Bækur

Birt þann 24. maí, 2013 | Höfundur: Nörd Norðursins

0

Bókarýni: Úlfshjarta eftir Stefán Mána

Úlfshjarta er ný bók í útgáfu JPV. Stefán Máni er Íslendingum kunnur fyrir skuggalegar og oft hryllingslegar skáldsögur sínar en söðlar um í Úlfshjarta og er kominn á unglingabókamarkaðinn með sína túlkun á vinsælu sagnaminni, varúlfinum.

Úlfshjarta segir frá Alexander, ungum manni sem gafst upp á Menntaskólanum og er farinn að vinna við útkeyrslu á kóki. Hann er eins og margir á hans aldri týndur og ráðvilltur, veit ekki hvað framtíðin ber í skauti sér, hver hann er eða hver hann vill vera. Skyndilega finnur Alexander breytingar á líkamlegu og andlegu atgervi sínu og uppgötvar að hann er varúlfur og að tilveran er hættulegri en hann hefði getað ímyndað sér.

Ég var ekkert gasalega hrifin af bókinni, ég hef lesið minn skammt af Young Adult (YA) bókum og þær, eins og aðrir bókmenntir, eru mjög misvel heppnaðar, í þetta skiptir tókst ekki nógu vel upp. Stefán Máni er þekktur fyrir lýsingar sínar á brútal lífi undirheimanna þar sem ofbeldi ræður öllu og konur eru oft aukahlutir eða leikföng, þetta er ekki heimur sem heillar mig að lesa um og hann gerði það ekki heldur hér. Ósáttari var ég þó með nöfnu mína Védísi sem er aðalkvenpersóna sögunnar. Persónusköpun hennar er um margt áfátt og er hún með flatari persónum sem ég hef kynnst, það er aðeins eitt sem kemst fyrir í huga hennar og það er Alexander:

„Af hverju talar hann ekki við mig? Af hverju vill hann mig ekki? Hvað gerði ég rangt? Finnst honum ég ljót? Heimsk? Glötuð?“

Svona hljóma hugsanir Védísar. Hún þroskast aðeins sem persóna gegnum bókina en var alltof þunnur þrettándi fyrir mig, þrátt fyrir þroskann.

UlfshjartaSnemma í bókinni er kafli sem vakti athygli mína og mér virtist sem Stefán Máni ætlaði á snilldarlegan hátt að tengja sögu sína íslenskum fornbókmenntum og einum af fyrstu íslensku varúlfunum, Kveld-Úlfi Brunda-Bjálfasyni, föður Skalla-Gríms, sem er faðir Íslendingasagnahetjunnar Egils Skalla-Grímssonar. Sá kafli gerist í Noregi árið 1226 og segir frá Íslendingi nokkrum, Þórólfi Egilssyni, sem í ljós kemur að er varúlfur. Eins og alþekkt er heita synir Skalla-Gríms Egill og Þórólfur en Þórólfur er líka nafn bróður Skalla-Gríms svo túlka mætti sem svo að Þórólfur Egilsson hafi átt að vera afkomandi Kveld-Úlfs Brunda-Bjálfasonar. Nokkuð hefur verið skrifað um úlfsleg einkenni Egils Skalla-Grímssonar sjálfs svo varúlfatengingin virðist rík í afkomendum Kveld-Úlfs. [Sjá t.d. Holtsmark 1968 „On the werewolf motif in Egil‘s saga Skallagrímssonar“.] Tengingin er kannski óljós og varla nema fyrir fólk sem mjög vel þekkir til íslenskra miðaldabókmennta og þar sem Stefán Máni vann ekkert meira með þetta fór ég á endanum að efast, var tengingin bara til í huga mér? Mögulega er þetta eitthvað sem Stefán Máni ætlar að vinna með ef hann ætlar sér að gera bókaflokk úr þessu en mér fannst virkilega vera þörf á að kafa dýpra í þetta í þessari bók. Eins og þetta stendur er kaflinn nánast án tengingar við meginsöguna og bætir litlu við hana. Á fleiri stöðum vísaði Stefán Máni til íslenskra miðaldabókmenntaminna sem fyrir miðaldabókmenntanördið mig var mikill plús og gaf bókinni aukna dýpt en ég vildi að hann hefði grafið dýpra, unnið meira með þessi tengsl og þessi þemu. Eins og bókin kemur mér fyrir sjónir núna rétt skoppar hún eins og steinn á vatnsfleti en nær aldrei að rjúfa mótstöðuaflið, hefði hún náð því hefði bókin náð allt öðrum og hærri hæðum.

Þrátt fyrir að ég hafi séð ýmsa vankanta á bókinni átti hún sína spretti. Mér finnst frábært að fleiri íslenskir höfundar séu farnir að fikra sig inn á slóðir Young Adult og fantasíubókmennta og að stórir íslenskir útgefendur séu reiðubúnir að gefa út slíkar bækur. Of lengi hefur verið skortur á bókmenntum fyrir lesendur sem eru vaxnir upp úr barna- og unglingabókmenntum en ekki tilbúnir að stíga inn í heim fullorðinsbókmennta, fyrir utan að við fullorðna fólkið erum mörg hver forfallnir YA aðdáendur, jafnvel stærsti lesendahópur þeirra ef marka má rannsóknir. Að sama skapi finnst mér dásamlegt að fleiri höfundar leiti í hinn gríðarstóra sagnabrunn norrænna miðaldabókmennta, megi hann endurnýtast sem oftast!

Sagan gerðist sek um að fara of víða, hún reynir að snerta á of mörgum pólum án þess að vinna að nægjanlegri dýpt í neinum þeirra, fyrir vikið virkaði sagan nokkuð yfirborðskennd. Persónusköpun var einnig ekki nógu góð og þá sérstaklega sköpun kvenpersóna. Þótt um YA bók sé að ræða verður sagan að vera vel unnin, unglingar og ungt fólk er ekki annars flokks lesendur sem hægt er að sjóða eitthvað sull ofan í, þeir eru lesendur framtíðarinnar og eiga betra skilið. Ég hvet því Stefán Mána að halda áfram á þessari braut, hann hefur greinilega upp á ýmislegt að bjóða í þessari bókmenntagrein en þarf að halda áfram að pússa stílinn og muna alltaf að klippa og skera og ritstýra sjálfum sér.

 

Höfundur er Védís Ragnheiðardóttir,
nemi í íslenskum fræðum við Háskóla Íslands.

Deila efni

Tögg: , ,


Upplýsingar um höfund:

Birt af ritstjórnComments are closed.

Efst upp ↑