Bíó og TV

Birt þann 18. ágúst, 2011 | Höfundur: Nörd Norðursins

2

Kvikmyndarýni: X-Men: First Class

Árið 2003 voru kvikmyndir á mikilli hraðferð inn á áhugasviði mitt. Ég hef haft mikinn áhuga á kvikmyndum síðan ég var krakki en það var ekki fyrr en í kringum 1997-2003 þegar brennandi áhugi á kvikmyndagerð sjálfri hófst að mótast í huga mínum. Árið 2003 voru það lokakafli Hringadróttinssögu og X-Men 2 sem höfðu þá mest áhrif, en það var X-Men 2 sem opnaði flóðgáttina að möguleikum ofurhetjumynda fyrir mér, og hvað góður sumarsmellur væri. Síðan þá hefur serían valdið óneitanlega miklum vonbrigðum fyrir gagnrýnendum jafnt sem aðdáendum fyrstu tveggja myndanna. En nú hefur serían verið keyrð í gang á ný með First Class; persónulegri og vandaðri ræmu sem hefur kveikt nýjan vonarneista í mér fyrir seríunni á sama hátt og X-Men 2. Þetta kemur mér mikið á óvart því ég bjóst við algjöru miðjumoði frá öllu sem ég sá fyrir myndina, enda einstaklega léleg markaðsettning.

Ef það er eitt sem X-Men: First Class hefur fram yfir aðrar Marvel myndir, er það plottið. Allt er vel sviðsett fyrir komandi atburði þar sem mikið er lagt undir – ekki aðeins á heimsmælikvarða, heldur fyrir persónurnar sem keyra fram þrautseygju og hjarta myndarinnar. Flæðið er gott og veitir okkur mjög góðan tíma með persónunum sem kynntar eru – þó fjölmargar – og er nánast engum tíma sóað, því allt er þróað í hverju atriði, hvort sem það er söguþráðurinn eða persónurnar. Plottið hljómar mjög einfalt, eins og óspes forvera-saga til að selja næstu mynd, en lykillinn hér eru persónurnar og persónusköpunin. Erik (Magneto) fær verulega áhrifaríka sögu sem lýkur á svakalegan máta, Xavier er sjarmatröll hér sem fær loksins meiri og betri persónusköpun en áður, og heill hópur aukapersóna (þá sérstaklega Mystique) fá einnig góðan skerf af myndinni tileinkaðann sér og er nýttur einkum vel. Plottið leiðir líka að magnþrungnum atriðum milli persónanna og á ég auðvelt með að nefna nokkur sem fengu áhorfendur til að missa andlitið og oftar en einu sinni heyrði maður snökkt hér og þar í salnum.

 

 

Leikurinn er þó einn mesti styrkleiki myndarinnar, en þeir Fassbender og McAvoy falla vel saman, en skila einnig frammúrskarandi frammistöðum á eigin hátt sem skilja mikið eftir sig. Aukaleikararnir eru einnig ansi góðir en þeir bestu fá náttúrulega mestan tíma í myndinni. Heilmikið af persónulegu heild sögunnar hefði ekki virkað nærri því jafn vel ef leikurinn væri ekki svona afbragðslegur. Það er algjörlega magnað að ofurhetjumyndir eru farnar að velja óþekktari leikara og skilja eftir sig mun meira en áður, en X-Men: First Class er mynd sem hefur tekið djarfar og stórkostlegar ákvarðanir í leikaravalinu. Samtölin eru einnig mjög skörp og samskipti persónanna eru bæði skemmtileg og áhrifarík.

Annað sem er alveg verulega magnað við First Class er hversu langt er gengið með PG-13 stimpillinn, en þó ekki af ástæðulausu. Hér eru takmörkin nýtt á þannig hátt að hrollvekjandi afleiðingar búa yfir mun meira vægi en ef myndin hefði ekki potað göt í aldurstimpillinn. Myndin er líka með eina mestu brillara notkun á F-orðinu í PG-13 kvikmynd (sem má nota einu sinni fyrir þann aldurstimpil), en það ákveðna atriði varð mun fyndnara því lokasetningin (punchline) var nú óvæntari.

Veikir punktar myndarinnar eru fáir en helsti veikleikinn er að þetta er hluti af seríu þar sem þú veist útkomuna, en það dregur úr spennunni á köflum og treður inn hlutum sem koma í seinni myndunum (þá sérstaklega síðustu tvö atriðin). En ólíkt myndum á borð við Star Wars I-III, þá er First Class algjörlega fær um að standa á eigin fótum og tekst mun betur að segja persónulega sögu með góðri uppbyggingu. Annar veikleiki er tónlistin, sem er í raun eitt stórt „meh“ með ágæt innskot á persónulegri atriðum og kvikmyndatakan er ekkert stórkostleg, heldur sæmileg.

Allt í allt tekst First Class afbragðslega vel að færa okkur sömu töfra og fyrstu tvær X-Men myndirnar auk þess að bæta við sínum eigin sjarma, betri spennu og persónuleika í blönduna. Vel sögð saga með mikið af frábærum persónum sem eru einstaklega vel túlkaðar og magnþrungnið plott.

Ein besta kvikmynd ársins.

– Axel Birgir Gústavsson


Deila efni

Tögg: , , , , ,


Upplýsingar um höfund:

Birt af ritstjórn2 Responses to Kvikmyndarýni: X-Men: First Class

Skildu eftir svar

Efst upp ↑