Leikjarýni

Birt þann 22. mars, 2017 | Höfundur: Daníel Rósinkrans

Leikjarýni: The Legend of Zelda: Breath of the Wild

Leikjarýni: The Legend of Zelda: Breath of the Wild Daníel Rósinkrans

Samantekt: Frábært ævintýri sem ætti ekki að svíkja neina Zelda aðdáendur, hvorki nýja né gamla spilara.

4.5

Frábær!


Einkunn lesenda: 4.5 (2 atkvæði)
Daníel Rósinkrans skrifar:

Þann 3. mars síðastliðinn gáfu Nintendo út nýjan Zelda titil í fyrsta skipti fyrir Wii U og nýjustu leikjatölvu þeirra, Nintendo Switch. Síðasti leikur, Skyward Sword, kom út fyrir Wii leikjatölvuna í nóvember 2011 og virtist falla misvel í kramið hjá Zelda aðdáendum vegna hreyfiskynjunar Wii fjarstýringarinnar.

Eftir sífelldar seinkanir er nýjasti leikurinn í seríunni, The Legend of Zelda: Breath of the Wild, loksins kominn út og hefur leikurinn verið að fá glimrandi góða dóma hjá helstu leikjagagnrýnendum. En á hann virkilega allt þetta lof skilið? Sjáum til með það hér á eftir. Það er Nintendo Switch útgáfan sem við rýnum í.

Fyrri Zelda leikir hafa alltaf skartað skýra stefnu frá A til B. En í þessu tilfelli ræður maður förinni alveg sjálfur og er þannig hægt að vinna sig í gegnum dýflissur og önnur tilfallandi verkefni í þeirri röð sem maður vill.

Leikurinn hefur göngu sína þar sem aðal söguhetjan Link vaknar upp af djúpum svefni eftir fjölda ára. Ganon hefur náð tökum á Hyrule og hafa margir íbúar þessa heims misst nánast alla von um að heimurinn eigi eftir að fara í fyrra horf. Strax í upphafi er hendi spilarans sleppt þar sem hönnuðir leiksins leyfa honum svolítið að átta sig á hlutunum sjálfur. Fyrri Zelda leikir hafa alltaf skartað skýra stefnu frá A til B. En í þessu tilfelli ræður maður förinni alveg sjálfur og er þannig hægt að vinna sig í gegnum dýflissur og önnur tilfallandi verkefni í þeirri röð sem maður vill. Þó svo að endirinn muni koma til með að verða eins í öllum tilfellum er góð tilbreyting að hafa val á ýmsum þáttum.

Eftir alla þessa fjarveru hefur Link tapað minninu sem gerir honum ævintýrið erfitt fyrir. Söguþráðurinn vinnur svolítið með minnisleysið þar sem hann þarf að komast að því hvað átti sér stað áður og hvernig hann tengist þessu öllu saman. Þrátt fyrir að þetta sé eitt af lykilverkefnum leiksins er engin skylda að ljúka því líkt og öðrum verkefnum. Það er hægt að hjóla í Ganon strax í upphafi en hvort að það sé eitthvað vit í því er allt önnur saga.

Þolhjólið spilar stórt hlutverk í Breath of the Wild sem segir til um þolið hans Link og getu hans að hverju sinni.

Þeir eru ekki margir Zelda leikirnir sem skarta þolhjóli og hafa framleiðendur leiksins tekið upp á því á nýjan leik. Þolhjólið spilar stórt hlutverk í Breath of the Wild sem segir til um þolið hans Link og getu hans að hverju sinni. Til dæmis hversu langt hann getur hlaupið, hversu lengi hann getur synt, klifrað eða jafnvel beitt ýmsum brögðum með hinum ólíku vopnum sem bregða fyrir.

Það líður ekki langur tími þar til spilar eru gefnir nýir eiginleikar sem þekkjast ekki í fyrri leikjum. Til halds og traust hefur Link með sér Sheikah Slate í för sem minnir mikið á snjallsíma nútímans. Með því getur Link beitt ýmsum brögðum sem honum er gefið fyrsta klukkutíma leiksins eða svo. Að stöðva tímann á einstökum hlutum, lyfta málmhlutum af öllum stærðum og gerðum, hanna sprengjur þegar þér hentar og búa til ískubba eru allt brögð sem Link er gefið með skemmtilegri uppfærslu ef svo má segja. Með þessum eiginleikum eru nær allar þrautir leiksins leystar á mjög svo ólíkan og skemmtilegan hátt. Það er hreint út magnað að sjá hvað hægt er að gera margar mismunandi þrautir með sömu verkfærum frá upphafi til enda.

Í leiknum er að finna fjöldann allan af vopnum, bæði gömul og ný, og hafa aldrei sést eins mörg vopn í einum Zelda leik áður. Nintendo hefur gjörbreytt formúlunni sem setur skemmilegan svip á leikinn.

Í leiknum er að finna fjöldann allan af vopnum, bæði gömul og ný, og hafa aldrei sést eins mörg vopn í einum Zelda leik áður. Nintendo hefur gjörbreytt formúlunni sem setur skemmilegan svip á leikinn. Í stað þess að fá ný vopn einungis í kistum sem breyta gangi leiksins er auðveldlega hægt að næla sér í nýtt vopn með því að drepa óvini og nota vopnin þeirra, eitthvað sem hefur aldrei verið hægt áður. Hins vegar hafa öll vopn ákveðinn varanleika eða slitþol og eyðileggjast eftir stutta notkun, eitthvað sem leggst misvel í Zelda aðdáendur virðist vera.

Ásamt hinum „hefðbundnu“ dýflissum sem einkenna Zelda leikina er að finna fjölmörg hof (Shrines) í veröldinni sem spilast nokkurs konar eins og litlar útgáfur af dýflissum. Hvert og eitt hof inniheldur mismunandi þrautir sem spilarar þurfa að leysa með því að brjóta heilann. Í þeim er oftast að finna vopn sem duga lengur en önnur sem kemur sér vel á köflum. Einnig fær maður hnetti í verðlaun sem hægt er að skipta út fyrir auka hjörtu eða jafnvel styrkja þolhjólið sem kemur sér vel þegar lengra er haldið inn í leikinn.

Fjármálakerfi leiksins hefur verið breytt til muna sem ætti að kæta flest alla Zelda aðdáendur. Því gjaldmiðill leiksins, „Rupies“, finnst ekki lengur í grösum. Spilarar þurfa núna að vinna sér inn fyrir þeim með því að klára hin og þessi aukaverkefni sem fást við að tala við ýmsa íbúa leiksins. Fyrir þau er svo hægt að versla brynjur og annað sem hentar vel í ólíkum aðstæðum.

Sama má segja um hvernig farið er að því að hlúa að Link eftir erfiða bardaga. Leikurinn leggur mikla áherslu á eldamennsku sem hljómar mjög sérkennilega við fyrstu. Í umhverfinu eru að finna fjölmargar tegundir af hráefnum sem blandast misvel efir því hvaða hráefni eru notuð saman. Þannig er hægt að styrkja heilsu spilarans, auka þolið í stutta stund, kæla líkamann niður við heitar aðstæður svo eitthvað sé nefnt. Dágóður tími fór í að finna hina fullkomna blöndu sem hefði mátt stytta með flýti aðgerðum sem virtist ekki vera í leiknum. Mikill tími fer því í að vera fyrir framan eldunaraðstöður sem er allt mjög svo krúttlegt í fyrstu tuttugu skiptin eða svo.

Hugsanlega það besta í þessu öllu saman er að Breath of the Wild lítur út og spilast eins og Zelda leikur þrátt fyrir allar breytingarnar. Hann nær að halda sama kjarna og hver annar leikur í seríunni sem gefnir eru út fyrir leikjatölvurnar.

Hugsanlega það besta í þessu öllu saman er að Breath of the Wild lítur út og spilast eins og Zelda leikur þrátt fyrir allar breytingarnar. Hann nær að halda sama kjarna og hver annar leikur í seríunni sem gefnir eru út fyrir leikjatölvurnar. Tilfinningin er til staðar sem ætti ekki að svíkja neinn Zelda aðdáanda sem gerir hann einstakan í þessum risa stóra heimi.

Það gefur fljótt auga leið að Breath of the Wild er langstærsti Zelda leikurinn hingað til sem veitir manni aukið frelsi sem þekkist ekki í öðrum Zelda leikjum. Það eru nær engar hindranir sem koma í veg fyrir för spilarans, nema jú auðvitað þolhjólið og aðrir umhverfisþættir sem tengjast hitaskilum í leiknum. Því Link þarf núna að klæða sig eftir veðri, ótrúlegt en satt.

Breytilegt veðurkerfi er að finna í leiknum og jafnvel veðurspá sem segir til um hvort úrkoma eða sólskin sé í væntum. Hins vegar verður maður sérstaklega var við regnið þar sem klettar og önnur grjót verða rennblaut fyrir vikið og koma í veg fyrir að maður geti stytt sér leiðir. Meiri að segja hafa spilarar kvartað undan látlausu regni á veraldarvefnum, sérstaklega í ljósi þess að úrkoman virðist alltaf rétt handan við hornið þegar maður þarf síst á því að halda. Ef einhvertímann það er að segja.

Nintendo Switch útgáfan lendir oft í vandræðum við að keyra leikinn í 30 römmum á sekúndum þegar leikurinn er keyrður í sjónvarpinu. Þá tekur hann dýfur þegar mest á reynir sem veldur pínu vonbrigðum á köflum. Leikurinn keyrir þó mun betur þegar hann er spilaður í hönd spilarans sem er einmitt eitt af einkennum Switch leikjatölvunnar.

Nintendo Switch útgáfan lendir oft í vandræðum við að keyra leikinn í 30 römmum á sekúndum þegar leikurinn er keyrður í sjónvarpinu. […] Leikurinn keyrir þó mun betur þegar hann er spilaður í hönd spilarans sem er einmitt eitt af einkennum Switch leikjatölvunnar.

Að öðru leiti lítur leikurinn mjög einfaldlega út hvað grafík varðar. Rétt eins og í The Wind Waker og Skyward Sword notast Nintendo enn og aftur við „Cel-shaded“ stílinn sem hefur sett ákveðinn svip á Zelda leikina sem kemur mjög vel út. Þótt að umhverfið virðist frekar einhæft á köflum er alltaf eitthvað nýtt og spennandi handan við hornið og er auðvelt að gleyma sér í veröldinni, þá sérstaklega þeir sem hafa gaman af að kynna sér heiminn nánar og skoða alla króka og kima.

Tónlistin er meiriháttar og lítið hægt að setja út á hana. Þeir sem hafa spilað fyrri Zelda leiki á borð við Ocarina of Time munu upplifa mikla nostalgíu þar sem tónlistin úr þeim leik er notuð við mörg tækifæri. Þetta er líka í fyrsta skipti sem Zelda leikur notast við leikraddir fyrir einstakar persónur í leiknum. Raddirnar eru nánast eingöngu beittar í mikilvægum atriðum tengd sögunni. Allt annað skartar hinum hefðbundna texta líkt og fyrri Zelda leikir.

The Legend of Zelda: Breath of the Wild er ansi nálægt að vera hinn fullkomni Zelda leikur, eða jafnvel tölvuleikur almennt, þegar á heildina er litið. Það er virkilega gaman að sjá Nintendo taka nýja stefnu í rétta átt þrátt fyrir þessar aðferðir séu kunnuglegar í helstu hlutverkaleikjum nú til dags.

Það er eitthvað einstaklega heillandi að dunda sér í leiknum og kanna nýjar slóðir, þrátt fyrir mikið labb og langar vegalengdir oft á tíðum. Á sama tíma er leikurinn er mjög duglegur að verðlauna forvitna landkönnuði með ýmsum þrautum sem breyta gangi leiksins á mjög svo skemmilegan hátt. Þetta frábæra ævintýri skartar nær 80+ tíma spilun og jafn vel lengra séu öll aukaverkefnin og staðir kannaðir vel og vandlega.

Breath of the Wild er einn af þeim titlum þar sem tölvuleikjaunnendur er virkilega að missa af fjörinu kjósi þeir að láta hann fram hjá sér fara.

Þeir sem hafa ekki fengið að kynnast Zelda seríunni hingað til ættu hiklaust að kíkja á Breath of the Wild hafi þeir tækifæri á því. Það virðist þó ekki skipta máli hvort Wii U útgáfan eða Switch verði fyrir valinu þar sem báðar útgáfurnar keyra leikinn nokkuð sambærilega. Breath of the Wild er einn af þeim titlum þar sem tölvuleikjaunnendur er virkilega að missa af fjörinu kjósi þeir að láta hann fram hjá sér fara.

Deila efni

Tögg: , , , ,


Upplýsingar um höfund:Efst upp ↑