðalhlutverk eru í höndum Söndru Bullock og George Clooney. Þau leika geimfara, sem eru á sporbaug um jörðu. Á meðan verið er að sinna viðgerðum á Hubble sjónaukanum á sér stað slys. Eftir það reyna söguhetjurnar  að komast af í tómarúmi geimsins. Sandra Bullock er stórgóð í hlutverki sérfræðingsins Ryan Stone, sem er hefur verið fengin til að aðstoða við viðgerðir og þekkir því lítið til geimferða. Matt Kowalski (Clooney) er aftur á móti svellkaldur og þaulreyndur geimfari. Sagan sögð frá sjónarhorni Stone og heltekur okkur frá upphafi til enda.

Gravity var fjögur ár í framleiðslu. Þróa þurfti nýja tækni í kvikmyndagerð svo hægt væri að uppfyllakröfur leikstjórans. Stórbrotið útsýni sporbrautar er sýnt í löngum og fallegum tökum. Myndin er tækniundur og óskiljanlegt hvernig sumt var framkvæmt. Þrívídd á stóru kvikmyndatjaldi hefur aldrei notið sýn jafnvel. Á fyrstu mínútum myndarinnar byrjar æsispennandi söguþráður sem fangaði allan salinn í Egilshöll. Andrúmsloftið var þrungið og varla heyrðist skrjáf í popppokum. Spennan magnaðist og magnaðist. Kvikmynd hefur sjaldan, svo ég muni eftir, vakið upp jafnsterk viðbrögð hjá áhorfendum. Þetta var alveg ótrúlega upplifun en svo kom HLÉ!

Gravity

Ég er ekki á móti hléum í íslenskum bíóum. Mér þætti betra að sleppa þeim en oftast eru þau meinlaus. Stundum er ágætt að standa upp og fara á klósettið eða kaupa sér meira popp. Þó kemur fyrir að þetta fyrirkomulag sé bara heimskulegt. Hléið  á Gravity minnti mig á hvernig Black Hawk Down var klippt í tvennt þegar ég  sá hana í Laugarásbíó fyrir mögum árum. Einstaka myndir eru æsispennandi rússíbanaferðir og ömurlegt þegar allt stoppar í miðri ferð. Gravity er ekki löng mynd, 90 mínútur, og fátt eyðileggur þessa einstaklega skemmtilegu upplifunina jafn mikið og hlé. Ég hvet alla því að reyna komast á hlélausar sýningar ef það er á annað borð mögulegt.

Gravity reynir að  fara rétt með staðreyndir, sem tekst að mestu leiti. Sumu er þó breytt til að gera söguna meira spennandi. Handritshöfundar íhuguðu að útskýra skáldaleyfi sín en það þótti of íþyngjandi. Til eru greinar sem fjalla um þessar rangfærslur og má til dæmis lesa eina þeirra hér. Gaman er að sjá myndlíkingar sögunnar. Í hvert sinn sem Stone klárar áfanga í ferð sinni skiptir hún um klæðnað. Hún er þannig að hamflétta sig áður en hún heldur aftur af stað. Nokkrar tilvísanir eru í myndinni, til dæmis í Wall-E, Alien og Appollo 13 (takið eftir Ed Harris í smáhlutverki)

Gravity

Myndin er þó ekki gallalaus. Í hópnum sem ég fór með í bíó varð ein bílveik, enda mikið um að vera á skjánum. Handritið hefði mátt pússað til á einum eða tveimur stöðum án þess að það skipti miklu máli.

Ef þú ætlar að sjá eina mynd í bíó á þessu ári þá ætti það að vera Gravity. Kvikmyndaupplifun er einstök og hef ég ekki séð annað eins stórvirki í langan tíma. Ég á erfitt með að trúa að nokkur mynd verði betri á árinu 2013. Mæli hiklaust með henni fyrir alla. Fimm stjörnur af fimm mögulegum.

 

Höfundur er Einar Leif Nielsen,
rithöfundur.

 

Deila efni

Tögg: , , ,


Upplýsingar um höfund:

Birt af ritstjórn



Comments are closed.

Efst upp ↑