Bíó og TV

Birt þann 17. febrúar, 2012 | Höfundur: Nörd Norðursins

0

Kvikmyndarýni: Project Nim

Project Nim er bresk heimildarmynd frá árinu 2011 sem fjallar um simpansann Nim Chimpsky sem var tekinn ungur frá móður sinni og alinn upp af mennskri fjölskyldu á sjöunda áratugnum í tilraunaskyni.

Tilgangurinn með þessari tilraun var að kanna færni simpansa í mennsku umhverfi og hvort þeir gætu lært táknmál til að tjá sig. Nim var alinn upp af  vinalegri og og vægast sagt frjálslegri fjölskyldu , mamman var meðal annars með hann á brjósti – mjög hippalegt. Herbert S. Terrace hjá Columbia University var með yfirumsjón yfir verkefninu og heimsótti Nim af og til á meðan hann óx úr grasi. Hann var þó ekki yfir sig ánægður með hvernig fyrirkomulaginu var háttað hjá fjölskyldunni og ákvað að taka Nim síðar til sín til að stjórna hvað og hvernig Nim lærði. Í framhaldinu fær áhorfandinn að fylgjast með þróun verkefnisins og uppvexti og framtíð simpansans.

Þó að myndin beri sama titil og verkefnið sjálft – Project Nim – og fjalli að stórum hluta um sjálft verkefnið, þá fjallar myndin einnig að miklu leiti um þroskasögu og örlög Nims.

Þó að myndin beri sama titil og verkefnið sjálft – Project Nim – og fjalli að stórum hluta um sjálft verkefnið, þá fjallar myndin einnig að miklu leiti um þroskasögu og örlög Nims. Í myndinni er rætt við persónur sem hafa náð að tengjast Nim þar sem þær segja frá sinni reynslu á samskiptum við simpansann, sem varð að stórstjörnu á stuttum tíma, en gleymdist á enn styttri tíma. Við heyrum meðal annars í þeim sem tóku þátt í verkefninu, ólu Nim upp og öðrum sem kynntust simpansanum eftir að verkefninu lauk.

Á köflum er kastljósinu beint að mannvonsku og eigingirni mannsins, og ótrúlegt og skömmustulegt að sjá hvað enginn hugsaði út í hvað myndi taka við hjá Nim að verkefninu loknu. Saga Hollywood stórmyndarinnar Rise of the Planet of the Apes var mér framarlega í huga á meðan ég horfði á þessa mynd.
Það er oft stutt á milli hláturs og gráturs en á heildina litið skilur hún áhorfandann eftir sorgmæddan og reiðan. Myndin nær góðu flæði og blandar vel saman nýlegum viðtölum og eldri myndbrotum í heimildarmyndinni. Viðtölin eru afskaplega einlæg og í lokin nær áhorfandinn að mynda sér sterkar skoðanir um flestar persónur sem þekktu Nim.

Project Nim á eftir að fanga þig. Í myndinni færðu að fylgjast með vísindalegu verkefni sem er vægast sagt áhugavert, en auk þess færðu að fylgjast með dramatískri og ótrúlegri sögu af saklausum simpansa sem er einn daginn besti vinur vísindamannsins en þann næsta fórnarlamb mannvonskunnar.

Myndin hefur unnið fjölda verðlauna, meðal annars hjá Boston Society of Film Critics Awards, Chicago Film Critics Association Awards og Sundance Film Festival. Auk þess hefur hún hlotið fjölda tilnefninga, meðal annars sem besta heimildarmyndin á BAFTA verðlaunahátíðinni sem fór fram fyrr í þessum mánuði.

Bjarki Þór Jónsson

Deila efni

Tögg: , , ,


Upplýsingar um höfund:

Birt af ritstjórn



Skildu eftir svar

Efst upp ↑