Menning

Birt þann 18. febrúar, 2021 | Höfundur: Bjarki Þór Jónsson

Bakar og skreytir Zeldakökur – „Sumir eru fótboltamömmur, ég er eiginlega Nintendo mamma“

Myndlistarmaðurinn Ragnhildur von Weisshappel deildi nýverið nokkrum skemmtilegum myndum í Facebook-hópnum Nintendo Ísland af kökum sem hún bakaði og skreytti með The Legend of Zelda þema. Við höfðum samband við Ragnhildi og spurðum hana aðeins út í kökuskreytingarnar, Zelda og hvort hún hafi yfir höfuð mikinn áhuga á kökubakstri.

Ég er myndlistarmaður og tek hráefnið þar sem það gefst, fæ semsagt útrás fyrir sköpunarþörfina í móðurhlutverkinu.

Ég verð að segja nei við þessari spurningu. Ég er myndlistarmaður og tek hráefnið þar sem það gefst, fæ semsagt útrás fyrir sköpunarþörfina í móðurhlutverkinu. Kökurnar sem ég baka eru mjög beisik og smjörkremið sömuleiðis og ég fæ enga sérstaka gleði út úr því að mixa það, en að skreyta finnst mér hinsvegar óhemju gaman. Það er líka freistandi að kíkja í Allt í köku og ef buddan leyfir getur maður gert allt Hyrule með góðgæti þaðan og dass af sköpunargleði.

„Ég hef verið að baka Zelda kökur í nokkur ár, eða síðan áhuginn byrjaði hjá eldri syni mínum. Hann umbreyttist eiginlega í Link þegar hann var um fimm ára. Það mátti ekki fara í búning í leikskólann svo hann var alltaf bara í grænum bol með brúnt belti, og ég keypti líka brún leðurstígvél. Svo hann var í lúmskum Link-búning hvert sem hann fór. Þannig að já, synir mínir biðja ávallt um kökur, hluti, búninga sem tengjast Zelda, Dragonball Z, Pokémon og einhverju fleiru.

Ég hef verið að baka Zelda kökur í nokkur ár, eða síðan áhuginn byrjaði hjá eldri syni mínum. Hann umbreyttist eiginlega í Link þegar hann var um fimm ára.

Þegar við spurðum Ragnhildi hvort hún sjálf væri Zelda aðdáandi segist hún hafa áhuga á öllu því sem synir hennar hafa áhuga á og hefur þess vegna komið sér vel inní allt sem tengist Zelda og Nintendo. „Sumir eru fótboltamömmur, ég er eiginlega Nintendo mamma. Ég hef reyndar alltaf haldið uppá Legend of Zelda úr mismikilli fjarlægð í gegnum tíðina en nýju leikirnir eru sérlega flottir. Öll tónlistin í Zelda er auðvitað frábær og allt í kringum þetta konsept er bara svo sjúklega vandað. Ég veit ekki hvað er uppáhalds. Við eigum nokkrar bækur og mér finnst Ocarina of Time mjög góð, sögulega séð, kannski því Link er ungur og saklaus hluta sögunnar. Við gerðum einu sinni Navi-ar, með ledljósum inní plastkúlum með vængjum. Smá föndur. Synir mínir og frænka þeirra voru með þannig fylgihlut eitt gamlárskvöldið og þurftu engin stjörnuljós.“ segir Ragnhildur brosandi.

Við á Nörd Norðursins bökuðum Portalköku fyrir nokkrum árum, einnig höfum við bakað Mario bollakökur og Svarthöfðaköku. En hvað þarf að hafa í huga þegar búa á til góða og vel skreytta Zeldaköku?

Maður þarf aðallega að kynna sér það sem á að fara að búa til. Stúdera alla fallegu hlutina sem fylgja þessum tölvuleikjum.

Maður þarf aðallega að kynna sér það sem á að fara að búa til. Stúdera alla fallegu hlutina sem fylgja þessum tölvuleikjum. Sonur minn bað um þríhyrndar kökur með grænu „grasi” og að Master Sword-i yrði stungið í grasið. Með mína kunnáttu í bakstri og minn tímaramma, er erfitt að gera of mikið af smáatriðum en ég þekki sverðið vel svo það var auðvelt að gera það einfalt. Hann pantaði líka muffins með bláu kremi og Triforce merki, og Hylian Shield köku. Ég hef gert nokkra svoleiðis skildi í pappa og við svo ég þekki formin, en hinsvegar er ég rétt að læra á sykurmassa og ég hefði auðvitað átt að gera vængina á fuglinum (Hylian Crest) stærri. Mér finnst bara gaman að hafa smá naívist/amatör/handgerðan sjarma á þessu. Svo vildi hann jelly-Rupees en eftir margar tilraunir endaði það sem rautt og grænt súkkulaði og það kláraðist strax. Við bjuggum til Rupee-sílíkonmót. Það fór mesti metnaðurinn í þær! Það væri gaman að mastera jelly í þær eða gera jafnvel Rupee-sleikjó. Næst!

Ragnhildur hefur ekki aðeins gert Zeldakökur heldur einnig ógrynni af búningum, skjöldum og skákmenn sem hægt er að sjá myndir af hér fyrir neðan.

Deila efni

Tögg: , , , , ,


Upplýsingar um höfund:



Efst upp ↑