Leikjarýni

Birt þann 23. febrúar, 2014 | Höfundur: Jósef Karl Gunnarsson

0

Leikjarýni: The Last of Us – Left Behind [viðbót]

Last of Us var leikur síðasta árs á mínum lista og hjá ófáum öðrum spilurum og leikjagagnrýnendum enda vann hann til margra verðlauna. Einn af styrkleikum hans voru eftirminnilegar persónur og vel uppbyggð saga. Left Behind fylgir sama mótinu en nú beinist sviðsljósið af Ellie.

Ef þú vilt ekki vita neitt um atburði aðalleiksins hættu þá að lesa núna.

Sem viðbót þá er Left Behind mjög einföld; sagðar eru tvær litlar sögur samtímis sem fylla upp í söguþráð aðalleiksins. Ellie er að ná í lyf fyrir Joel sem liggur fyrir dauða sínum eftir atburðina á spítalanum en til þess þarf hún að leita í verslunarmiðstöð. Leikurinn skiptir á milli þessa þ.e.a.s. „nútímans“ og atburðar í lífi Ellie sem gerðist í sömu verslunarmiðstöð en áður en hún hitti Joel (og útskýra meðal annars hvernig hún fékk bitið). Þessi atburður er þegar Ellie og Riley, sem eru æskuvinkonur, stelast saman til að skoða gamlar leikslóðir en þær tilheyra nú stríðandi fylkingum (Riley er hjá Fireflies en Ellie hjá hernum).

Sama atvinnumennskan er að baki Left Behind því að stundum gapir maður yfir því hvað þessar pixluðu tölvulíkamar með sín pixluðu tölvuandlit geta komið á framfæri hvílíkri flóru tilfinninga. Raddsetningin er algerlega frábær hjá Ellie (Ashley Johnson) og Riley (Yaani King). Eitt smáatriði er að þær eru u.þ.b. 14 og 15 ára þarna en samtölin eru stundum eins og hjá fullorðnu fólki. Þetta er að einhverju leyti hægt að fyrirgefa því að í þessum heimi þurfa börn að fullorðnast hratt til að lifa af.

Leikjahlutinn sjálfur býður ekki upp á neitt nýtt; þegar Ellie er ein þarftu að læðast um og reyna koma óvinunum í opna skjöldu (ég spilaði á Survivor sem er erfiðasta stillingin og þar er þetta nauðsyn) en í Ellie / Riley hlutanum eru nokkur skemmtileg afbrigði af vatnsbyssuleik og að kasta steinum í gler sem dæmi.

Semsagt fínasta skemmtun fyrir aðdáendur Last of Us og fyllir upp í ríka sögu þessa heims. Sumum gæti fundist þetta frekar stutt (ca. 2-3 tímar) en þetta er fyllilega þess virði.

 

Stikla

 

Höfundur er Steinar Logi Sigurðsson,
fastur penni á Nörd Norðursins.

 

Deila efni

Tögg: , ,


Upplýsingar um höfund:Comments are closed.

Efst upp ↑