Bíó og TV

Birt þann 5. september, 2012 | Höfundur: Nörd Norðursins

0

Kvikmyndarýni: Valerie and Her Week of Wonders (1970)

Þó að frelsi sé ef til vill eitt það mikilvægasta í listsköpun geta takmarkanir og ritskoðun leitt til mjög athyglisverðrar útkomu. Mörgum af þekktustu listamönnum heims var meinað að stunda list sína án afskipta yfirvalda. En vegna þessara takmarkana lærðu þeir aðferðir til þess að tjá list sína í gegnum skýrskotanir og óhefðbundnar nálganir. Tékkneska nýbylgja sjöunda áratugarins einkenndist undir lokin af tilraunakenndum kvikmyndum sem gagnrýndu kommúníska stjórn á lúmskan hátt. Svo lúmskan í raun að kvikmyndagerðin var styrkt af kommúníska yfirvaldinu á meðan að kvikmyndagerðarmenn notfærðu sér gloppur í ritskoðuninni og bitu þannig í hönd þeirra sem þá fæddu. Á sama tíma og ein bjartasta stjarna tékknesku nýbylgjunnar, Miloš Forman, hugðist flytja til Bandaríkjanna kom út ein merkasta kvikmynd tímabilsins og jafnframt ein af mínum uppáhalds.


Myndin ber nafnið Valerie and Her Week of Wonders (Valerie a týden divu) og er í leikstjórn Jaromil Jireš. Hún fjallar um 13 ára stelpu og hræðslu hennar við kynþroska sem birtist í súrrelískum draumi þar sem ógnin við kynlíf og blæðingar birtist henni í ýmsum skugga- og ævintýralegum formum. Myndin er í rauninni ævintýralegt drama með sterkum vísunum í fantasíu og hrollvekju, en hún er byggð á skáldsögu með sama nafni frá árinu 1935 eftir Vítezslav Nezval.

Valerie býr ein með ömmu sinni, en foreldrar hennar eru fjarverandi. Einn daginn er brotist inn þar sem hún sefur og strákur að nafni Orlík tekur eyrnalokkana hennar. Hún sér svo mörð og einhvers konar skrímsli sem hún hræðist en ákveður þó að reyna að finna sökudólgana. Stuttu seinna er eyrnalokkunum skilað til hennar og á leið hennar heim fer hún á blæðingar. Hún leggst upp í rúm og þá hefst draumurinn. Sagan minnir nokkuð á Lísu í Undralandi, nema að fólkið sem hún kynnist reynir að tæla hana  hvort sem að það sé prestur, hjálpsamur strákur, gömul frænka eða hálfgert skrímsli, þá eru þau öll boðberar kynlífs. Einnig er sterk áhersla á vampírisma, en í gegnum skrímslið, sem minnir óneitanlega á vampíruna Nosferatu úr samnefndri kvikmynd F.W. Murnau frá 1922, birtast hrollvekjuáhrif sem eru mjög áberandi í söguþræði myndarinnar. Skrímslið er holdgerving á ótta Valerie við kynlíf. Þó það birtist sem vampíra tengist það merði í stað leðurblöku og lýgur í sífellu að Valerie til að öðlast traust hennar svo það geti notfært sér sakleysi hennar. Blóðið sem skrímslið hyggst sjúga tengist auðvitað blæðingum Valerie, en í byrjunaratriði myndarinnar sést blóðdropi falla á blóm og setur það sterkan tón fyrir þema myndarinnar.

Draumkenndur ljómi býr yfir allri myndinni og einstaklega falleg kvikmyndataka breytir hverjum ramma í listaverk. Klippingin er þó ekki alltaf fullkomin og gefur myndinni grófa eiginleika sem þó eru ekki alslæmir. Tónlistin passar vel við fantasíska eiginleika myndarinnar og barnasöngurinn fellur þægilega að tékkneska haustinu ásamt því að endurspegla uppstillingu sakleysis og trúar við kynlífsóra. Lýsingin er nokkuð björt en það dregur þó ekkert úr áhrifum skuggalegu atriðanna og vekur meiri athygli að úthugsuðum uppstillingum skotanna. Einnig er algengt að skotið sé frá fjarlægð svo að rýmið og hlutir innan þess séu notaðir til að ramma inn skotin. Þetta er einnig gert til þess að gefa tilfinningu fyrir innsýn í hið ókunna og óheimilaða.

Leikaravalið setur sterkan svip á myndina og þó um engar stórstjörnur sé um að ræða standa leikararnir sig mjög vel. Jaroslava Schallerová tekst að sýna bæði sakleysi og vaxandi kynþokka í hlutverki Valerie og minnir nokkuð á stelpuna Sharon úr Silent Hill (2006) sem að Jodelle Ferland lék. Jirí Prýmek er algjörlega ódauðlegur sem skrímslið (eða mörðurinn) og birtist sem pervertísk útgáfa af sjálfum Nosferatu. Óþægileg nærvera Jan Klusák klikkar heldur ekki (eins og hann varð frægur fyrir í The Party and the Guests frá 1966), en hann er í hlutverki prests sem notfærir sér sakleysi ungra stúlkna. Hin svakalega föla Helena Anýzová er engu síðri og gotnesku áhrifin hreinlega skjótast úr augnaráði hennar. Hún tekur að sér hlutverk ömmu Valerie, mömmu hennar, frænku og ég veit ekki hvað, svo maður er aldrei viss um raunverulega stöðu hennar í hugarheimi Valerie.

Þó að myndin geti verið lesin sem gagnrýni á tékkneskt samfélag síns tíma þá er hún mun meira en bara það. Hér er um að ræða óð til gotnesks hryllings og súrrealískrar fantasíu sem hressir jafnframt upp á gamlar hefðir.

Þessi yndislega skrítna kvikmynd er klárlega ein af mínum uppáhalds og það er algjör skömm að hún sé ekki þekktari. Leikstjórn Jaromil Jireš minnir nokkuð á meistarann Luis Buñuel, enda lagði hann einnig mikla áherslu á tengsl trúarbragða og kynlífs á súrrealískan máta. Þó að myndin geti verið lesin sem gagnrýni á tékkneskt samfélag síns tíma þá er hún mun meira en bara það. Hér er um að ræða óð til gotnesks hryllings og súrrealískrar fantasíu sem hressir jafnframt upp á gamlar hefðir. Myndin stríðir einnig áhorfendum sem leitast eftir merkingum og brúar bilið á milli raunveruleika og ímyndunar. Valerie and Her Week of Wonders er langt því frá að vera eina góða tékkneska myndin og ef þú hefur ekki séð eina slíka er hún tilvalin til þess að sjá fyrst, sérstaklega ef þú kannt að meta hrollvekjur eða fantasíur. Hún mun kannski ekki hræða þig, en hún mun líklegast skilja eitthvað eftir. Eitthvað undarlegt.

Andri Þór Jóhannsson

Deila efni

Tögg: , , , , , , ,


Upplýsingar um höfund:

Birt af ritstjórn



Comments are closed.

Efst upp ↑