Birt þann 15. ágúst, 2011 | Höfundur: Nörd Norðursins
0Leikjarýni: Mortal Kombat
– eftir Daníel Pál Jóhannsson
Árið 1992 gaf framleiðandinn Midway út tölvuleik sem hét því frumlega nafni Mortal Kombat. Leikurinn var gefinn út á spilakössum sem svar Midway við leiknum Street Fighter II frá Capcom. Vinsældir Mortal Kombat komu varla á óvart því þarna var kominn þvílíkur bardagaleikur með góðan söguþráð og gott bardagakerfi.
Ári síðar hófu Midway að gefa út Mortal Kombat á leikjatölvur til að auka markaðshlutfall sitt. Þeir gáfu Mortal Kombat leikinn út fyrir Sega Mega Drive/Sega Genesis árið 1993 en þar sem það voru miklar hömlur á hvað innihald tölvuleikja á þessari vél mátti vera, þurftu Midway að breyta leiknum til að taka ofbeldisfyllstu möguleikana úr leiknum. Þeir komust framhjá því, upp að vissu marki með því að hafa leynikóða í leiknum, ef að kóðinn var sleginn inn var ritskoðunin tekin út og spila mátti leikinn í allri sinni fullri, blóðugri gleði. Því má segja að boltinn hafi byrjað að rúlla fyrir Mortal Kombat sögunni árið 1992.
Nýjasti Mortal Kombat leikurinn kom út 19.apríl í Bandaríkjunum en 21.apríl í Evrópu og er þetta níundi leikurinn sem ber nafnið (fyrir utan fjölda viðbóta). Leikurinn var í þetta skiptið framleiddur af NetherRealm Studios, áður þekkt sem Midway Games Chicago, árið 2009 fór Midway Games í gjaldþrot, en þeir framleiddu fyrri Mortal Kombat leikina. Eftir gjaldþrot Midway Games eignaðist Warner Bros. Mortal Kombat vörumerkið. Ekki þarf að örvænta þar sem reynsluboltarnir Ed Boon og John Tobias koma að verkinu, en þeir eru skaparar Mortal Kombat. Nýjasti leikurinn er gefinn út fyrir Xbox 360 og PlayStation 3 en ýjað hefur verið að PC útgáfu en það hefur ekki verið staðfest.
Sagan
Söguþráðurinn í leiknum byggist á því að Shao Kahn hefur náð takmarki sínu og náð völdum yfir jarðarríki. Í bardaga milli Shao Kahn og Raiden, þrumuguð sem er verndari jarðarríkis, nær Raiden að senda skilaboð í fortíðina til sjálfs síns. Raiden í fortíðinni fær stuttar sýnir sem leiðbeina honum hverju þarf að breyta í fortíðinni til að laga framtíðina, en oft getur verið erfitt að ráða í sýnirnar. Með þessu spilar spilarinn í gegnum söguna í fyrstu þremur Mortal Kombat leikjunum en með mismunandi endalokum.
Bardagamenn
Í leiknum eru 27 spilanlegir bardagamenn fyrir Xbox 360 en 28 fyrir PlayStation 3, þar sem PlayStation 3 eigendur fá þann glaðning að geta spilað Kratos, aðalsöguhetjuna úr leikjunum God of War.
Hver og einn bardagamaður hefur sinn bardagastíl, styrkleika og veikleika. Hvort sem hann sé hraður en slær létt högg eða hægur en slær þung högg. Í leiknum eru þrír endakallar sem ekki er hægt að spila sjálfur. Suma bardagamenn hefur spilarinn ekki aðgang að í byrjun leiksins heldur þarf að uppfylla ákveðin skilyrði til að fá að njóta þess að spila alla flóruna af bardagamönnum sem hægt er að velja úr.
Runur (Combos), Brögð (Special Moves) og Fatalities
Hver bardagamaður hefur sinn fjölda af runum högga sem hægt er að framkvæma. Auðvelt er að komast að þeim skipunum sem þarf til að framkvæma runurnar en með því að læra þessar runur er spilarinn að margfalda möguleika sína á að jarða andstæðinginn í bardaga. Hægt er að segja að runurnar séu grundvallaratriði leiksins og eitthvað sem hver spilari ætti að ná fullkomnum tökum á.
Hver bardagamaður hefur líka sitt sett af Brögðum sem oft geta skipt sköpum í bardaga. Þau eru framkvæmd með því að ýta á runu af tökkum, svo sem niður-áfram-sparka, og þau eru flest mismunandi. Sum skjóta eldhnöttum þvert yfir borðið eða grípa andstæðing og henda honum í jörðina eftir að nokkur högg með olnboga hafa verið gefin í andlitið á andstæðingum, og allt þar á milli. Eins og við má búast í Mortal Kombat leik þá eru Fatalities til staðar. Hver bardagamaður er með tvö einstök Fatality en ekki skal framkvæma þau nema að þú sért með harða sál, því þau eru ofbeldisfullustu endabrögð sem sést hafa í Mortal Kombat seríunni. Til dæmis má nefna það að fjöldi endabragða innihalda limlestingar með tilheyrandi blóðsúrhellingum og er búkur jafnvel tekinn í tvennt þegar limlesting hefur verið framkvæmd. Í sjö borðum er hægt að framkvæma Fatality sem tengjast umhverfi borðsins. Í þeim getur endabragðið verið að kýla andstæðing af brú svo hann falli niður tugi metra á gadda eða henda honum út í sýrupytt þar sem húð hans bráðnar.
Orkumælir (Special Bar)
Spilarinn er með orkumæli sem fyllist með nokkrum aðferðum. Það bætist í mælinn ef spilarinn er barinn, spilarinn slær höggum á andstæðinginn sem ver sig eða með því að nota Brögð með þeim bardagamanni sem verið er að spila með. Orkumælirinn skiptist í þrjú stig. Þegar fyrsta stigið er fullt er hægt að nota það til að efla Bragðið sem á að framkvæma. Þegar mælirinn er kominn með tvö stig getur spilarinn sleppt úr Runu sem er verið að framkvæma á hann. Þegar mælirinn er fullur er hægt að framkvæma X-Ray árás sem er algjör nýjung í bardagaleikjum. Ef spilaranum tekst að framkvæma X-Ray árás þá fær hann að upplifa það að sjá hversu mikinn skaða bardagamaður hans getur gert, en þar sést hvernig bein brotna og líffæri skaddast. Þessar árásir eru með þeim öflugustu í leiknum og geta algjörlega snúið við gangi bardaga.
Borðin
Borðin sem bardagarnir fara fram í eru ófá, en það eru 24 stykki fyrir Xbox 360, en 25 stykki fyrir PlayStation 3 þar sem eitt borðið er sérhannað fyrir Kratos og hefur God of War yfirbragð. Mikið er lagt í borðin og oft mikið að gerast í bakgrunninum, sem hefur ekki áhrif á bardagann en er skemmtilegt augnakonfekt. Borðin í nýja Mortal Kombat leiknum eru í tvívídd, þannig að spilarinn eða andstæðingurinn hefur ekki möguleika á að rölta í hringi. Heldur er bardagavöllurinn þannig að hægt er að fara til hægri eða vinstri og auðvitað hoppa upp í loftið. Þarna er verið að sækja í rætur Mortal Kombat leikjanna en undanfarið hafa sumir bardagaleikir, ásamt fyrri Mortal Kombat leikjum, innihaldið möguleikann á að labba í hringi á vellinum.
Einspilun
Í einspilunarhluta leiksins hefur spilarinn fjölda valmöguleika. Spilarinn getur valið að fara í gegnum kennslu, þar sem hann lærir helstu hreyfingar og hvernig skal berjast í leiknum. Mjög sniðugt bæði fyrir nýgræðinga og lengra komna að dusta aðeins rykið af þumlunum og læra hvernig bardagakerfið í leiknum virkar. Spilarinn getur líka valið að keppa í stuttu móti, sem inniheldur fjölda andstæðinga, tvo undir-endakalla og einn loka-endakall. Í lok hvers móts kemur stutt sena um þann leikmann sem spilarinn notaði til að vinna mótið, þarna er ýtt undir það að klára þessi mót með sem flestum, ef ekki öllum, bardagamönnum sem spilarinn hefur möguleika á að velja. Í einspilunni er auðvitað hægt að velja að spila sögu leiksins en þar fær spilari ekki að velja hvaða bardagamann hann notar í gegnum söguþráðinn, heldur skiptist um bardagamann eftir því hvar spilarinn er staddur í söguþræðinum. Líka er hægt að velja að æfa sig á þeim bardagamanni sem spilarinn vill og hægt er að velja hvað hann vill æfa, svosem Runur, Brögð eða Fatality.
Í einspilun getur spilarinn líka valið að spila Challenge Tower sem er turn með 300 hæðum. Á hverri hæð er áskorun sem spilarinn þarf að klára til að komast upp á næstu hæð. Áskoranirnar geta verið þannig að spilarinn þarf að sigra andstæðing, skjóta skotum á her andstæðinga, hamra á takka til að ná nógu miklum styrk til að brjóta múrsteina, keppa við andstæðing sem er sterkari en venjulega eða jafnvel að berjast við andstæðing sem er að reyna að gefa þér bangsa.
Fjölspilun
Hér er auðvitað hægt að spila einn á móti einum í bardaga. Einnig er núna möguleiki á að hver spilari velji sér tvo bardagamenn en leikurinn býður upp á það að skipta þeim út í miðjum bardaga og jafnvel að tengja saman Runur þeirra. Þar sem í þessum valmöguleika er hægt að hafa fjóra bardagamenn þá ákveðið að bjóða upp á að hafa fjóra spilara, þannig að hver og einn stýrir sínum bardagamanni og þegar honum er skipt inn á völlinn getur hann barist við andstæðing þangað til að hann skiptir sér út fyrir meðspilara. Síðan er skemmtilegur spilanamöguleiki sem Konungur Hólsins, en þar er búið til svokallað herbergi með allt að átta spilurum. Tveir af spilurunum berjast á meðan hinir bíða eftir sínum tíma til að komast í bardaga. Sigurvegarinn fær að halda áfram að berjast á meðan sá sem tapar er settur aftastur í röðina af spilurum. Þeir sem eru að bíða sjá bardagann sem er í gangi og geta bæði veðjað á útkomuna og/eða gefið þeim leikmanni sem vann bardagann einkunnagjöf.
Gagnrýni
Nýjasti Mortal Kombat leikurinn er einn skemmtilegasti og ofbeldisfullasti leikur sem ég hef gripið í lengi. Góður fjöldi af bardagamönnum til að velja úr og flestir stórskemmtilegir í spilun. Þetta er einn af þessum leikjum sem auðvelt er að læra á en erfitt að verða meistari í. Með möguleikann á að þjálfa sig með þeim bardagamönnum sem maður hefur áhuga á að fullkomna þá er ekkert sem getur stoppað mann. Grafíkin í leiknum er unaðsleg, mætti jafnvel segja að hún sé eins og einhyrningur að njóta ásta með augum manns. Grafíkin er ekki of lík raunveruleikanum og ekki heldur of teiknimyndaleg. Heldur passar hún nákvæmlega bardagaleik sem þessum. Nóg er blóðið og skemmtilegt að sjá þann sem maður er að spila og andstæðingana fá sár og verða útataða í blóði eftir því sem líður á bardagann. Það gefur af sér að spilarinn átti sig á því að bardagamaðurinn er að verða fyrir höggum og það hefur áhrif á þrautsegju í keppni. Þegar bardagar eru tæpir hikar hjartað í manni ekki við að annað hvort sleppa nokkrum slögum eða jafnvel að auka þau allsvakalega þannig að adrenalínið rennur um æðarnar meðan verið er að finna allar mögulegar leiðir til að vinna andstæðingin. Þessi spenna magnast þegar verið er að spila við mennskan andstæðing og því mælir undirritaður sterklega með því að spila með vinum eða yfir netið. Það að ná að sigra andstæðing sinn gefur svo mikla vellíðan að spilaranum finnst hann geta sigrað heiminn. Ég mæli sterklega með því að þumlarnir séu í góðu formi því í þessum leik mun reyna á þá sem aldrei fyrr en þú kemst fljótt í æfingu. Sumir kvarta undan sársauka í þumlum, en aðeins meistarar halda áfram og verða guðir í leiknum. Með alla möguleikana sem þessi leikur býður uppá er varla hægt að trúa öðru en að margir verði ástfangnir af leiknum. Söguþráðurinn er eins og í alvöru B-mynd, þannig að ekki búast við neinni snilld þar. Heldur getur hann orðið svolítið sérstakur og hægt er að spá að spilari fái þónokkra kjánahrolla. En við hverju er hægt að búast? Það er söguþráður og þrátt fyrir B-mynda yfirbragði þá er stórskemmtilegt að spila í gegnum söguþráðinn og fá að berjast í sögudrifnum bardögum þar sem oft eru líkurnar á móti spilaranum. Bardagarnir geta verið vel strembnir en til þess er leikurinn gerður. Hljóðin í leiknum eru vel gerð og maður finnur oft til með fórnarlömbunum þegar heyrist í beinum brotna og hljóð eins og verið sé að berja svínsskrokk með hafnarboltakylfu. Tónlistin er vel gerð og gaman að heyra suma gamla slagara sem hafa verið endurunnir.
Þetta er eðal leikur til að spila með vinum og kunningum þegar þeir kíkja í heimsókn og oft sést þeirra innra dýrseðli þegar bardaginn er orðinn tæpur. Varla er hægt að spila leikinn án þess að sitja á brúninni á stólnum vegna spennings. Síðast en ekki síst er æðislegt að sjá blóðsletturnar fljúga í hinar og þessar áttir þegar spilaranum hefur tekist að framkvæma góða árás og slettast á andstæðinginn og sjálfan sig. Svo ef vel tekst og bardaginn er sigraður fær sigurvegarinn það æðislega skemmtilega tækifæri að framkvæma Fatality, og þar skín Mortal Kombat. Það að rífa andstæðinginn í sig eftir vel heppnaðann bardaga er unaður. Tilfinningin að sjá bardagamann spilarans, vægast sagt, misþyrma andstæðningum á því stigi að sálin fær ör er svakaleg. Ég mæli hiklaust með þessu leik, bæði til að kíkja í þótt að þú sért ein/n eða með vinum og félögum. Þótt að þú sért að taka þér korters pásu frá lærdómi eða spila í heila kvöldstund. Þá er það að kíkja í þennan leik algjörlega þess virði.
Grafík: 9.5
Hljóð: 9.0
Saga: 6.5
Spilun: 9.0
Endurspilun: 9.0
Samtals: 8.6