Leikjarýni

Birt þann 15. ágúst, 2011 | Höfundur: Nörd Norðursins

1

Leikjarýni: Portal 2

eftir Bjarka Þór Jónsson

Árið 2007 kom þrautaleikurinn Portal út og náði miklum vinsældum. Nú, fjórum árum síðar, hefur leikjafyrirtækið Valve (Half-Life, Portal, Left 4 Dead) gefið út framhald af leiknum  – Portal 2 – sem byrjar þar sem fyrri leikurinn endaði.

 


Söguþráður

Í leiknum er haldið áfram með söguna úr fyrri leiknum þar sem þrautir hafa verið hannaðar í tilraunarskyni af tilrauna- og rannsóknarstofunni Aperture Science í þeim tilgangi að rannsaka leiðir og möguleika á þrautalausnum og tækninýjungum. Fyrri Portal leiknum lauk með eyðileggingu á GLaDOS, sem var kaldhæðin og stórhættuleg tölva gædd gervigreind og með einstakan persónuleika. Snemma í Portal 2 kemur í ljós að GLaDOS er í raun enn á lífi og getur ekki beðið eftir því að leggja fleiri þrautir fyrir Chell, aðalpersónu leiksins.

Chell kemst í kynni við persónuleikakúluna Wheatley og í sameiningu reyna þau að losna úr klóm GLaDOS, sem leggur fleiri, erfiðari og hættulegri þrautir fyrir Chell.

Persónur

Spilarinn stjórnar Chell, aðalpersónu leiksins, sem er tilraunadýr hjá Aperture Schience. Líkt og í fyrri leiknum segir Chell ekki stakt orð í Portal 2 og fær spilarinn lítið að sjá persónuna sjálfa ( – hún er þessi sterka þögla týpa). Þar af leiðandi kynnist spilarinn persónunni lítið og veit jafn lítið um hana í lok og byrjun leiks. Af og til gleymir spilarinn að hann sé að stjórna Chell en ekki sjálfum sér, þar sem Chell virkar í raun eins og milligönguliður spilarans og þrautaheimsins í Portal 2.

Tölvukerfið GLaDOS (Genetic Lifeform and Disk Operating System) er sjálfri sér lík og ælir uppsafnaðri kaldhæðni yfir spilarann og heldur áfram með morðtilraunir sínar. GLaDOS sést ekki mikið í leiknum til að byrja með en hún talar reglulega við Chell í gegnum hátalarakerfi Aperture Science. Þeir spilarar sem ekki þekkja til GLaDOS eiga eftir að njóta þess að kynnast henni. Hún sýnir og sannar að hægt er að byggja snilldarlega sögupersónu á persónuleikanum einum og sér. Ef þú elskar kaldhæðni og húmor (og grimmd!), þá er GLaDOS þín draumadís.
Í upphafi kemst Chell í kynni við persónuleika-kúluna Wheatley. Grínistinn Stephen Merchant ljáir kúlunni rödd sína en Stephen er best þekktur fyrir að vera einn af handritshöfundum sjónvarpþáttanna The Office, The Ricky Gervais Show og Extras. Wheatley minnir óneitanlega á samstarfsfélaga Stephens, breska grínistan Ricky Gervais, allt frá því hvernig hann beitir röddinni yfir í sjálfan húmorinn. Útlitið minnir þó ekki á Ricky, en Wheatley er persónuleikakúla sem er vélkúla án búks.

Spilarinn fær einnig að kynnast Cave Johnson, stofnanda Aperture Science, í gegnum hljóðkerfi tilraunastofanna. J. K. Simmons (Law & Order, The Closer og Oz) talar inn fyrir Cave sem setur vísindin fremst á oddinn.

Talsetning og handrit leiksins er mjög vel heppnuð. Þrátt fyrir að heyra einungis raddir leikjapersónanna meirihlutann af leiknum, fær spilarinn aldrei leið á persónunum og þær hvetja hann til að halda áfram með leikinn til þess að komast að því hvað þær segja næst.

Í samspilunarmöguleika (e. co-op) leiksins fara spilarar í hlutverk vélmennanna Atlas og P-body. Atlas er lágvaxin og feitlagin persónuleikakúla og P-body er langur og mjór byssuturn (e. turret) og hefur verið bætt hand- og fótleggjum við vélmenninn, auk þess eru þau bæði vopnuð „portal byssu“. Útlit þeirra og hegðum minnir gjarnan á grínteymið Laurel og Hardy.

Spilun og þrautalausnir

Spilun leiksins er nákvæmlega eins og í fyrri Portal leiknum. Spilarinn getur gengið um, hoppað, lyft upp og skriðið undir hluti og skotið úr byssunni sinni. Hvert borð er ein þraut sem getur verið allt frá afar einfaldri þraut sem aðeins tekur nokkrar sekúndur að leysa og yfir í erfiðar þrautir sem tekur þar af leiðandi lengri tíma að leysa.

Allar þrautirnar ganga út á það sama – að komast frá punkti A yfir á punkt B. Þegar Chell getur ekki gengið á milli staða notar hún byssuna til að komast áleiðis. „Portal byssan“ virkar þannig að skotið er tveimur geislum sem mynda hlið (e. portal) á sitthvorn staðinn, þannig er hægt að gangi inn í annað hliðið og koma út um hitt. Hægt er að nota hliðin á marga vegu, t.d. ef spilarinn gerir eitt hlið í gólfið og annað beint fyrir ofan það að þá verður til endalaust fall þar sem Chell birtist í loftinu um leið og hún fellur ofan í holuna og hrapar, og hrapar, og hrapar, og hrapar. Og hrapar. Eða þar til spilarinn ákveður að færa Chell eða gera nýtt hlið.

Til að byrja með eru leiðirnar frá A til B frekar einfaldar en verða erfiðari og erfiðari því lengur sem líður á leikinn. Oft þarf að sækja kassa og koma þeim fyrir á réttum stað svo að hurð opnist sem leiðir spilarann áfram í næstu þraut. Stundum þarf að beina leysigeisla á réttan staði eða koma í veg fyrir að hann beinist á ákveðin stað.

Í Portal 2 eru nýjar leiðir frá fyrri leiknum til að leysa sumar þrautir. Til dæmis þarf stundum að nota gel til að komast áfram í leiknum. Alls eru geltegundirnar þrjár, blátt gel sem breytir yfirborðinu í stökkpall, appelsínugult gel sem eykur hraða og hvítt gel sem breytir hvaða yfirborði sem er svo það verði „portal-hæft“. Auk þessara geltegunda þarf spilarinn stundum að nota brýr, varnir og göng til að komast áleiðis.

Það er afar misjafn hvað spilarar eru fljótir að klára aðalsögu Portal 2 þar sem það fer algjörlega eftir því hversu langan tíma það tekur viðkomandi að leysa þrautirnar. Virðist það taka flesta á bilinu sex til tíu klukkutíma að klára söguþráð leiksins, ég var u.þ.b. sjö tíma að því. En auk þess er sérstakur samvinnukafli (e. co-op) sem tekur u.þ.b. Sex klukkutíma að klára og annar kafli þar sem leikjahöfundar og hönnuðir segja frá gerð leiksins og þarf spilarinn að leysa þrautir til að vinna sér inn upplýsingarnar frá þeim.

Samvinna

Fyrri Portal leikurinn var eins manns leikur, en í þetta skipti er boðið upp á samvinnuspilun (e. co-op) þar sem tveir spilarar þurfa að leysa þrautir saman sem vélmenninn Atlas og P-body. Spilararnir tveir geta spilað í gegnum sömu tölvuna í deiliskjá (e. splitscreen) eða á sitthvorri tölvunni í gegnum netið.

Samvinnuspilunin er mjög skemmtileg og reynir á samhæfni og þolinmæði. Þrautirnar eru þannig gerðar að það er ómögulegt að leysa þær einn – það þarf tvo til. Oft þarf spilari eitt að fara aðra leið en spilari tvö, sem gerir leikinn enn frumlegri og skemmtilegri.

Þar sem að Portal 2 er þrautaleikur er mun auðveldara að plata aðra til að spila með sér. Þeir sem njóta þess að fá kláða í heilann eiga að gefa þessum leik séns, sama hvort viðkomandi spilar tölvuleiki reglulega eða ekki. Þetta er leikur fyrir þá sem hrífast að skák, sudako, krossgátum, já! – og auðvitað tölvuleikjum! Í Portal 2 hefuru nægan tíma til að hugsa og prófa þig áfram í þrautum leiksins.

Tónlist og hljóð

Hljóðið í Portal 2 er mjög vel gert og fær spilarann til að lifa sig meira inn í leikinn. Þó fáir tali inn á leikinn er talsetningin hreint út sagt framúrskarandi.

Það er engin áberandi tónlist í Portal 2, en þegar hún er notuð að þá virkar hún vel, t.d. til að ýta undir dramatíska hluta leiksins. En í stórum hluta leiksins eru það fyrst og fremst umhverfishljóðin sem spilarinn verður var við.

Í stuttu máli…

Miklar væntingar og kröfur voru gerðar til Portal 2. Fyrri leikurinn varð afar vinsæll, en var þó ekki fyrir hvern sem er. Portal leikirnir henta þeim sem hafa áhuga á því að leysa þrautir – og vinna á þolinmæðinni. Þrautirnar eru svo kryddaðar með góðri sögu, framúrskarandi persónusköpun og talsetningu og húmor svo hellt yfir allt saman. Þessi leikur er fullorðins.

Ég verð að viðurkenna að þegar ég spilaði Portal sprakk heilinn minn nánast. „Ha? Á ég að gera „portal“ þarna og annað „portal“ þarna til að hoppa á sjálfan mig svo kassinn detti hinu meginn?“ Þessi leikur stækkaði heilann minn um heilt númer. Á sama tíma og ég lærði á möguleikana sem Portal hafði upp á að bjóða var ég við það að grýta fjarstýringunni í sjónvarpið ef ég fann ekki þrautalausnina eftir margar tímafrekar tilraunir. En þegar maður náði svo að leysa þrautina… Ó! hve sætt það var!

Þessa tilfinningu upplifði ég lítið sem ekkert í Portal 2. Ég veit ekki hvort það tengist því að ég spilaði Portal það mikið að maður sé mun fljótari en áður en leysa þrautirnar, eða hvort fyrri Portal leikurinn hafi hreinlega gert mig að klárari spilara, en þar sem að fáar þrautir reyndu virkilega á að þá var ekkert of algengt að fá sykursæta sigurtilfinningu í kroppinn.

Engu að síður! Þá er þetta frábær leikur. Það er allt önnur hugsun á bak við það að skrifa, hanna og spila þrautaleik en hefðbundnari tölvuleiki á borð við fyrstu persónu skotleiki eða ævintýraleiki. Þrátt fyrir styttri endingu en margir aðrir tölvuleikir sem kosta í kringum 10.000 kr. út í búð að þá skilur þessi leikur meira eftir sig og reynir meira á hugsun en margir aðrir leikir. Það eru litlar líkur á því að maður nenni að fara í gegnum þrautaleik aftur sem maður man lausnirnar við, og þess vegna má segja að leikurinn endist ekki í nema u.þ.b. 15 til 20 klst.

Grafík leiksins skiptir ekki mjög miklu máli, en hún lítur eins vel út og hún getur fyrir þrautaleik á borð við Portal 2. Ég hefði viljað hafa leikinn örlítið lengri og erfiðari, en samt ekki mikið. Nú er bara að bíða eftir aukapökkunum!

 

Grafík: 8,5
Hljóð: 9,5
Saga: 9,0
Spilun: 9,5
Ending: 7,5

Samtals: 8,8

Deila efni

Tögg: , , , , , , , ,


Upplýsingar um höfund:

Birt af ritstjórn



One Response to Leikjarýni: Portal 2

  1. Pingback: BAFTA Video Games Awards 2012 | Nörd Norðursins

Skildu eftir svar

Efst upp ↑