Fréttir

Birt þann 15. júní, 2022 | Höfundur: Bjarki Þór Jónsson

0

Væntanlegir leikir kynntir á Summer Game Fest 2022

Summer Game Fest leikjahátíðin fór fram um nýliðna helgi. Viðburðurinn samanstóð af leikjakynningum á netinu þar sem sem væntanlegir leikir voru kynntir fyrir áhorfendum. Aðalkynningin fór fram þann 9. júní þar sem hinn viðkunnalegi Geoff Keighley kynnti það sem framundan er í leikjaheiminum, nýir leikir voru kynntir til sögunnar sem og ný sýnishorn úr öðrum væntanlegum leikjum. Fjallað er ítarlega um leikina og viðburðinn í heild sinni í nýjasta þætti Leikjavarpsins. Tugir leikja voru kynntir og verður hér stiklað á stóru og sagt frá því helsta.

The Last of Us í brennidepli

Leikjafyrirtækið Naughty Dog sýndi brot úr væntanlegri endurgerð (remake) af tölvuleiknum The Last of Us sem kom upphaflega út árið 2013 á PlayStation 3 leikjatölvuna. Endurbætt útgáfa (remastered) af leiknum gefin út árið 2014 fyrir PlayStation 4 og beint framhald leiksins, The Last of Us Part II, kom út árið 2020. Vissulega má sjá endurbætur milli leikja líkt og sést á meðfylgjandi myndbandi en fá dæmi eru um að tölvuleikur hafi verið gefinn út, endurbættur og endurgerður á aðeins áratug. Þess má geta að The Last of Us leikirnir hafa notið gríðarlegra vinsælda og endað á fjölmörgum listum yfir bestu leiki allra tíma. Einnig eru sjónvarpsþættir sem byggja á tölvuleikjunum væntanlegir frá HBO á næsta ári en upptökum á þáttunum lauk núna í júní líkt og fram kom á kynningunni.

Vísindaskáldskapur vinsæll

The Callisto Protocol er leikur sem fékk sérstaka athygli. Um er að ræða söguríkan fyrstu persónu skotleik þar sem hryllingi, hasar og vísindaskáldskap er blandað saman í einn blóðugan graut.

Vísindaskáldskapur var nokkuð áberandi meðal þeirra leikja sem kynntir voru á hátíðinni. Aliens Dark Descent, Routine og Flashback 2 voru þar á meðal. The Callisto Protocol er leikur sem fékk sérstaka athygli. Um er að ræða söguríkan fyrstu persónu skotleik þar sem hryllingi, hasar og vísindaskáldskap er blandað saman í einn blóðugan graut. Í leiknum stjórnar spilarinn Jacob Lee sem var sendur í Black Iron öryggisfangselsið á Callisto tungl Júpiters. Samfangar Jacobs breytast skyndilega í hræðileg skrímsli og í kjölfarið myndast ringulreið í fangelsinu. Af sýnishorninu að dæma er leikurinn virkilega brútal og minnir mikið á Dead Space með smá keim af Doom. Við vörum sérstaklega við sýnishorninu sem fylgir leiknum sem er sérlega blóðugt og fékk Geoff Keighley til að enda leikjakynninguna með orðunum „oh my god, that just happened“ eftir að aðalsöguhetja leiksins sést tætast í sundur í lok myndbandsins.

Fort Solis er annar leikur sem flokkast sem vísindaskáldskapur. Í þessum þriðju persónu sæfæ-trylli fer spilarinn með hlutverk Jack Leary sem er ábyrgur fyrir að vakta svæði á Mars þegar allt fer á annan endann. Leiknum var líkt við blöndu af Dead Space og Duncan Jones’s Moon þar sem spilarinn þarf að kanna umhverfi sitt vel og hugsa hratt. Enginn útgáfudagur var tilkynntur með leiknum sem er enn á vinnslustigi.

Fall Guys frír og taktfastur metall

Fall Guys er vinsæll kasjúal fjölspilunarleikur sem kom út árið 2020. Í leiknum keppa spilarar sín á milli um að vera fyrstir í mark og þurfa að forðast allskonar hindranir í leiðinni. Keppendur keppa sín á milli í rauntíma þar sem einn leikmaður stendur uppi sem sigurvegari eftir nokkrar keppnislotur. Leikurinn er grípandi, skemmtilegur, einfaldur í spilun og hver leikur tekur innan við korter svo leikurinn nær að höfða til breiðs hóps. Á hátíðinni var tilkynnt að Fall Guys yrði frír frá og með 21. júní á fjölmargar tölvur en áður kostaði leikurinn um 20 Bandaríkjadali.

Metal: Hellsinger er fyrstu persónu skotleikur sem verðlaunar spilarann fyrir að skjóta og drepa djöfla og púka í takt við tónlistina.

Metal: Hellsinger er fyrstu persónu skotleikur sem verðlaunar spilarann fyrir að skjóta og drepa djöfla og púka í takt við tónlistina. Rík áhersla er lögð á tónlist í leiknum og eru lögin sérstaklega samin fyrir leikinn þar sem fjölmargar stjörnur úr metalheiminum ljá leiknum söngraddir sínar, þar á meðal Serj Tankian (System of a Down), Matt Heafy (Trivium), Mikael Stanne (Dark Tranquillity) og Randy Blythe (Lamb of God).

Innrás Rússa og náttúruhamfarir

Minnst var á innrás Rússa á Úkraínu í aðalkynningu hátíðarinnar. Til stóð að sýna nýtt sýnishorn úr leiknum Replaced frá leikjafyrirtækinu Sad Cat Studios sem staðsett er í Hvíta-Rússlandi og er með starfsfólk bæði frá Hvíta-Rússlandi og Úkraínu. Vegna stríðsins í Úkraínu var ekki hægt að sýna nýtt sýnishorn. Leikurinn átti upphaflega að koma út á þessu ári en hefur verið frestað til ársins 2023.

Vegna stríðsins í Úkraínu var ekki hægt að sýna nýtt sýnishorn.

Indíleikurinn Highwater er væntanlegur síðar á þessu ári. Sögusviðið er í náinni framtíð þar sem náttúruhamfarir hafa átt sér stað vegna loftlagsbreytinga. Flætt hefur yfir stór svæði og eyðilegging er víða. Markmiðið í þessum herkænsku- ævintýraleik er að hjálpa Guide Nikos og vinum hans að komast í gegnum hættuleg flóðasvæði og flýja.

Fleiri leikir voru kynntir á hátíðinni og má þar meðal annars nefna Street Fighter 6, Call of Duty Modern Warfare II, Layers of Fears, Warhammer 40.000 Darktide, nýja Humankind viðbót, The Quarry, Neon White, American Arcadia, nýja Cuphead viðbót, Stormgate og fleira.

Nánar er fjallað um Summer Game Fest í nýjasta þætti Leikjavarpsins.

Deila efni

Tögg: , , , , , , , ,


Upplýsingar um höfund:Efst upp ↑