Bíó og TV

Birt þann 12. nóvember, 2012 | Höfundur: Nörd Norðursins

0

Rýnt í stiklu: World War Z

Ég er mikill áhugamaður um hamfaramyndir og ein mynd sem ég bíð í ofvæni eftir er nýjasta mynd leikstjórans Marc Forster, World War Z, sem frumsýnd verður á næsta ári. Forster á að baki margar áhugaverðar myndir en þó misgóðar eins og  Monster´s Ball, Finding Neverland, The Kite Runner og Bond myndina, Quantum of Solace.

World War Z gerist eins og svo margar hamfaramyndir í stórborg og að sjálfsögðu í New York. Allt frá því að stóra górillan olli usla í borginni í myndinni King Kong (1933) þá hefur Hollywood verið upptekið af því að eyðileggja stóra eplið sem aldrei sefur. Hollywood lét þó borgina í friði í dágóðan tíma eftir hryðjuverkaárásirnar 11. september 2001. En árásirnar á New York þann dag endurspegluðu að einhverju leyti atriði úr hamfaramyndum og eflaust hefur mörgum fundist þeir vera að horfa á atriði úr hamfaramynd þegar myndir af atburðunum birtust á sjónvarpsskjánum.

Það er þó hægt að ímynda sér að árásirnar 11. september hefðu orðið enn meira áfall ef ekki hefði verið fyrir birtingarmynd árása á borgina í hamfaramyndum í gegnum tíðina. Susan Sontag skrifaði áhrifamikla grein, The Imagination of Disaster, um áhrif hamfaramynda og vísindaskáldskaparmynda sem gefin var út árið 1961. Þar talar hún um að hamfaramyndir geti vanið okkur við að horfa á hrylling hamfara. Þær búi sálartetrið undir hamfarir og heimsslit að vissu leyti. Ergo: hamfaramyndir voru búnar að búa fólk undir árásirnar 11. september samkvæmt Sontag.

En nú að stiklunni fyrir myndina. Það er ljóst að myndin er uppvakninga-heimsslitamynd (zombie apocalypse movie) en uppbyggingin minnir um margt á hefðbundna frásagnaruppbyggingu annarra heimsslitamynda af stiklunni að dæma. Við sjáum í byrjun New York borg og bílaröð svo langt sem augað eygir.  Í umferðaröngþveitinu sitja í bíl sínum hjónin Gerry Lane (Brad Pitt) og Karen Lane (Mireille Enos) og dætur þeirra í aftursætinu. En ólíkt hefðinni þá eiga þau ekki eina dóttur og einn son, sem kemur eiginlega mjög á óvart.

Fljótlega kemur í ljós að það er ekki allt með feldu, mikil sprenging verður. Gerry Lane er greinilega maður sem er óhræddur og lætur sig hlutina varða. Hann stígur út úr bílnum til þess að athuga hvað er um að vera. Þegar lögreglumaður skipar honum svo að setjast inn í bílinn gerir hann það. Sorpbíll kemur svo með miklum hvelli og keyrir yfir lögregluþjóninn. Það verður greinilega mikill hamagangur í byrjun myndarinnar, fjölskyldan virðist þurfa að flýja úr bíl sínum og setjast upp í húsbíl og keyra út úr borginni. Enda svo reyndar á flugmóðurskipi en það er bara gott og blessað.

Ekki óvanalegt að sjá byggingu Sameinuðu þjóðanna í stórslysamyndum. Tákn samstöðu. Það er líka hugsanlegt að þyrlan sem sést á myndinni sé að koma frá byggingunni. Lane sést tala við tvo jakkafataklædda menn sem sitja í þyrlunni og virðast þeir vera háttsettir embættismenn því Lane virðist geta nálgast mikilvægar upplýsingar hjá þeim. Greinilegt að Lane er ekki bara venjulegur Jón út í bæ.

Það er líklegt að Lane vinni hjá Sameinuðu þjóðunum sem vísindamaður eða eitthvað því um líkt því nærveru hans er óskað af einhverjum ástæðum sem koma ekki fram í stiklunni, af sjóliðsforingjanum Mullenaro (David Andrews) sem sést á myndinni hér fyrir ofan.

Ef eitthvað er að marka stikluna þá virðist myndin taka óvænta stefnu og færa bardagana við uppvakningana til miðausturlanda, eflaust táknræn nálgun.

Ólíkt uppvakningum í öðrum myndum og þáttaröðum eins og í sjónvarpsþáttunum The Walking Dead, þá eru þessir uppvakningar ansi fráir á fæti og satt best að segja þá gefur það myndinni ákveðinn slagkraft og eykur á spennuna, ef eitthvað er að marka stikluna. Það verður áhugvert að sjá Brad Pitt í hlutverkinu og hvernig leikstjórinn Marc Forster nálgast viðfangsefnið. Ég held það sé hægt að hlakka til, þó svo að galli myndarinnar virðist liggja í tæknibrellunum. En sum atriðin sem koma fram í stiklunni eru eins og klippt út úr tölvuleik og hreint út sagt léleg.

Brad Pitt að berjast við uppvakninga, ég hef heyrt þá betri.

 

Stiklan í heild sinni

 

 

Höfundur er Ragnar Trausti Ragnarsson,
fastur penni á Nörd Norðursins og nemi í kvikmyndafræði við Háskóla Íslands.

 

Deila efni

Tögg: , , , , , , , ,


Upplýsingar um höfund:

Birt af ritstjórn



Comments are closed.

Efst upp ↑