Tölvuleikir

Birt þann 17. febrúar, 2012 | Höfundur: Nörd Norðursins

0

Nörd Norðursins: Bestu tölvuleikirnir 2011

Við hjá Nörd Norðursins höfum tekið okkur saman og skrifað um bestu tölvuleikina 2011. Hver og einn okkar hefur valið einn leik sem er að okkar mati besti leikur ársins og segir í stuttu máli frá valinu og leiknum.

Hvaða tölvuleikur er besti leikur ársins 2011 að þínu mati?

 

BJARKI ÞÓR: L.A. NOIRE

Leikjaárið 2011 var ótrúlega öflugt og langt síðan ég hef fengið jafn marga spennandi leikjatitla í hendurnar á einu ári. Leikirnir Portal 2, Mortal Kombat og From Dust, indí leikirnir Blocks That Matter og ilomilo (kom út 2010 fyrir Windows Phone 7, en 2011 á Xbox 360) og smáleikirnir PewPewPewPewPewPewPewPewPew, DLC Quest og Techno Kitten Adventure náðu að heilla mig algjörlega upp úr skónum.

Það er óhætt að fullyrða að stór hluti leikjasamfélagsins myndi kjósa epíska ævintýra- og hlutverkaleikinn Skyrim sem leik ársins, en ég verð að viðurkenna að ég hef aldrei heillast af Elder Scrolls leikjunum. Ég hef reynt að spila Oblivion og Skyrim nokkrum sinnum, en þeir höfða hreinlega ekki til mín (ég veit, ég veit, ég er skrítinn).

Að mínu mati er leikur ársins 2011 rannsóknarlögregluleikurinn L.A. Noire frá Team Bondi og Rockstar Games, en leikurinn féll fljótt í skugga annarra leikjatitla. Leikurinn hefst árið 1947 þar sem hrottalegt morð hefur verið framið í borg englanna, Los Angeles, þar sem glamúr, frægð og frami lifir góðu lífi – auk spillingar og skipulagðrar glæpastarfsemi. Spilarinn stjórnar lögreglumanninum Cole Phelps sem rannsakar ýmis glæpamál og vinnur sér inn frægð og frama með velgengni sinni. Það sem gerir leikinn einstakan að mínu mati er framúrskarandi yfirheyrslutækni, persónusköpun, umhverfi, söguþráður og öðruvísi og fjölbreytt spilun.

Þegar Cole Phelps yfirheyrir persónur þarf spilarinn að meta hvort viðkomandi sé að segja sannleikann eða ekki út frá svipbrigðum, hegðun og tón raddar. Smáatriðin sem sjást í andlitunum og nákvæmni svipbrigða er ótrúleg. Til að ná þessari nákvæmni í leikinn var notast við svokallaða MotionScan tækni þar sem 32 tökuvélar  skynja hverja smáhreyfingu sem leikarinn gerir, en lang flestar persónur leiksins eru raunverulegir leikarar. Það eru ekki aðeins smáatriðin í persónunum sem gerir þær einstakar. Talsetningin, klæðnaður auk hegðunar og framkomu persónanna gerir þær ótrúlega trúverðugar – sérstaklega miðað við tölvuleikjapersónur.

Helsta ástæðan fyrir því að ég vel L.A. Noire sem leik ársins er vönduð og fjölbreytt spilun.

Umhverfi, tónlist og söguþráður leiksins er mjög fullkominn. Spilarinn fær tíma til að kynnast borginni, persónunum og fá góða tilfinningu fyrir borginni. Helsta ástæðan fyrir því að ég vel L.A. Noire sem leik ársins er vönduð og fjölbreytt spilun. Í hefðbundnu rannsóknarmáli byrjar spilarinn á því að rannsaka vettvanginn, leita að vísbendingum, sönnunargögnum og yfirheyra vitni. Því fleiri vísbendingar og sönnunargögn sem spilarinn finnur, því meiri líkur eru á því að hann leysi málið. Í flestum málum er kafli sem inniheldur hasar (til dæmis skotbardaga eða eltingarleik) og yfirheyrslur. Spilarinn fær því ótrúlega fjölbreytta spilun, og svo er allt þetta tvinnað saman með vandaðri sögu sem á sér stað í opnu umhverfi þar sem spilrinn getur keyrt um og farið þangað sem vísbendingarnar (eða forvitnin) leiða hann.

 

DANÍEL PÁLL: BATTLEFIELD 3

Þegar horft er yfir árið 2011 er greinilegt að þarna var eitt stærsta ár í sögu tölvuleikja. Þvílíkt magn af stórum og öflugum titlum sem voru hver öðrum betri. Þegar maður var beðinn um að tilnefna  leik  sem besta leik ársins 2011 þá var úr mörgu að velja. Eftir að hafa litið vel yfir listann af þessum meistaraverkum var erfitt að festa valið en ég valdi leikinn sem ég hafði eytt mestum tíma í og það er Battlefield 3.

Battlefield 3 gerist í náinni framtið (2014) og stjórnar spilarinn hermönnum í stríði sem geysar á landamærum Írak-Íran, leyniaðgerðum í París og um borð í lest í New York. Óvinurinn hefur aðgang að mögulegu gereyðingarvopni og er það á ábyrgð spilarans og félaga að koma í veg fyrir notkun þess.

Það sem Battlefield 3 gerir vel og almennilega er fjölspilunin. Það er hérna sem leikurinn slær gull og ber flesta samkeppni frá sér með hafnaboltakylfu því að margir leikir komast ekki með tærnar þar sem Battlefield 3 er með hælana.

Einspilunin í leiknum er ekkert til að hrópa húrra yfir en er ágætis afþreying en oft er eins og að maður sé að spila sama bardagann aftur, í mismunandi herbergjum. Það sem Battlefield 3 gerir vel og almennilega er fjölspilunin. Það er hérna sem leikurinn slær gull og ber flesta samkeppni frá sér með hafnaboltakylfu því að margir leikir komast ekki með tærnar þar sem Battlefield 3 er með hælana. Risaborð með stuðning fyrir 64-spilara (24-spilarar á Xbox 360 og PlayStation 3) þar sem hægt er að eyðileggja mikið af umhverfinu og hefur gott úrval af farartækjum. Hægt er að keyra jeppa og skutla bardagabræðrum, keyra skriðdreka og sprengja mannvirki, tré og mann og annann, fljúga árásarþyrlum sem hafa vopnabúr á við lítið herríki og herþotur sem hafa sama eiginleika og moskítóflugur, þ.e.a.s., vera svakalega pirrandi en geta stungið.

Leikurinn býður spilaranum upp á að vera í allt að fjögurra manna sveit og spilast fjölspilunin best með vinum þar sem hver og einn liðsmaður skiptir máli í stórum bardögum. Hægt er að spila fjóra mismunandi flokka af hermönnum og flokkast þeir svona;
Árásarliði: Kjötið í herdeildinni sem hefur þann eiginleika að geta lífgað bardagabræður við sem hafa fallið í valinn.
Verkfræðingur: Tvífætt ógn sem flest farartæki forðast eins og heitann eldinn enda kann hann allar leiðir til að sprengja farartæki óvinarins.
Stuðningur: Vantar þig skotdrífu til að halda óvininum í skefjum á meðan þú hleypur í betra skjól? Þá er þetta maðurinn sem þú vilt hafa hjá þér, og já, hann gefur þér fleiri skotfæri þegar þín klárast.
Útsendari: Útsmoginn andskoti sem getur bæði verið í framlínu með návígisvopn eða falið sig fyrir aftan árásarliðið og hjálpað til með leyniskytturiffli.

Mikið hefur verið lagt upp úr leiknum og það skín í gegn í stórum bardögum þar sem þyrlur, skriðdrekar, herþotur og hermenn herja á óvini sína sem hafa völd yfir samsvarandi herbúnaði. Það að vera partur af þessu stríði sem fjölspilunin er veitir manni góða tilfinningu og skilar sér í því að oftar en ekki er maður kominn á brún stólsins og ekki búinn að blikka augunum í of langan tíma vegna spennu.

Þetta hefur verið leikurinn minn sem ég hef kíkt í þegar mig vantar  að fá smá útrás og leikurinn margfaldast í skemmtanagildi þegar spilað er með vinum eða kunningjum.
Ég mæli eindregið með þvi að kíkja á gripinn og prófa fjölspilunina, hún virðist kannski vera flókin til að byrja með en þegar leikurinn er kominn í blóðið, fer hann seint út.

 

KRISTINN ÓLAFUR: SKYRIM

Þegar stungið var upp á því að allir pennar Nörd Norðursins myndu skrifa stutta umfjöllun um uppáhalds leik sinn frá árinu 2011 lenti ég í bobba. Ég hef nefninlega bara spilað tvo leiki sem komu út árið 2011 en þeir munu vera Terraria og Skyrim. Terraria er ágætur en ég held að ég geti alveg fullyrt það að Skyrim er með betri hlutverkaspilunarleikjum sem ég hef nokkurn tímann spilað, og miðað við þá umfjöllun sem leikurinn hefur fengið á undanförnum mánuðum er ég pottþétt ekki einn um þá skoðun. Fyrir þá sem ekki vita er Skyrim fimmti leikurinn í Elder Scrolls seríunni og er gefinn út af Bethesda sem hafa fyrir löngu gert garðinn frægann með leikjum á borð við Fallout 3. Leikurinn gerist í Skyrim, sem er ísilagt land sem er nýlega umsetið drekum. Spilarinn leikur persónu sem er Dragonborn, en slíkir einstaklingar hafa þann eiginleika að draga í sig mátt drekanna og beita yfirnáttúrulegum kröftum hins forna drekatungumáls.

En hvað er það sem gerir Skyrim að svona rosalega góðum leik? Til að byrja með er Skyrim heimurinn gríðarlega stór og með nánast endalausum hlutum sem hægt er  að skoða og drepa.

En hvað er það sem gerir Skyrim að svona rosalega góðum leik? Til að byrja með er Skyrim heimurinn gríðarlega stór og með nánast endalausum hlutum sem hægt er  að skoða og drepa. Heimurinn er einnig gífurlega fallegur, opinn og raunverulegur, en ég hef aldrei áður upplifað eins mikla víðáttu í leik eins og í Skyrim. Frelsi spilarans er líka algjört. Ef maður er kominn með leið á aðalsöguþræði leiksins er um að gera að líta í kringum sig og maður sér örugglega einhverjar rústir í fjarska til að skoða, hátt fjall til að klífa eða skrímsli til að drepa.

Persónusköpunin í Skyrim er líka frábær. Spilarinn getur valið á milli tíu mismunandi kynþátta þegar hann býr til persónu sína og möguleikarnir til að gera persónuna einstaka eru óendanlegir. Ólíkt öðrum leikjum af svipuðum toga þarf spilarinn ekki að velja fyrir fram hvort hann vilji vera galdrakall, þjófur, stríðsmaður eða eitthvað annað, heldur er honum frjálst að sérhæfa sig í hverju sem hann vill eftir því sem líður á leikinn. Mín persóna til að mynda er þungbrynjaður eðlumaður sem getur bæði hakkað hluti í smátt með exi, eða kveikt í þeim úr fjarska með eldgöldrum.

Dýpt leiksins er líka óaðfinnanleg. Það hefur greinilega verið lögð gífurlega mikil vinna í sögusvið leiksins, en maður finnur mikið fyrir því að maður er staddur í mjög gömlum heimi þar sem mikið hefur gengið á löngu áður en persóna manns var sköpuð. Hvert sem maður fer er fólk að tala um kónga, hetjur og dreka úr fortíðinni, og ef mann langar að vita meira um einhverja hluti úr sögu Skyrim eru hundruðir bóka dreifðar um heiminn sem hægt er að lesa, allt frá ljóðabókum og barnaævintýrum upp í annála og konungasögur.

Ef það er eitthvað sem ég þyrfti að segja að væri ekki alveg fullkomið í þessum leik væri það að dýflissurnar eiga það til að vera örlítið einlitar. Í heimi þar sem eru yfir hundrað dýflissur er erfitt að halda því gegn hönnuðum leiksins að þurfa að endurvinna efnið örlítið. Allt í allt er Skyrim frábær leikur sem allir ættu að hafa gaman af, og þess vegna vel ég Skyrim sem besta leik ársins 2011.

 

AXEL BIRGIR: UNCHARTED 3

Fáar leikjaseríur hafa gert mér jafn marga glaða daga og hin stórbrotna Uncharted sería. Ég hef aldrei fundið fyrir jafn miklu adrenalínkick-i eins og þegar ég spila hinar fjölmörgu hasarsenur leikjanna sem myndu fá stærstu hasarleikstjóra Hollywood til að svitna af öfund.

Við seinni spilun leiksins var mér ljóst hversu skemmtilega fjölbreytt spilunin var og að frásögn leiksins tekst mun betur að vefja sálgreiningu persónanna og söguþræðinum beint í spilunina sjálfa – síðast þegar spilunin tengdist leik svona vel í minni minningu var þegar ég spilaði Silent Hill 2 og niðurstaðan er álíka áhrifarík og fullnægjandi. Alveg einstakt hvernig persónukvikun og hreyfingar eru notaðar til að segja okkur heilmikið um far og persónuleika fólksins í leiknum.

Baksögur eftirlætis persóna okkar, þeirra Nates og Sully, varpa nýju ljósi á þá og kynnumst við persónuleika Nathan Drakes enn dýpra í gegnum spilunina. Það hvernig hann tjáir sig um umheiminn (líkamlega og með frábærri framistöðu leikarans Nolan Norths). Söguþráðurinn, samskipti persónanna, og einlæg sögulok leiksins eru öll frammúrskarandi, mjög klók og bráðfyndin. Sviðsetningin, staðirnir og leikmyndirnar eru stórbrotnar og tekst að blása miklu lífi í leik sem er nú þegar stórkostlega líflegur og meðvitaður um takmörk sín og PS3 leikjavélarinnar (enn og aftur tekst seríunni að hækka væntingar til getu Sony-vélarinnar).

Þó að við endurtökum atriði úr fyrri leikjunum um ævintýri Nates, fáum við einnig stórkostlega frábrugðin atriði sem gerðu mér grein fyrir því hversu mikið listform stórleikir gætu orðið ef fleiri myndu sýna jafn miklar hreðjar og hugsun og Uncharted 3. Þegar Nate ráfar heillengi um eyðimörkina og heyrir nokkur innskot úr ljóðinu Eyðilandið eftir T.S. Eliot á vel úthugsuðum staðsetningum. Atriðinu tekst einnig að auka tengingu okkar við besta vin Nates enn frekar og byggja upp magnaða fléttu leiksins.

Hápunktarnir eru svakalegir: stórtækur bardagi um borð í hrapandi flugvél, sökkvandi stórskip, sérkennilegar myrkraverur vafrandi um löngu gleymda stórborg og eltingarleikur í anda The Last Crusade við fortíðardrauga Nates. Slagsmálin eru vandaðari, átakanlegri og spila mun stærra hutverk í spilun leiksins; skotbardagarnir eru harðsoðnari og fjölbreyttari; og óvinirnir hrottalegri og minnisstæðri en í fyrri leikjunum.

Uncharted 3 tekst að skara fram úr sem tölvuleik og tekst ekki einungis að flytja mann í annan heim, heldur fer leikurinn bókstaflega með mann í langt og ógleymanlegt ferðalag sem er kröftug og víðtæk lífsreynsla.

Uncharted 3 tekst að skara fram úr sem tölvuleik og tekst ekki einungis að flytja mann í annan heim, heldur fer leikurinn bókstaflega með mann í langt og ógleymanlegt ferðalag sem er kröftug og víðtæk lífsreynsla.

PS: ég hef ekki einu sinni prófað fjölspilunina- einspilunin var einfaldlega það góð!

 

STEINAR LOGI: DARK SOULS

Á meðan aðrir leikir bjóða þér sæti á góðum veitingastað fer Dark Souls með þig í fallegt en drungalegt eldhús, lætur þig fá öll hráefnin ásamt dularfullum leiðbeiningum og skilur þig eftir einan. Annað hvort gefstu upp eða þú nærð að búa til glæsilega þríréttaða máltíð sem þú ert stoltur af.

Það er enginn hlutverkaleikur eins og Dark Souls á markaðinum í dag, hann er erfiður en ekki ósanngjarn, við hvern dauða lærir maður eitthvað nýtt. Spilarinn þarf að vera varkár og hafa auga fyrir taktík. Sem dæmi þá er ekki hægt að vista leikinn og endurhlaða þegar maður vill, hann vistast sjálfkrafa mjög reglulega. Á meðan aðrir leikir keppast við að verðlauna þig með reglulega millibili og stundum er það þannig að leikurinn hreinlega rúllar áfram með lágmarks takkahnoði, þá fer Dark Souls algerlega í andstæða átt og tekur mið af spilun eins og hún var í árdögum tölvuleikja. Mitt álit er að svona eiga hlutverkaleikir að vera, þeir eiga að vera krefjandi.

Á meðan aðrir leikir keppast við að verðlauna þig með reglulega millibili og stundum er það þannig að leikurinn hreinlega rúllar áfram með lágmarks takkahnoði, þá fer Dark Souls algerlega í andstæða átt og tekur mið af spilun eins og hún var í árdögum tölvuleikja. Mitt álit er að svona eiga hlutverkaleikir að vera, þeir eiga að vera krefjandi.

Semsagt, leikurinn er ekki fyrir alla og þrátt fyrir að ég sé einn helsti stuðningmaður hans þá er þetta leikur sem krefst einbeitingar og verandi fjölskyldumaður var ekki alltaf hægt að grípa í hann. Þegar það var hægt var þetta besti leikur ársins 2011 fyrir mig og leikur sem ég mun grípa í af og til í framtíðinni þrátt fyrir að hafa klárað hann einu sinni.

Aðrir toppleikir hjá mér þetta ár eru (nokkurn veginn í þessari röð): Skyrim, NBA2K12, Batman: Arkham City, Bastion, Dead Space 2. Eftirtalda fjóra leiki prófaði ég ekki en hefðu hugsanlega lent ofarlega hjá mér: Portal 2, Saint’s Row the Third, Uncharted 3 og Gears of War 3. Miðað við smekk þá hefðu það helst verið Saint’s Row og Uncharted 3 sem hefðu haft séns á að komast á listann.

 

ARNAR VILHJÁLMUR: SKYRIM

Þegar árið 2011 rann í garð setti ég mér það að markmiði að reyna að klára mestmegnið af þeim leikjum sem ég átti, áður en ég myndi kaupa fleiri nýja leiki. Það reyndist ganga töluvert hægar en ég hafði áætlað mér í fyrstu, og endaði með því að ég spilaði mjög lítið af þeim leikjum sem komu út árið 2011. Þar af leiðandi tel ég mig ekki beinlínis hæfann til að segja til um hvaða leikur sem kom út á síðasta ári er bestur að mínu mati, en þess í stað ætla ég að greina hvaða leikur, úr þessu takmarkaða úrvali leikja sem ég spilaði, mér þótti skara fram úr. Þess má þó geta að meðal þeirra leikja sem ég hef enn ekki spilað en tel að hefðu alveg átt tilkall til nafnbótarinnar eru Portal 2, L.A. Noire, Saints Row the Third og Uncharted 3. En ég vil þó einnig taka fram að það er ekkert víst að þeir hefðu unnið því leikur ársins hjá mér er leikur sem ég held að hefði hvort eð er étið í sig flesta keppinautana.

Að því sögðu er leikur ársins 2011 að mínu mati The Elder Scrolls V: Skyrim. Ég skrifaði langa gagnrýni um leikinn stuttu eftir útgáfu hans, núna rétt fyrir jól og ef það hefði ekki verið fyrir lokapróf og jólastúss hefði ég ábyggilega verið búinn að klára eins mikið og hægt er að klára í honum um þessar mundir. Þess í stað datt ég dálítið út úr leiknum og átti erfitt með að fá mig til að halda áfram með hann, en þetta á það til að gerast með mig og tölvuleiki ef ég hætti að spila þá í dálítinn tíma. Hinsvegar ákvað ég fyrir stuttu að reyna aftur á hann og hélt spiluninni áfram á nýjan leik.

Skyrim býður upp á risastórann og flottann heim til að kanna og hreint út sagt ótalmarga möguleika á hlutum til að gera. Persónusköpunin, heimurinn, tónlistin og hreinlega allt saman við þennan leik verður að teljast með einu og öllu dálæti.

Skyrim býður upp á risastórann og flottann heim til að kanna og hreint út sagt ótalmarga möguleika á hlutum til að gera. Persónusköpunin, heimurinn, tónlistin og hreinlega allt saman við þennan leik verður að teljast með einu og öllu dálæti. Leikurinn hefur þó auðvitað sína ókosti, og eftir að hafa lagt meiri tíma í hann verð ég að játa að eftir á að hyggja þykir mér Oblivion ennþá besti Elder Scrolls leikurinn hingað til. Það er í raun mjög ósanngjörn samlíking því Oblivion hefur verið síðan hann kom út, einn af mínu uppáhalds- og mest spiluðu leikjum og kæmist á topplista hjá mér hvaða dag sem er. Skyrim er hinsvegar ekki langt á eftir honum, en með öðrum orðum naut ég hans til hins ýtrasta og get hæglega mælt með honum fyrir flestan tölvuleikjaunnandann.

Deila efni

Tögg: , , , , , , , , , , , ,


Upplýsingar um höfund:

Birt af ritstjórn



Skildu eftir svar

Efst upp ↑