Bíó og TV

Birt þann 19. september, 2011 | Höfundur: Nörd Norðursins

0

Kvikmyndarýni: Fright Night (2011)

ATH: Myndin verður dæmd á sínum eigin forsendum, ekki sem endurgerð.

Unglingurinn Charley Brewster lifir í litlum afskekktum bæ í Texas fylki þar sem allt er afar venjulegt. En einn dag segir gamall vinur Charleys, Ed, að hann gruni að Jerry, nýji nágranni Charleys, gæti verið vampíra. Charley trúir honum ekki, en eftir þann dag hverfur Ed og Charley fer að gruna að Ed kunni að hafa rétt fyrir sér. Hann ákveður eitt kvöld að lýta inn í hús Jerrys á meðan hann er ekki heima og komast að sannleikanum.

Fright Night er í stuttu máli verulega löt kvikmynd í alla staði. Ekki sú latasta í ár (Season Of  The Witch ber þann titil), en gleymist mjög fljótt og er troðfull af klisjum úr vampírumyndum og ræmum um hrottalega nágranna – Allir ættu auðvellt með að giska næstu fimm mínúturnar í hverju atriði. Það er varla hægt að tengjast persónunum þar sem þær eru mjög tómlegar og þannig tekst myndinni að sjúga út alla spennu úr veseninu sem persónurnar lenda í. Slæm staðsetning á gríni spilar líka inn í spennuleysið sem verður til þess að Fright Night er hvorki fyndin né hrollvekjandi.

Leikaravalið er sérkennilegt, en það er hann Colin Farell sem fer með hlutverk vampírunnar Jerry. Því miður er hann aðeins augnakonfekt hér og virðist ekki vita hvað hann eigi að gera út alla myndina, enda tómleg og margséð vampíra hér á ferð. Hvernig getur vampíra sem fylgir sígildu reglunum um þær skepnur verið jafn ógnlítil og tómleg eins og Edward úr Twilight? Anton Yelchin reynir að krydda örlítið uppá persónu sína án árangurs og restin af liðinu skilar inn sæmilegum, en fljótt gleymdum frammistöðum.

Mörg samtöl eru óþægilega langdregin eða tekst algjörlega að klúðra þeirri tilfinningu sem er verið að fiska eftir – gott dæmi væri þegar Colin Farell kemst ekki inn í hús aðalpersónunnar, standandi í dyragættinni og byrjar að babbla stanslaust, en tekst engan veginn að vekja ugg eða hlátur hjá áhorfendum. Stíll leikstjórans er óhnitmiðaður og spastískur, klárlega var þetta ekki rétti náunginn fyrir starfið því léleg framkvæmd á tómlegu handriti gerði Fright Night að mynd sem auðvellt er að sofna yfir. Meðhöndlunin á þrívíddinni var einnig eitthvað sem þessi leikstjóri var alls ekki hæfur til.

Það má kallast ansi lélegt ef harðsoðinni vampírumynd tekst verr að skemmta og hrella mann, en Twilight myndirnar sem hún gerir gys af. Hvað heimilaði þessa endurgerð?

Axel Birgir Gústavsson


Deila efni

Tögg: , , , , , , ,


Upplýsingar um höfund:

Birt af ritstjórnSkildu eftir svar

Efst upp ↑