Bíó og TV

Birt þann 6. september, 2012 | Höfundur: Nörd Norðursins

0

Kvikmyndarýni: Frost

Frost er nýr íslenskur vísindaskáldsögutryllir gerður eftir handriti Jóns Atla Jónassonar og í leikstjórn Reynis Lyngdals, en Reynir hefur meðal annars leikstýrt Okkar eigin Osló (2011) og sjónvarpsmyndinni Hamarinn (2009). Með aðalhlutverk fara Björn Thors (einnig þekktur sem Kenneth Máni úr Fangavaktinni) og Anna Gunndís Guðmundsdóttir, en hún lék Hildi Líf eftirminnilega í Áramótaskaupinu 2011 og er þetta hennar fyrsta hlutverk í kvikmynd í fullri lengd.

Íslenskur vísindaskáldsögutryllir? Við hverju á maður eiginlega að búast? Hingað til hafa íslenskar kvikmyndir, sem hafa tekið sig alvarlega, fyrst og fremst fjallað um gráan hversdagsleikann eða glæpamál sem þarf að leysa. Ég verð að viðurkenna að ég vissi ekki alveg við hverju ég átti að búast, enda kannski ekki skrítið, myndin tilheyrir kvikmyndaflokki sem Íslendingar hafa lítið þorað að spreyta sig á.

Í stuttu máli fjallar myndin um lífeðlisfræðinginn Öglu (Anna Gunndís Guðmundsdóttir) og kærastann hennar, Gunnar (Björn Thors) kvikmyndagerðarmann, sem eru stödd uppi á jökli í jöklaleiðangri ásamt nokkrum vísindamönnum. Skyndilega áttar parið sig á því að samferðafólk þeirra er horfið og í kjölfarið fara dularfullir atburðir að eiga sér stað. Meirihluti sögunnar er sögð í gegnum myndavélar Gunnars, en hann vonast til þess að taka upp efni í leiðangrinum sem hann getur síðan selt sjónvarpsstöðvum. Myndavélin er mikið á hreyfingu líkt og þekkist í sambærilegum heimildamyndatökum sem hafa verið notaðar í myndum á borð við The Blair Witch Project (1999) og hinni norsku Troll Hunter (2010). Stundum fær maður á tilfinninguna að Gunnar hafi mögulega keypt eina af sínum tökuvélum á flóamarkaði þar sem sjálfvirki fókusinn fer á köflum alveg yfirum, vægast sagt. Snjóhvítt þema myndarinnar kemur þó skemmtilega vel út og er gaman að sjá hvernig ljós og myrkur er notað í gegnum alla myndina.

Það kom mér á óvart hversu eðlileg og vel skrifuð samtölin eru, sérstaklega ef miðað er við íslenskar myndir þar sem samtöl eiga það til að vera alltof hátíðleg, óþarflega ýkt og yfir höfuð óraunveruleg.

Agla og Gunnar eru meira og minna í mynd út alla myndina og þess vegna skiptir miklu fyrir myndina í heild sinni að leikur þeirra beggja sé góður. Það kom mér á óvart hversu eðlileg og vel skrifuð samtölin eru, sérstaklega ef miðað er við íslenskar myndir þar sem samtöl eiga það til að vera alltof hátíðleg, óþarflega ýkt og yfir höfuð óraunveruleg. Anna Gunndís fór á kostum í myndinni og er alveg augljóst að hún mun birtast oftar á hvíta tjaldinu. Innlifun hennar í hlutverki Öglu stóð upp úr myndinni og er óhætt að segja að hún hafi staðið sig með prýði. Það fer ekki eins mikið fyrir Gunnari, sem er mun oftar fyrir aftan myndavélina, en stundum fær maður á tilfinninguna að persónan sé annars hugar og lifir sig mismikið inn í aðstæðurnar. Þegar dularfullir og háskalegir atburðir eiga sér stað í sögunni leið mér eins og  Gunnar væri ekki nærri því jafn skelkaður og hræddur og hann þóttist vera. Það er spurning hvort þetta tengist leik Björns Thors, persónusköpun Gunnars eða leikstjórninni? En það vantaði innlifunina í hápunkta atriðin að mínu mati. Að öðru leiti var Gunnar trúverðug persóna og vel leikin, og það sama má segja um restina af persónum myndarinnar.

Því miður er fátt jákvætt hægt að segja um myndina en leikurinn er sennilega það eina sem stóð fram úr væntingum, auk þess er kvikmyndatakan ákaflega vel heppnuð. Myndin er nokkuð áhugaverð til að byrja með og býður upp á mörg falleg skot af hálendi Íslands og áhugaverða og persónulega kynningu á aðalpersónum myndarinnar. Þegar myndin er u.þ.b. hálfnuð er hún búin að missa tökin á áhorfandanum og nær aldrei jafn sterku taki aftur. Sagan nær því aldrei að vera virkilega góð. Það eru alltof mörg dauð atriði í myndinni sem gerir söguna heldur langdregna og þreytta, og þau fáu spennandi atriði sem myndin hefur upp á að bjóða eru hálf kjánaleg. Þó myndin leggi fram ýmsar spurningar veitir hún ekki  áhorfandanum nægilega áhugaverða sögu svo hann heimti svör við þessum spurningum. Það vantaði eitthvað meira í myndina. Meiri og vandaðri vísindaskáldskap? Meiri trylli? Meiri hrylling? Meira blóð? Fleiri bregðuatriði? Dýpri sögu? Ég veit það ekki, en eitthvað vantaði til að halda myndinni áhugaverðri. Það vantaði kjöt á beinin. Eitthvað sem gerir myndina eftirminnilega og góða. Þér á líklega eftir að finnast myndin spennandi á köflum og munt jafnvel eftir að bregða nokkrum sinnum, en flest allt sem snertir vísindaskáldskap og sögu myndarinnar er framsett á fremur óáhugaverðan og misheppnaðan hátt og mun að líkindum valda þér vonbrigðum. Eftir situr áhorfandinn með kjánahroll. Myndin hefði mögulega orðið eitthvað betri ef það væri ekki fyrir misheppnuðum vísindaskáldskap.

Frost er þokkalegur spennutryllir með vott af misheppnuðum vísindaskáldskap.

Einnig er vert að nefna að eftir að hafa séð kítlur og stiklur úr Frost (sjá hér fyrir neðan) sá ég fyrir mér mun meiri hrollvekju og spennu en raun bar vitni (Andri Þór kannast við svipuð svekkelsi með Reykjavík Whale Watching Massacre). En Frost er ekki hrollvekja að mínu mati, því miður. Frost er þokkalegur spennutryllir með vott af misheppnuðum vísindaskáldskap. Það sem gerir myndina þó einstaka, og mögulega þess virði að sjá í bíó, er hversu frábrugðin hún er hefðbundnum íslenskum kvikmyndum.

Þó að Frost hafi ekki verið nálægt því að standast mínar væntingar er ekki annað hægt en að fagna útgáfu myndarinnar. Frost er ólík hefðbundnum íslenskum kvikmyndum og fer ótroðnar slóðir.  Vonandi munu fleiri kvikmyndagerðarmenn þora að taka af skarið og sýna íslenskum vísindaskáldskap og hryllingi aukna athygli. Frost er lítið skref í rétta átt, en það vantar enn mikið upp á til að gera okkur nördana ánægða.

Bjarki Þór Jónsson

Deila efni

Tögg: , , , , , , ,


Upplýsingar um höfund:

Birt af ritstjórnComments are closed.

Efst upp ↑