Birt þann 26. júní, 2013 | Höfundur: Nörd Norðursins
0Richard Matheson 1926-2013
Einn af mínum uppáhalds rithöfundum, Richard Matheson, lést 23. júní síðastliðinn. Kannski þekkja ekki allir nafn hans en Matheson ásamt Ray Bradburry, sem lést 5. júní í fyrra, hafði mikil áhrif á mig sem rithöfund. Æfi Matheson leiddi hann um víðan völl. Hann var sonur norskra innflytjenda í New Jersey, var fótgönguliði í her Bandamanna í seinna stríði og eftir það farsæll rit- og handritshöfundur.
Vísindaskáldsögur
Frægast bók Matheson er I am Legend, sem kom út 1954. Hún er af mörgum talin vera næst merkasta bók vampírubókmenntanna og er sagt að einungis Drakúla eftir Bram Stoker standi henni framar. Hún hefur verið kölluð fyrsta nútíma vampírusagan og fékk til að mynda titilinn vampírubók aldarinnar (20. aldar) frá samtökum hrollvekjuhöfunda í Bandaríkjunum. Þessi merkilega saga hefur verið kvikmynduð fjórum sinnum sem The Last Man on Earth (1964), The Omega Man (1971), I am Omega (2007) og I am Legend (2007). Hún ratar oft á lista yfir bestu vísindaskáldssögur eða hrollvekjur allra tíma. Einn gagnrýnandi sagði að I am Legend væri ein besta bók sem til væri um mannlega einsemd og hefur George Romero viðurkennt að hafa sótt mikinn innblástur til sögunnar þegar hann gerði Night of the Living Dead (1968). I am Legend er nefnilega eitt fyrsta dæmið í þekktu sagnaminni þar sem einstaklingur lifir af heimsendi einungis til að berjast við kynjaverur ímyndunaraflsins. Bókin er ein sú fyrsta í uppvakningabylgjunni sem tröllríður samfélagi nútímans. Aðrir höfundar sem hafa sótt innblástur í söguna eru til að mynda Stephen King í bókinni The Cell.
Önnur vinsæl bók Matheson er The Shrinking Man (1956). Titill sögunnar segir hvert viðfangsefnið er og kann ef til vill að hljóma hallærislega. Blekkist samt ekki því bókin er mjög góð. Fyrri helmingur sögunnar tekur á því hvernig hin minnkandi söguhetja er útskúfuð úr samfélagi manna. Seinni helmingur er svo barátta upp á líf og dauða. Bíómynd, sem heitir The Incredible Shrinking Man, var gerð eftir bókinni og er ekki síðri. Í henni er eitt magnaðasta köngulóaratrið sem fest hefur verið á filmu og gefur myndum eins og Hringadrottinssögu ekkert eftir, þrátt fyrir að hafa verið tekin upp 1957.Til gamans má geta að kvikmyndin var sýnd á Svörtum sunnudögum í Bíó Paradís síðasta vetur.
Draugasögur
Richard Matheson skrifaði nokkrar hrollvekjur. Þar ber helst að nefna Hell House, sem var gefin út 1971. Bókin fjallar um klassískt sagnaminni þar sem hópur fólk eyðir tíma í húsi, sem sagt er að sé umsetið draugum. Af þeim sökum er henni oft líkt saman við The Haunting of Hill House eftir Shirley Jackson, nema að Hell House þykir grófari. Bókin var kvikmynduð 1973 sem The Legend of Hell House. Í þessari sögu skín í gegn áhugi Matheson á hinu yfirnáttúrlega en hann átti eftir að taka á þeim efnum frekar síðar á framanum.
A Stir of Echos sem kom út 1958 þykir einnig vera góð draugasaga. Hún tekur á því hvernig umhverfi manns breytis við misheppnaða dáleiðslu. Hann fer að skynja eitthvað undarlegt á heimili sínu. Eins og í Hell House er vottur af áhuga höfundar af hinu yfirnáttúrlega þó í mun minna mæli. Þessi bók var kvikmynduð undir sama nafni árið 1999 og er alveg þræl skemmtileg.
Fantasíur
What Dreams May Come var gefin út 1978 og nær þar áhugi höfundar á hinu yfirnáttúrlega hámarki, alla vega hvað varðar hans frægustu verk. Hún fjallar um mann sem deyr og ferðir hans um framhaldslífið. Matheson skrifaði í formála bókarinnar að hann hefði lagt í mikla rannsóknarvinnu til að skrifa söguna. Höfundurinn setti þarna fram sína eigin túlkun á trú og hvað gerist eftir dauðann. Hún er nokkuð í ætt við það sem kallast „New Age“ nú til dags. Margir lesendur Matheson voru ekki par hrifnir af þessu framtaki höfundar og vildu frekar að hann myndi einbeita sér að hrollvekjum. Aðrir sögðust vera djúpt snortnir af sögunni. Bókin var kvikmynduð 1998 undir sama nafni. Sjálfur hef ég nokkuð gaman af því að söguhetja bókarinnar ber ættarnafnið Nielsen, eins og ég.
Bid Time Return var gefin út 1975 og er eina bókin af þessum ofantöldu sem ég hef ekki lesið. Hún fjallar um mann sem sér mynd af leikkonu frá 19. öld og verður ásfanginn. Söguhetjan ferðast því aftur í tíman til að komast til konunnar. Bókin var kvikmynduð sem Somewhere in Time árið 1980 og hefur síðan þá verið endurútgefin undir því nafni.
Sjónvarp og kvikmyndir
Matheson vann mikið sem handritshöfundur og er sumt af því nokkuð þekkt. Fyrir B-myndaframleiðandann Roger Corman skrifaði hann til að mynda House of Usher (1960) og Pit and the Pendulum (1961), sem voru báðar byggðar á verkum Edgar Allan Poe.
Matheson skrifaði mikið fyrir sjónvarp. Meðal annars einn allra frægasta Twilight Zone þáttinn sem heitir Nightmare at 20.000 feet (1963) og var byggður á smásögu höfundarins. Hún var svo aftur kvikmynduð fyrir Twilight Zone: The Movie (1983). Fjölmargar tilvísanir eru í þessa sögu til dæmis í frægum Simpsons þætti, 30 Rock og Madagascar 2. Annar frægur Twilight Zone þáttur sem Matheson skrifaði hét Steel (1963), sem var einnig byggður af smásögu höfundar, en sá þáttur var endurgerður árið 2011 sem kvikmyndin Reel Steel. Simpsons tóku þessa sögu líka fyrir í þætti. Þegar að nýir Twilight Zone voru framleiddir á níunda áratug síðustu aldar var ein smásaga Matheson Button, Button kvikmynduð og var hún síðar endurgerð sem bíómyndin The Box (2009).
Ein fyrsta kvikmynd Steven Spielberg er gerð eftir Matheson sögu og heitir Duel (1971). Hún eins og sumar sögur höfundarins tekur venjulegar aðstæður og breytir þeim í hræðilega lífsreynslu. Hér verður venjulegur maður fyrir barðinu á geðsjúkum flutningabílstjóra sem reynir að myrða söguhetjuna. Myndin fékk góðar viðtökur og þykir enn góð rúmum 40 árum síðar.
Richard Matheson var einstaklega áhrifamikill rithöfundur sem skrifaði margskonar sögur. Flest allir í samfélaginu þekkja eitthvað af verkum hans. Hvort sem það er vegna bókmennta, kvikmynda eða sjónvarpsþátta. Hann lét aldrei steypa sér í eitt mót og skrifaði sögur innan margskonar bókmenntagreina. Því er erfitt fyrir bóksala að skilgreina höfundinn og finnast verk hans því yfirleitt undir almennum bókmenntum. Ekki hægt að segja annað en hann hafði verið sannur furðusagnahöfundur.
Myndir: Goodreads (Richard Matheson) / DVD hulstur kvikmynda
Höfundur er Einar Leif Nielsen,
rithöfundur.