Bíó og TV

Birt þann 9. október, 2011 | Höfundur: Nörd Norðursins

0

Kvikmyndarýni: Reel Steal

Fyrrverandi hnefaleikakappinn Charlie á ekki sjö dagana sæla. Hann er ekki aðeins stórskuldugur og nýbúinn að stúta síðasta bardagavélmenninu sínu, heldur fréttir hann af því að 11 ára sonur hans, Max, hafi nýlega misst móður sína. Honum eru gefnir tveir valkostir,  forræði yfir syni sínum eða að passa hann í heilt sumar fyrir fúlgu fjárs, hann er ekki lengi að semja um seinni valkostinn. Honum til mikils ama er drengurinn erfiðari en Charlie átti von á, en svo virðist sem þrjóska Max eigi eftir að breyta lífi þeirra beggja.

Þegar ég heyrði um myndina var ég ekki lengi að skjóta hana niður: dýr fjölskyldumynd byggð á sígildum Twilight Zone þætti í leikstjórn Shawn Levy með vélmennaboxi, kommon! En Shawn Levy hefur tekið almennilegan vaxtarkipp sem leikstjóri, með Real Steel sem færir okkur persónulegri og stórspennandi íþróttamynd með ívafi vísindaskáldskaps. Meira svona Levy, og minna af daufu gamanmyndunum.

Leikarahópur Real Steel er kröftugur og eru það orkuboltinn Hugh Jackman og Dakoto Goyo í fararbroddi sem ólíku feðgarnir og Evangeline Lilly sem gamall elskuhugi Charlies. Jackman tekst rækilega að selja gölluðu manneskjuna sem hann leikur og þróast leikur hans út myndina ásamt persónu hans á náttúrulegan og áhrifamikinn hátt. Goyo tekst helvíti vel að leika á móti stórleikara á borð við Jackman og er nánast laus við barnastæla sem gera út af við svipuð hlutverk í fjölskyldumyndum. Goyo virkar þó allra best þegar hann sýnir tilfinningaríkar hliðar persónunnar eins og í kröftugri senu þar sem hann fer á næturrölt með vélmenninu sínu. Evangeline Lilly sýnir á sér aðra hlið hér en hún er þekkt fyrir í sjónvarpsþáttunum Lost; hér er hún að leika mun opnari persónu með meiri orku og gamansemi í frammistöðunni sem kom skemmtilega á óvart.

Þó að Real Steel fylgi sömu gömlu formúlu feðgamynda, sker myndin sig úr fjöldanum með því að halda sig við það áhrifaríkasta og besta úr þeim flokk.

Þó að Real Steel fylgi sömu gömlu formúlu feðgamynda, sker myndin sig úr fjöldanum með því að halda sig við það áhrifaríkasta og besta úr þeim flokk. Áhrif mynda á borð við The Champ eru til staðar, en ekki eins og mann myndi gruna. Það hvernig feðgarnir sýna mikinn mótþróa gegn hvor öðrum á ólíkan hátt veitir myndinni skemmtilega persónusköpun og byggir upp augljós sögulok myndarinnar ansi vel með áhrifaríkari útkomu. Danny Elfman hefði mátt fá meira svigrúm til að þróa stefin sín þar sem myndin hefði getað losað sig við „topplista“ lagavalið, því blanda hans af fjölskyldumyndatónlistinni og industrial hefði geta orðið meira einkennandi og áhugaverðari fyrir þann tíma.

Að sjá vélmenni slást getur verið ansi leiðinlegt ef maður finnur ekki fyrir þunga slagsmálanna, en Real Steel sker sig örlítið frá spennu flestra hnefaleikamynda með því að nýta takmörk vélmennanna. Bardagarnir byggja spennu sína á að stjórnendur þeirra þurfa að beita skarpri viðbragðshæfni þar sem vélmennin þurfa að taka við skipuninni áður en þeir geta gert eitthvað. Bardögum myndarinnar tekst einnig mjög vel að grípa anda alvöru hnefaleika, þrunga þeirra og sjónarspil þeirra skemmtilegustu. Tæknibrellur myndarinnar eru ekki af verri endanum, því hér er gott samspil milli vel framkvæmdra tölvubrellna og þeirra praktísku; ég átti oft erfitt með að greina hvað væri tölvugert, og væri fróðlegt að vita hvernig sumar brellurnar voru framkvæmdar.

Real Steel endurskrifar ekki reglur feðgamynda eða hnefaleikamynda, en nýtir það besta úr báðum flokkum á tilfinningaríkan máta sem gerir hana sterka sem stál.

Axel Birgir Gústavsson


Deila efni

Tögg: , , , , , , , , , ,


Upplýsingar um höfund:

Birt af ritstjórnSkildu eftir svar

Efst upp ↑