Leikjarýni

Birt þann 19. júní, 2021 | Höfundur: Sveinn A. Gunnarsson

Hlið Oblivion opnast

Hlið Oblivion opnast Sveinn A. Gunnarsson

Samantekt: Blackwood er skref í rétta áttina og nær að heilla aðdáendur Oblivion, en mætti taka stærri stökk.

3.5

Hæg framför


Útgefandinn Bethesda Softworks heldur áfram að leit á slóðir eldri Elder Scrolls leikja með nýjustu viðbótinni við The Elder Scrolls Online: Blackwood. Nú er sótt í viðjar The Elder Scrolls IV: Oblivion frá árinu 2006 og hluta af svæðinu sem sá leikurinn gerðist í eins og borgirnar Leyawiin og Gideon og sem eru í Blackwood í syðri hluta Cyrodil. 

Við á Nörd Norðursins höfum fjallað reglulega um ESO og má finna leikjarýni okkar hér, ásamt umfjöllun um Morrowind, Summerset, Elsweyr og Greymoor.

Eins og aðrir  ESO leikir þá eiga hlutirnir hér sér stað  um 800 árum á undan sögu TES IV: Oblivion. Þessi nýja viðbót er hluti af áralöngu ævintýri leikmanna sem kallast „Gates of Oblivion“ sem byrjaði í mars á þessu ári, þar sem Daedric prinsinn Mehrunes Dagon ógnar öllu Tamriel. Sagan er fín og tekur yfir 20-30 tíma að spila í gegnum, hvort sem er spilað ein/n eða með öðrum.

Stóra nýja viðbótin þetta árið er „Companion“ kerfið en nú er hægt að kanna heim Tamriel með tölvustýrðri persónu (npc) sem getur þróast og orðið betri með reynslu.

Það er hægt að velja hæfileika þeirra t.d. að þau haldi þér á lífi á meðan þú tekst á við óvinina eða laumast um og koma aftan af óvinunum ykkar. Vissir hlutir sem þú gerir þróar samband ykkar og síðan er hægt að opna fyrir sérstök verkefni sem útskýrir baksögu þeirra nánar. Verst er hve lítið er kafað í þetta og hefði verið gaman að sjá dýpri nálgun á þessum hluta sambandsins.

Bastian og Mirri

Það er hægt að velja á milli Bastian Hallix sem er galdramaður eða Mirri Elendis sem er launmorðingi því henta þau ólíkum verkefnum sem kalla á mismunandi leikstíla. Ég þurfti ekki að standa í því að passa upp á þau að mestu og var þetta að mörgu leyti ekki ólíkt að vera að spila leikinn með annarri manneskju. Þetta er fín viðbót fyrir þá sem vilja spila ESO leikina án þess endilega að þurfa spila með öðrum.

Önnur góð viðbót við leikinn þetta árið er endurhönnuð byrjun leiksins fyrir nýja og eldri leikmenn. Það er hægt að hoppa núna beint í ESO: Blackwood eftir að hafa spilað uppfærða kynningu leiksins og byrjunarsvæðið. Þú getur þar að auki hoppað beint í sögu Greymoor, Elsweyr, Summerset og Morrowind kaflanna sem fylgja með þegar þú kaupir leikinn. Valið á byrjunarsvæðinu og hvað maður kannar fyrst er skemmtileg viðbót og hjálpar líka t.d. við sköpun nýja persóna og ef þú vilt byrja á ákveðnu svæði í stað byrjunarsvæðis upprunalega leiksins. 

Það tekur smá tíma að kanna allt sem Blackwood bíður upp á

Fyrir þá sem hafa gaman af smá tölfræði þá eru 7 ný aðal söguverkefni, 6 delves (dýflissur), 9 punktar á kortinu sem geta leitt til verkefna, 6 heims „endakarlar?“ til að berjast við, 18 skyshards til að finna og síðan nýtt trial (raid) Rockgrove fyrir allt að 12 spilara. 

Heimur Oblivion er hættulegur að kanna

Líkt og  síðustu ár þá hafa aukapakkar leiksins ekki verið nein bylting, heldur byggt á þeim góða grunni sem ESO: Tamriel Unlimited er í dag. Blackwood svæðið er skemmtilegt að kanna, sérstaklega þar sem meira er um  ókönnuð svæði en Skyrim var í Greymoor. Það hjálpar einnig að umhverfið er talsvert fallegra að sjá og það er næg nóstalgía í boði fyrir þá sem eyddu löngum tíma í að spila TES IV: Oblivion á sínum tíma, bæði í heiminum og ýmsum hliðarverkefnum. Að kíkja síðan í gegnum Oblivion hliðin og í heim Daedra og skrímslana sem búa þar, er virkilega gaman og oft gullfallegt að sjá, þegar enginn er að reyna að drepa þig. Sem er reyndar örsjaldan.

Ef ég stend grafkyrr þá sér hann mig örugglega ekki 🙂

Ég spilaði í gegnum allt núna á Xbox One í stað á PC áður. Leikurinn keyrir mjög vel í dag á leikjavélunum, sérstaklega þeim nýrri. Það er síðan von á frírri uppfærslu fyrir leikinn þann 15. júní eða um viku eftir að leikurinn kom út á PlayStation 4 og Xbox One. PlayStation 5 og Xbox Series vélarnar fá uppfærða útgáfu af leiknum sem keyrir í allt að 60fps og inniheldur uppfærða grafík, betri lýsingu og hraðari  hleðslutíma með SSD diskum nýju leikjavélanna.

Hægt er að sjá nánar um hvað er í boði í ESO: Console Enhanced útgáfunni hérna.

Það er óskandi að ZeniMax Online taki stærri áhættu með næstu stóru viðbót leiksins á næsta ári. Nýjar viðbætur eins og nýja klassa, spilun og stærri breytingar væri gaman að sjá. ESO: Blackwood er fjölbreyttari og skemmtilegri viðbót en ESO: Greymoor í fyrra en sem stakur leikur er hann kannski erfiðara að mæla með fyrir þá sem þekkja lítið til heims Tamriel. Sú staðreynd að eldri aukapakkar fylgi með gerir þetta aftur á móti mikið álitlegri pakka og auðvelt að mæla með, eitthvað þarf fólk að gera á meðan það bíður eftir að The Elder Scrolls VI komi út eftir einhver ár.

Deila efni

Tögg: , , , , , , , , , , ,


Upplýsingar um höfund:Efst upp ↑