Bækur og blöð

Birt þann 9. september, 2012 | Höfundur: Nörd Norðursins

0

Aðsend grein: Hin illu öfl myndasögumarkaðsins

Að reyna að eltast við myndasögumarkaðinn er eins og að eltast við ruslabílinn; hann kann að geyma einhver dulin djásn, en hvernig í fjandanum á maður að finna þau? — Þessi staðhæfing kann að hljóma nokkuð djörf en markmið mitt hér er ekki aðeins að gagnrýna, heldur einnig að lofa það sem á lof skilið.

Hinn myrki milliliður

Á bandarískum myndasögumarkaði starfar ágætur fjöldi útgefanda og flestir hafa þeir margt gott fram að færa. Hér er þó hinn skelfilegi sannleikur—þau lúta öll einum herra; Diamond Comic Distributors. Mikið rétt! Á þessum meginstraumsmarkaði myndasagnanna er aðeins eitt fyrirtæki sem sér um dreifingu á öllum myndasögum (og þiggur himinháar fjárhæðir fyrir). Það þýðir að samkeppni innan markaðsins er verulega takmörkuð. Það þýðir að innkoma nýrra útgefenda á þennan markað er svo gott sem ómöguleg.

Hér forðum reyndi stórfyrirtækið Marvel að berjast við þennan illkvitna millilið en allt kom fyrir ekki. Diamond Comics, þessi tröllvaxni einræðisherra, hefur traðkað yfir alla samkeppni í dreifingu myndasagna. Í raun eru þeir ekki ósvipaðir the Borg úr Star Trek; „You will be assimilated. Resistance is futile.

Nýr heimur

Ég var um það bil tólf ára þegar ég gekk inn í verslunina Nexus á Hverfisgötu í fyrsta sinn. Við mér blasti nýr og spennandi heimur sem ég hef ekki horfið frá síðan. Ég verð þó að viðurkenna að ég vissi ekki alveg hvar ég átti að byrja. Augu mín leituðu vítt og breitt um verslunina þar til ég kom auga á myndasögu um Simpson-fjölskylduna. Alltaf leitar maður í eitthvað kunnuglegt (það er varanleg bölvun). Til allrar hamingju stóð við hlið mér afar reyndur myndasögulesandi; hann hrifsaði Simpsons-bókina af mér undir eins. Þess í stað gekk ég út með fyrstu bókina í Preacher-seríunni eftir Garth Ennis. Þess má geta að það var fyrsta myndasögu-serían sem ég las í heild sinni (alveg upp til agna).

Í minni næstu ferð í Nexus keypti ég mér myndasögublað af handahófi. Mig minnir að það hafi verið 25. tölublað af Transmetropolitan eftir Warren Ellis. Ég gat ekki með góðu móti lesið það en mér þótti myndirnar æðislegar (teiknaðar af Darick Robertson). Nokkrum árum síðar keypti ég alla Transmetropolitan-seríuna og enn í dag er Warren Ellis einn af mínum uppáhalds höfundum. Síðar kynntist ég verkum meistara myndasagnanna sem varla þarf að kynna; Alan Moore. Ég mun hafa þessa þrjá höfunda mér til halds og trausts í því skítkasti sem hér á eftir kemur.

Risarnir tveir

Marvel og DC Comics eru án efa stærstu fyrirtækin í myndasöguútgáfu. Bæði tvö halda þau fast í hefðir sínar með óstöðvandi straumi af ofurhetjumyndasögum. Undir heitinu Vertigo gefur DC Comics þó út marga frumsamda titla í hæsta gæða flokki. En þrátt fyrir það gera þeir nýjum höfundum hreint ekki greiða leið inn á markaðinn.

Þegar höfundar eins og Moore, Ellis og Ennis voru að byrja feril sinn var eina leið þeirra inn í bransann í gegnum þessi fyrirtæki. Þá þurftu þeir að vinna í fjölda ára við að skrifa sögur um ofurhetjur; persónur í eigu fyrirtækjanna sem búið er að endurvekja svo oft að hefðbundnir uppvakningar líta vel út í samanburði. Það var ekki fyrr en eftir þennan þrældóm sem þessir efnilegu höfundar komust í innsta hring og fengu að senda frá sér frumsamið efni. Svona starfa þessi fyrirtæki enn og er því ekki nema von að ofangreindir höfundar hafi gífurlega óbeit á ofurhetjum.

Barist við ofuraflið

Ókei… ég er ekki alfarið að drulla yfir ofurhetjumyndasögur. Þær eru reyndar margar skrifaðar af færustu og frægustu höfundum myndasagna. Það sem ég er að gagnrýna er hvernig gengið er að þessum höfundum nauðugum. Warren Ellis hefur haft mikið að segja á móti þessum ofurhetjufaraldri (nú þegar hann er orðinn nógu þekktur og virtur höfundur til að komast upp með það). Sjálfur leitar hann oft langt undir yfirborðið í leit að nýjum og spennandi myndasögum sem enga athygli virðast fá.

Skemmtilegra finnst mér þó hvernig Garth Ennis fékk sína útrás í þessu máli með myndasögu-seríu sinni  The Boys. Hún fjallar um lítinn hóp manna sem starfa einfaldlega við það að berja ofurhetjur í spað. Þar er varpað nýju ljósi á hinar hrokafullu ofurhetjur, samsærið og pólitíkina á bakvið þær, sem vísar hlægilega mikið í það hvernig myndasögumarkaðurinn starfar. Boys-serían var upprunalega gefin út af Wildstorm (fyrirtæki í eigu DC Comics) en þeir hættu útgáfu eftir 6. tölublað án nokkurs rökstuðnings. Svo virðist sem Ennis hafi hitt á veikan blett. Serían var síðar tekinn upp af fyrirtækinu Dynamite til áframhaldandi útgáfu.

Marvel og DC eru að sjálfsögðu bara tvö af fjölmörgum útgáfufyrirtækjum innan bransans. Mörg þeirra starfa þó með svipuðum hætti og leitast eftir höfundum til að vinna að titlum í eigu fyrirtækisins fremur en að sækjast eftir frumsömdu efni. Fyrirtækið IDW felur frábæra frumsamda titla, eins og Lock & Key eftir Joe Hill, á bakvið Star Trek, Doctor Who og True Blood, sem allt eru fínustu sjónvarpsþættir en (að mínu mati) eins konar draugur af því upprunalega í formi myndasagna.

Nýjasta hallærið er endurvakning á snilldarverki Alan Moore, Watchmen (sem er því ver og miður í eigu DC Comics), en um þessar mundir vinna höfundar og teiknarar að því að skapa forsögu (Before Watchmen) sem aldrei stóð til að segja. Orð Moore segja allt sem segja þarf um þessi skrípalæti: „Ég tek þessari þróun sem einskærri staðfestingu á því að þeir virðast enn vera háðir hugmyndum sem ég fékk fyrir 25 árum. Ég veit ekki betur en að það hafi aldrei komið út forsaga eða framhald af Moby-Dick.“ [Comics Alliance]

Sjálfur er ég þeirrar skoðunar að myndasaga sé miðill sem ber að taka jafn alvarlega og aðra miðla. Varla þætti okkur eðlilegt ef Melville (Moby-Dick) hefði byrjað rithöfundaferil sinn við að skrifa Shakespeare „fan-fiction,“ eða þá að samtímarithöfundar byrjuðu feril sinn á að færa gamla Friends þætti yfir í skáldsagnaform.

Björtu hliðarnar

Þrátt fyrir þetta trúi ég því að smám saman sé þessi markaður að opnast. Fleiri og fleiri óháðir titlar koma í verslanir á hverju ári. Fantagraphics, Slave Labor Graphics og First Second eru dæmi um sjálfstæð fyrirtæki sem gefa út óháðar myndasögur (þó þeir séu vissulega háðir Diamond Comic Distributors). Avatar Press og Oni Press gefa einnig út mikið af spennandi myndasögum í forsjá höfunda. Mikil gróska hefur að sjálfsögðu verið í netmyndasögum sem ég tel að eigi stóran þátt í því að opna myndasögumarkaðinn fyrir nýjungum. Hér krafsa ég aðeins í yfirborðið enda er enn margt og mikið sem ég á eftir að kynna mér. En það er ýmislegt sem gott er að vita til þess að geta valið sér góða myndasögu. Maður vill ekki bara leita í það sem er kunnuglegt; þarna er heill heimur af flottum og fjölbreyttum sögum sem bíða okkar.

Það er því kannski full langt gengið að segja að við séum að eltast við ruslabílinn. En við þurfum þó enn að róta aðeins frá ruslinu til að komast að því besta. Starfsmenn Nexus eiga mikið lof skilið fyrir að færa okkur þennan undursamlega heim. Þetta er verslun á heimsmælikvarða; þær myndasögubúðir sem ég hef heimsótt í Bandaríkjunum koma hvergi nálægt þeim gæðum sem Nexus býður upp á. Þeir eru alltaf tilbúnir að mæla með góðu efni . Eins stilla þeir upp nýjum titlum þannig að fjölbreytnin fái alltaf að njóta sín. Ef þessi umfjöllun verður einhvers valdur vona ég einfaldlega að hún hjálpi fólki við að finna sér afbragðs lesefni næst þegar staðið er frammi fyrir valinu.

Forsíðumynd: Transmetropolitan eftir Warren Ellis.

 

Höfundur er  Smári Pálmarsson,
grafískur hönnuður og sögusmiður.

 

 

Deila efni

Tögg: , , , , , , , , , , , , , , ,


Upplýsingar um höfund:

Birt af ritstjórn



Comments are closed.

Efst upp ↑