Leikjarýni

Birt þann 23. desember, 2011 | Höfundur: Nörd Norðursins

1

Leikjarýni: The Elder Scrolls V: Skyrim

Árið 1994 gaf tölvuleikjaútgefandinn Bethesda Softworks frá sér tölvuleik að nafni The Elder Scrolls: Arena. Leikurinn átti í fyrstu erfitt uppdráttar því kaupendur gerðu sér ekki grein fyrir gæðum hans þar sem Bethesda hafði upp að þessu verið þekkt sem lítil íþróttaleikjaútgáfa og þótti þetta því frekar óvenjulegt skref, að fara yfir í þessakonar leik. Hægt og rólega fór þó orðrómur að berast út um gæði leiksins og hann byrjaði að fá þá viðurkenningu sem hann átti skilið.  Frá þeim degi hafa verið gefnir út fjórir aðrir leikir í Elder Scrolls seríunni, og vinsældir leikjanna vaxa með hverjum nýjum leik.

Undanfarin þrjú skipti hafa sölur leikjanna farið langt fram úr eftirvæntingum framleiðandanna og Skyrim er þar engin undantekning, en Skyrim seldist í hátt í 7 milljónum eintaka á diskaformi á fyrstu söluvikunni, sem aðeins Modern Warfare 3 hefur tekist að toppa á þessu ári. Þessar sölutölur koma ekki á óvart vegna þess að í hvert sinn sem nýr Elder Scrolls leikur kemur út eru eftirvæntingar aðdáendanna  komnar uppúr öllu valdi, en á einhvern ótrúlegan hátt virðist Bethesda alltaf skila sínu og meira til.

 

Sagan

Skyrim gerist í samnefndum landshluta, sem líkt og forverar hans eru í ríki Tamriels, sem er aðeins eitt af mörgum löndum í heimi Elder Scrolls, þó svo að enn hafi enginn leikjanna átt sér stað fyrir utan það. Leikurinn gerist rúmum 200 árum eftir sögu Oblivion. Tamriel er í uppnámi eftir að ljósálfarnir (High Elves) frá Summerset Isles, sem er risastór eyja í Tamriel, gerðu innrás á Veldið (The Empire) og neyddu keisarann þar til að sættast á erfiða skilmála til þess að bægja tímabundið frá ógn ljósálfanna, sem höfðu þegar tekið undir sig stórann hluta Tamriels. En líkt og gerðist í sögu Oblivion, leið hin sanna keisaraætt undir lok og var það í raun upphaf alls þess sem á eftir fylgdi og mun fylgja, en ætt keisaranna var vel þekkt og hófst hún út frá manni sem hét Ysmir, eða „Dreki Norðursins“. Hann var seinna tekinn í guðatölu og eftir það er hann kallaður Talos, allt þar til ljósálfarnir fengu skilmála sína samþykkta eftir stríðið. Þeir létu þá banna tilbeiðslu Talosar því þeir segja engan mann geta verið Guð og þeir hika ekki við að fjarlægja hvern þann sem vogar sér að tilbiðja Talos.

Leikurinn hefst á því að spilarinn, sem er með óþekktan uppruna, er handjárnaður og bíður þess að verða líflátinn ásamt uppreisnarmönnum. Hann átti leið hjá á sama tíma og uppreisnarmennirnir og var því handtekinn með þeim fyrir mistök. Þökk sé ótrúlegri uppákomu sleppur hann og kemst spilarinn brátt að því að hann er engin venjulegur maður, heldur er hann ættaður af drekum (Dragonborn), eða sá sem fæðist með blóð og sál dreka en í líkama manns. Á sama tíma og spilarinn kemst að uppruna sínum og hvað það þýðir að vera ættaður af drekum ,eru drekarnir að snúa aftur og er það undir honum komið að vernda Skyrim frá þeim ásamt því að leita svara við þeim fjölmörgu spurningum sem vakna við spilun leiksins.

 

Spilun

Leikurinn er hlutverkaleikur, en hægt er að spila hann bæði í fyrstu persónu sem og þriðju persónu. Spilarinn byrjar á því að skapa sína eigin persónu, eftir eigin geðþótta, en þar er hægt að velja hvaða kynstofn (Race) þú vilt leika, allt frá mismunandi gerðum manna (t.d. Nords og Red Guard) og álfa (t.d. Wood- og Dark Elves) yfir í eðlur (Argonian) og ketti (Kahjiit) með mannslega líkama. Hver kynstofn hefur sinn styrkleika, t.d. geta eðlurnar andað endalaust undir vatni og ljósálfarnir eru öflugustu galdramennirnir. Svo velur þú einnig hvernig þín persóna lítur út, en þú getur stjórnað hverju einasta svipbrigði eins og þig listir. Að því loknu hefst leikurinn sjálfur, þó svo að leikurinn hafi aðalsöguþráð og ýti þér aðeins í áttina að honum til að byrja með ræður þú gjörsamlega sjálfur hvað þú gerir, hvenær, við hvern og hvernig.

Í leiknum er svo að finna nokkrar stofnanir sem hægt er að ganga til liðs við og vinna sig upp í æðri stöðu, svo sem Töfraskólanum (Collage of Winterhold) og Föruneytinu (Companions) ásamt fleirum. Svo getur spilarinn einnig hjálpað annaðhvort Veldinu (The Empire) eða uppreisnarmönnunum (Stormcloaks) í því stríði sem ríkir á milli þeirra um yfirráð Skyrim. Þá er líka fjöldinn allur af verkefnum sem fylgja ekki stærri söguþræðinum og spilarinn getur leyst að vild. Að því sögðu held ég að það gæti reynst nánast ómögulegt að hafa ekkert að gera í leiknum.

Leikurinn bíður upp á aragrúa af vopnum og hlutum sem hægt er að nota, og tilheyra flestir þeirra ákveðnum hæfileikaflokki, og persónan þín verður betri á þeim sviðum sem þú iðkar mest, t.d. ef þú laumast alltaf um og notar boga eykst hæfni þín á þeim sviðum, en ef þú vilt heldur hlaupa um í stórum brynjum með tveggjahanda sverð þá er það allt eins hægt. Svo er að sjálfsögðu hægt að nota eitthvað allt annað eins og að vera töframaður í kufli sem hleypur um með tvær axir. Svo er að sjálfsögðu hægt að gera allt saman, en það krefst mikillar vinnusemi því það tekur dágóðan tíma að þjálfa persónuna þína á hverju sviði fyrir sig.

Öll sú vinna sem þú leggur fram á hverju sviði safnast svo saman í eina heild (Level) sem er alveg eins og í fyrri Elder Scrolls leikjunum, og flestum  öðrum hlutverkjaleikjum. Þegar þú hefur bætt þig um ákveðið mörg stig á einu eða fleiri sviðum færðu fyrst að velja hvort þú viljir hækka lífsstyrk (Health), töfrastyrk (Magic) eða úthald þitt (Stamina). Að því loknu færðu einn punkt sem þú getur ýmist nýtt strax eða geymt ef þú ert ekki viss hvernig þú vilt nýta hann. Þessa punkta getur þú ýmist notað til að velja þér nýja hæfileika og brögð, eða verða öflugri á einhverju sviði. Til þess að nýta punktana verður spilarinn að hafa náð ákveðnu hæfnisstigi (level) innan þess sviðs sem uppfærslan er á. Leikurinn skaffar fullt af ólíkum og spennandi óvinum og skrímslum sem hægt er að berjast við. Einnig er að finna heilan helling af fólki sem allt hefur sín eigin persónulegu einkenni og samræðu valmöguleika, og hafa ótrúlega mörg þeirra einhver verkefni sem þau þurfa að láta vinna fyrir sig, oftast gegn einhverskonar greiðslu.

 

Hönnun, grafík og hljóð

Skyrim er risastór leikur með landakort sem tæki heila eilífð að kanna frá toppi til táar, þar á meðal eru 8 borgir sem hægt er að fara í, og eru þær allar með sitt eigið þema og einkennandi útlit. Svo er landslagið, ólíkt því sem margir kvörtuðu undan í Oblivion, ekki sífelld endurtekning af sama umhverfinu heldur máttu eiga von á að upplifa fjölda spennandi og fjölbreyttra staða. Grafíkin í leiknum er í fyrsta flokki, sérstaklega ef tekið er tillit til stærðar leiksins. Vissulega eru til nokkrir leikir sem líta betur út hvað grafíkina varðar, en Skyrim lætur það ekki á sig fá þökk sé fegurð leiksins.

Tónlist leiksins og þau umhverfishljóð sem hann býður uppá eru hreint og beint stórkostleg. Rólega umhverfistónlistin sem leggst yfir landslagið að kvöldi til og hin magnþrungna tónlist sem fylgir svo bardögum eins og t.d. við dreka leiksins slá lokahöggin í þessa meistaralegu veröld sem Bethesda hefur tekist að skapa.

 

…á botninn hvolft

Þegar ég heyrði fyrst minnst á Skyrim fyrir nokkrum mánuðum og sá myndbrotið úr leiknum missti ég mig gjörsamlega, og þar sem ég var og er mikill Elder Scrolls aðdáandi hugsaði ég um lítið annað í fyrstu. En eftir því sem tíminn leið frá tilkynningunum fór ég að efast, því ég átti erfitt með að trúa því að hann gæti jafnast á við þá snilld sem ég upplifði í Oblivion á sínum tíma. Skyrim lofaði miklu og vægast sagt skilaði hann sínu og meira til. Enginn ætti að láta þennan leik framhjá sér fara. Að mínu mati hafa Bethesda enn á ný lagt línurnar fyrir aðra hlutverkaleikjaframleiðendur næstu árin. Þó vil ég taka fram að þetta eru mínar persónulegu skoðanir og ég hef heyrt örfáa segja að þeir hafi ekki notið leiksins líkt og þeir bjuggust við. Í leiknum eru líka nokkur atriði sem mætti lagfæra og slípa aðeins til.

Að því sögðu held ég að allir sannir hlutverkaleikjaunnendur ættu að geta eitt fleiri tugum klukkustunda í þessu kvikindi og ég get með sanni sagt að ég sjálfur mun ekki hika við að grípa aftur í fjarstýringuna og halda áfram við fyrsta tækifæri. Endurspilunarhæfnin er svo líkt og annað, glæsileg, og er því ekki hægt að segja annað en að þú fáir það sem þú borgar fyrir, og meira til, þegar þú kaupir þér Skyrim.

 

GRAFÍK
HLJÓÐ
SAGA
SPILUN
ENDING
9,5
9,5
9,0
10
10

SAMTALS

9,6

Arnar Vilhjálmur Arnarsson

Deila efni

Tögg: , , ,


Upplýsingar um höfund:

Birt af ritstjórnOne Response to Leikjarýni: The Elder Scrolls V: Skyrim

  1. Pingback: BAFTA Video Games Awards 2012 | Nörd Norðursins

Skildu eftir svar

Efst upp ↑