Leikjarýni

Birt þann 24. júlí, 2011 | Höfundur: Nörd Norðursins

0

Leikjarýni: PewPewPewPewPewPewPewPewPew

eftir Bjarka Þór Jónsson

PewPewPewPewPewPewPewPewPew er tveggja manna tölvuleikur sem nýlega var gefinn út af óháða tölvuleikjafyrirtækinu Incredible Ape þar sem eru einungis tveir starfsmenn; annar sér um forritun og hinn  um útlitið. Í leiknum stjórna spilararnir manni í geimbúningi gæddum þotubagga (e. jetpack) og geislabyssu. Maðurinn færist sjálfkrafa frá vinstri til hægri í gegnum leikinn og þurfa spilarar að nota þotubaggan og byssuna til að forðast hindranir og eyða óvinum sem á vegi hans verða.

Það er ekki einungis titill leiksins sem vekur áhuga og forvitni, heldur einnig stjórnun hans. Spilarar nota hvorn sinn hljóðnemann í stað hefðbundinna stjórntækja. Annar spilarinn stjórnar þotubagganum með því að gefa frá sér þotubaggaleg-hljóð (hvernig svo sem þau eru!) og hinn spilarinn sér um að skjóta úr byssunni með því að segja „PEW!“ í hljóðnemann. Í rauninni er hægt að leika sér mikið með hljóðin og er hugmyndin hreint út sagt frábær.

Helsti galli leiksins eru hljóðtöfin í honum. Það líður u.þ.b. ein sekúnda frá því að hljóðið er myndað þar til leikurinn svarar hljóðinu – þetta getur gert spilunina erfiða þar sem snögg viðbrögð spilarans bjarga honum sjaldan frá dauða í leiknum. Það hefði einnig verið gaman að sjá mismunandi kraft koma úr þotubagganum eftir því hversu hátt eða lágt hljóð spilarinn gefur frá sér, en bagginn er einungis með tvær stillingar; annað hvort er slökkt á honum eða kveikt.
PPPPPPPPP hefur verið fáanlegur í gegnum netverslun Xbox Live (XBLM) frá því í byrjun apríl og kostar litla 240 Microsoft punkta, eða í kringum 350 kr. Hljóðnemar sem virka í Xbox 360 eiga að virka í leiknum – sama hvort um er að ræða hljóðnema úr karíókíleiknum Lips eða hefðbundin heyrnatól með hljóðnema sem fylgir mörgum Xbox 360 tölvum.

Leikurinn er mjög skemmtilegur tveggja manna leikur og mjög skemmtilegur í spilun, sama hvort það sé á þriðjudagskvöldi með fjölskyldunni eða í helgarpartíi með vinunum.

Deila efni

Tögg: , , , , , ,


Upplýsingar um höfund:

Birt af ritstjórnSkildu eftir svar

Efst upp ↑