Fréttir

Birt þann 28. nóvember, 2019 | Höfundur: Bjarki Þór Jónsson

Reynslusaga úr rafíþróttum – „skiptir miklu máli að hafa þennan valkost í flóru íþróttanna á Íslandi“

Sífellt fleiri íslensk íþróttafélög eru farin að bjóða upp á æfingar í rafíþróttum. Ármann er eitt af þeim íþróttafélögum á Íslandi sem hafa stofnað sína eigin rafíþróttadeild innan félagsins og er markmið deildarinnar að verða leiðandi í grasrótarstarfi innan rafíþrótta. Félagið vill efla krakka félagslega, andlega og líkamlega í gegnum áhugamál þeirra.

Á dögunum birti Ármann esports fallega reynslusögu
á Facebook-síðu sinni frá foreldri sem segir að það skipti miklu máli að hafa þennan valkost í flóru íþróttanna á Íslandi og að sonur sinn hafi fundið sig í rafíþróttadeild Ármans. Reynslusöguna í heild sinni er hægt að lesa hér fyrir neðan.

„Sonur minn er 11 ára og byrjaði að æfa með Rafíþróttadeild Ármanns þegar hún var stofnuð nú í haust 2019. Hann er greindur með raskanir sem eru hamlandi fyrir hann svo hann tekst á við ýmsar áskoranir í sínu daglega lífi. Frá því að hann var lítill hefur hann prófað margar hefðbundnar íþróttir en það hefur oftar en ekki aðeins valdið honum kvíða og vanlíðan.

„Sonur minn er 11 ára og byrjaði að æfa með Rafíþróttadeild Ármanns þegar hún var stofnuð nú í haust 2019. Hann er greindur með raskanir sem eru hamlandi fyrir hann svo hann tekst á við ýmsar áskoranir í sínu daglega lífi. Frá því að hann var lítill hefur hann prófað margar hefðbundnar íþróttir en það hefur oftar en ekki aðeins valdið honum kvíða og vanlíðan.

Við foreldrar hans höfum því oft þurft að hugsa út fyrir kassann þegar kemur að því að finna íþrótt eða tómstund sem hentar honum. Eitt af því sem hann getur átt erfitt með eru félagsleg samskipti og þá sérstaklega við jafnaldra sína. Það hefur valdið því að hann á það til að einangra sig félagslega og vill stundum lítið fara út úr húsi. Hann hefur mikinn áhuga á tölvuleikjum og það er helst í gegnum þá sem hann á í samskiptum við aðra krakka eftir skóla.

Þegar Rafíþróttadeild Ármanns var stofnuð var hann mjög spenntur og áhugasamur um að mæta þar á æfingar og þangað finnst honum gott að koma. Þar taka á móti honum þjálfarar sem eru flottar fyrirmyndir sem hann lítur upp til og þar er hann hluti af hóp sem honum finnst hann tilheyra, þar sem hann og hans áhugamál er samþykkt. Í íslensku samfélagi hefur því miður ríkt frekar neikvætt viðhorf gagnvart tölvuleikjum og þeim sem þá spila og það hefur ekki góð áhrif á sjálfsmat barna sem falla inn í þann flokk.

En með því að stofna Rafíþróttadeild Ármanns er verið að senda börnum þau skilaboð að það sé í lagi að hafa áhuga á tölvuleikjum og að það sé ekki neikvætt heldur jákvætt. Þar læra þau líka að umgangast tölvuna á heilbrigðan og skynsamlegan hátt. Með því að hafa skipulagt starf þar sem mætt er á fastar æfingar nokkrum sinnum í viku, eins og í öðrum íþróttum, hefur sonur minn fengið tækifærið til þess að rækta áhugamál sitt sem alvöru íþrótt sem hann er góður í. Ennfremur hefur það skapað honum vettvang til þess að kynnast og eiga í samskiptum við jafnaldra sína sem deila hans áhugamáli, stað þangað sem hann getur mætt eftir skóla til að stunda sitt áhugamál.

Starfið hefur á þann hátt rofið hans félagslegu einangrun og styrkt hann félagslega, sem hefur í kjölfarið gefið honum aukið sjálfstraust sem hann hefur getað nýtt sér á öðrum sviðum í sínu lífi. Síðan hann byrjaði að æfa hjá Rafíþróttadeild Ármanns finnst mér ég hafa séð heilmikla breytingu á honum til hins betra. Hann er glaðlyndari, sjálfsöruggari, opnari og félagslyndari en hann var áður og virkari í lífinu almennt.

Ég vona innilega að Rafíþróttadeild Ármanns fái tækifæri til þess að blómstra í framtíðinni þar sem ég held að mörg börn muni njóta góðs af því góða starfi sem þar fer fram. Það skiptir miklu máli að hafa þennan valkost í flóru íþróttanna á Íslandi.

Mynd: Wikimedia Commons (Electronic sport)

Deila efni

Tögg: , ,


Upplýsingar um höfund:Efst upp ↑