Bækur og blöð

Birt þann 25. maí, 2013 | Höfundur: Nörd Norðursins

0

Hvað ef ofurhetjur væru til í raunveruleikanum?

Hver hefur ekki spurt sig hvernig væri umhorfs ef Superman væri til? Hvernig heimurinn myndi bregðast við ef Batman myndi birtast skyndilega? Hvernig myndum við bregðast við ef galdrar, geimverur og ofurmenni yrðu hluti af lífi okkar, hvernig myndi sagan breytast?

Margar seríur hafa komið fram á sjónarsviðið á síðustu áratugum sem reyna að útskýra hver áhrif ofurhetja yrðu, með misjöfnum árangri. Stundum eru hetjurnar tvöfaldar í roðinu, stundum hafa þær krafta, stundum ekki. Hérna getur að líta fjórar markverðustu tilraunir síðustu ára.

 

Rising Stars

Rising StarsJ. Michael Straczynski hefur margt til brunns að bera annað en erfitt eftirnafn. Hann stjórnaði Amazing Spider-Man frá 2001 til 2007 og bjó til Babylon Five, seríu sem var langt á undan sinni samtíð á tíunda áratugnum. Og hann skrifaði Rising Stars, nokkuð sérkennilega myndasögu. Stór blossi myndast yfir bænum Pederson í Bandaríkjunum. Á næstu níu mánuðum fæðast 113 börn með undarlega hæfileika, sum geta flogið, önnur finna ekki fyrir sársauka eða geta talað við drauga. Við sjáum samfélagið bregðast við þeim og hvernig þau breyta samfélaginu. Sumir ganga til liðs við lögregluna, aðrir við herinn og ein þeirra tekur Chicago og breytir borginni í sitt eigið einræðisríki. Eftir því sem líður á fara þau að breyta gangi sögunnar, að lokum til hins betra.

Rising Stars er hetjusaga, skýr og einföld. Börnin 113, kölluð Specials, verða fórnarlömb harðs heims sem vill koma þeim fyrir í einhverskonar kassa og gleyma þeim. En þau rísa gegn þeim öflum og vilja sýna hvernig heimurinn getur verið betri. Rising Stars er hvað jákvæðust af þessum bókum sem ég minnist á hér þrátt fyrir hryllinginn sem á sér stað. Andinn er ferskur og upplífgandi, persónurnar eru mannlegar, ekki bara sjálfselskar og valdagráðugar.

En að sama skapi á serían við marga Straczynski kvilla að stríða, allir tala í löngum og glærum ræðum og „vondir kallar“ virðast vera vondir bara til að vera vondir. Söguþráðurinn er óþarflega flókinn og setur sig að lokum á svo háan hest að lesandinn á erfitt með að taka hann alvarlega.

 

Top Ten

Það merkilegasta við þessa seríu er að ég hafi yfirhöfuð munað eftir því að hún væri til. Sem er undarlegt, hún var skrifuð af Alan Moore sem venjulega gefur frá sér gæðaefni. En þessi sería er að mínu mati „gleymanleg“. Fyrir utan að muna sögusviðið, mundi ég aðeins eftir einni sögu þar sem gömlu guðirnir voru að drepa hvern annan. Top Ten er því ekki sérstaklega góð, en hún er sérstök. Hér er sagt frá „lögreglumönnum“ í stórborg þar sem hver einasta manneskja er með ofurkrafta. Allir frá sölumönnum til bankastjóra. Borg full af ofurhetjum og aðeins nokkrar lögreglur til að hafa stjórn á þeim. Athyglisverð hugmynd og vekur upp spurningar hvernig heimurinn myndi virka þar sem allir hafa stökkbreytta krafta eins og í X-Men. Áhugavert fyrir sinn part, en eftir að hafa lesið seríuna á ný á ég erfitt með að mæla með henni.

 

The Boys

The BoysGarth Ennis, meistarinn sem skrifaði Preacher snýr aftur með langa sögu um spilltar ofurhetjur og ill fyrirtæki. Hundrað þúsund ofurhetjur fljúga um loftin blá, myndasögur seljast eins og heitar lummur og allt er eins og vera ber. En ofurhetjurnar láta krafta sína stíga sér til höfuðs, endalaust afl og peningarnir sem þeim fylgja spilla fljótt. Þegar ofurhetjurnar seilast of langt, eða þegar fyrirtækin sem stjórna þeim verða of stór með sig koma The Boys og sjá um málið. Þeir ljóstra upp sóðalegum leyndamálum og lumbra á þeim sem ekki gefa sig. Góð sería sem auðvelt er að mæla með, sérstaklega fyrstu bókunum.

Að mínu mati fellur The Boys um sjálft sig vegna þess að þeir vilja bara sýna ofurhetjurnar í slæmu ljósi, að ofurmannlegt vald leiði alltaf til illsku og sjálfselsku. Það er tilgangur seríunnar, að sýna ofurhetjurnar sem venjulegt fólk sem fá alltof mikið vald í hendurnar og misnota það, eins og venjulegt fólk. Það gerir flestar persónur „raunverulegri“ en á sama tíma einvíðar og óáhugaverðar.

Aðalpersónurnar eru síðan næstum því jafn óáhugaverðar vegna þess að þær eru oftast aðeins drifnar af hatri á ofurhetjunum og litlu öðru. Að lokum er það helst ástarsaga milli tveggja persóna sem heldur öllu gangandi, einu manneskjurnar sem eru ekki svartar spegilmyndir af einhverri ofurhetjunni.

Sagan á samt mjög öfluga og flotta spretti, en heimurinn sem er byggður í kringum sögurnar er óljós og erfitt að henda reiður á honum. Það eru til hundrað þúsund ofurhetjur, en það kostar milljarða að búa þær til og eitt fyrirtæki á þær flestallar. Justice League klónarnir komu fram sjötíu og eitthvað, en gera ekki neitt fyrr en um aldamót? Engum dettur í hug að þjálfa þessar drápsmaskínur eða gera vel þjálfaða hermenn að ofurhetjum?

The Boys heldur í raun fram að afskaplega lítið breytist með komu ofurhetja, þær verða bara ríkir asnar með fyrirtæki á bakvið sig. Kannski er það svo en tæplega myndi það eiga við allar ofurhetjurnar.

 

Powers

PowersEf það kom ekki nægilega vel fram í gagnrýni minni á Who Killed Retro Girl? þá er Powers mjög ofarlega á listanum hjá mér. Powers tekur nefnilega spurninguna fyrir og svarar henni greinilega, skilmerkilega og á sinn eigin hátt.

Hvað ef ofurhetjur eru til í raun og veru?

Hvað ef ofurglæpamenn, geimverur og gorkúlur ganga um og rústa hlutum ef það er enginn til að stoppa þá? Hvernig bregðast ríkistjórnir og samfélög við því að þarfnast ofurhetja og krafta þeirra?

Powers tekur á þessu og sýnir að vald kann að spilla en að manneskjur eru flóknari en svo. Þegar serían byrjar er ímynd ofurhetjanna björt og mikilfengleg en eftir því sem á líður er mannorð þeirra dregið niður í svaðið og eftir stendur aðeins fólk. Fólk með gríðarlegt afl og krafta en eftir sem áður fólk með sín litlu líf. Og samfélagið í kringum þau breytist. Heimurinn er ekki eins, valdajafnvægi í heiminum er ekki samt, trúarbrögð og fyrirtæki vinna ekki eftir sömu reglum og áður. Mannkynið verður að horfast í augu við það á hverjum degi að tilvist þeirra getur endað á augnabliki ef einhver ofurmanneskjan ákveður svo.

Glæpamenn neyðast til að hafa krafta til að slást við aðra glæpamenn, sem þýðir að ofurhetjur eru nauðsynlegar til að halda uppi röð og reglu. Samfélagið þarf að fást við að kraftar eru ekki eitthvert sölutrix eða frávik heldur raunverulegur og hættulegur hluti af daglegu lífi. Og þar kemur lögreglan til sögunnar, hlægilega vanmáttug en þrautseig og útsjónarsöm.

Powers tekst að sýna fram á að hetjurnar geta verið mannlegar án þess að verða sjálfselskir nautnaseggir, að mannkynið getur tekist á við tilveru þeirra án þess að breyta þeim í söluvöru og að heimur með ofurhetjum verður aldrei samur.

Fleiri seríur hafa fengist við efnið, Watchmen þeirra frægust en hún þarfnast varla meiri kynningar, auk The Authoritysem ég ræddi um fyrir nokkru. Hvaða fleiri seríur hafa fengist við efnið? Endilega deilið ykkar uppáhaldsseríum hér á spjallþræðinum fyrir neðan.

Forsíðumynd: Top Ten

 

Höfundur er Kristján Már Gunnarsson,
rithöfundur og nemi við Háskóla Íslands.

 

Deila efni

Tögg:


Upplýsingar um höfund:

Birt af ritstjórn



Comments are closed.

Efst upp ↑