Bíó og TV

Birt þann 16. apríl, 2012 | Höfundur: Nörd Norðursins

0

Kvikmyndarýni: Battleship

Battleship er tröllvaxinn bandarískur ostborgari – safaríkur, bragðgóður, og vel grillaður ostborgari sem þú gæðir þér á í góðum félagsskap á fínum degi. Myndin er ein stór klisja og gerir sér grein fyrir því án þess að draga fram skopstælingarspilið, hún vinnur með það sem hún hefur og mótar STÓRA og skemmtilega sumarmynd úr því. Hún veit hvað hún vill og tekst að fá því framgengt með stæl. Battleship grípur þig með kímnigáfu sinni, viðkunnanlegum persónum og loforðum um heilmikið hávært sjónarspil sem hún stendur svo sannarlega við.

Hugmyndin er einföld og spilar (híhí) aldrei langt út fyrir þægindamörk sín, en það er víst það besta í stöðunni til þess að forðast að vera óþægilega mikil flækja eins og Transformers-myndirnar hans Michael Bay. Peter Berg kann á hasarinn þó hann sé mjög hrifinn af því að þrýsta myndavélinni of nálægt því sem er að gerast. Uppsetning hasarsins er skýr og uppbyggingin heldur manni í heljargreipum þar til að lætin skella á. Þetta er fjörug svaðilför, og að sjá hana á stóra skjánum  er eins og að skella sér í risavaxinn vatnsskemmtigarð með vinum og vandamönnum á sólríkum degi. Stundum langar manni einfaldlega að svala áhyggjunum í ísköldum djúpa enda laugarinnar.

Peter Berg reynir ekki að fela hversu mikil klisja myndin er, þú hefur séð þetta allt áður og það var jafnvel betur gert.

Peter Berg reynir ekki að fela hversu mikil klisja myndin er, þú hefur séð þetta allt áður og það var jafnvel betur gert. Hann lætur allt flakka og orka myndarinnar er mjög smitandi – þú þarft ekki að slökkva á heilanum áður en þú horfir á myndina, henni tekst að koma þér á sína bylgjulengd á eigin spýtur. Tónlistarval myndarinnar er jafnvel ein stór klisja, en mér fannst myndinni ALLTAF takast að grípa gæsina í hverju atriði sem hún lætur heyra í hressu lagavali sínu. Myndin heldur líka góðum ganghraða út þessa tvo tíma, það er erfitt að finna dauðan punkt út alla myndina sem er nákvæmlega það sem flestir sumarsmellir eiga að hafa að markmiði frekar en að reyna að höfða til allra.

Leikhópur myndarinnar er ekki uppá marga fiska, en leikararnir þjóna hlutverkum sínum skítsæmilega. Taylor Kitch sýnir nánast enga breytingu frá því hann var í John Carter en er samt sem áður jafn sjarmerandi og hann var í þeirri ræmu, Brooklyn Decker virkar fín, Rhianna var ekki truflandi í sínu fyrsta kvikmyndahlutverki og Liam Neeson er í afar litlu hlutverki og skilur þar af leiðandi mjög lítið eftir sig þó hann sé ávallt velkominn. Þeir hressustu og skemmtilegustu voru án efa þeir Jesse Plemons sem orkuboltinn Ordy og Tadanobu Asano sem fær loksins stærra hlutverk vestan megin, og nýtir það sæmilega með hressu viðh0rfi og virkar þokkalega jarðbundinn.

Battleship er hvorki meira né minna en fantagóð skemmtun og langtum skárri en Transformers-myndirnar þrátt fyrir að deila ýmsum sjónrænum (og efnisbyggðum) líkindum. Skemmtunin er stillt í botn, fjörið er svalandi, og lætin eru nýtt vel. Þetta er mikil BÍÓmynd sem er mjög góð leið til að hefja sumarið á. Ég myndi segja að þetta sé góð stefna fyrir borðspilamyndir því það er í raun frekar erfitt að taka hugmyndina sjálfa (að heil mynd sé gerð eftir umferðaskiptum leik með núll söguþræði) alvarlega, nema hún sé fyrst og fremst að sækjast eftir að skemmta þér eins og Battleship (og Clue) – ég meina, til þess eru borðspil gerð.

Axel Birgir Gústavsson

Deila efni

Tögg: , , ,


Upplýsingar um höfund:

Birt af ritstjórn



Skildu eftir svar

Efst upp ↑