Fréttir

Birt þann 5. september, 2021 | Höfundur: Bjarki Þór Jónsson

Styttist í opnun Arena – Spennandi tímar framundan fyrir rafíþróttir og tölvuleikjaspilara

Við hjá Nörd Norðursins fengum að kíkja í heimsókn til Arena, sem hefur markaðssett sig sem „þjóðarleikvang rafíþrótta á Íslandi“. Arena leggur ríka áherslu á rafíþróttir en staðurinn hefur upp á margt annað að bjóða, þar á meðal veitingastað, VIP herbergi og PS5-leikjasvæði í samtals 1100 fermetra rými.

Veitingastaðurinn Bytes með pizzur og Switch

Staðurinn sækir innblástur til gömlu góðu tölvuleikjanna og verður hægt að grípa í Nintendo Switch og spila leiki á borð við Mario Kart á meðan beðið er eftir matnum.

Arena er í Turninum í Kópavogi (þar sem Pier var áður fyrr). Þegar gengið er inn tekur veitingastaðurinn Bytes strax á móti gestum en veitingastaðurinn mun meðal annars bjóða upp á pizzur, samlokur, kjúklingavængi og drykki en staðurinn er með vínveitingaleyfi. Staðurinn sækir innblástur til gömlu góðu tölvuleikjanna og verður hægt að grípa í Nintendo Switch og spila leiki á borð við Mario Kart á meðan beðið er eftir matnum. Alls verða fimm sjónvörp og fimm Switch tölvur á staðnum.

PS5 leikjasvæði

… hægt verður að setjast niður og spila PS5 leiki einn eða með vinum og verða alls 25 PS5 leikjatölvur á staðnum.

Eftir að gengið er í gegnum veitingastaðinn tekur stórt opið tölvuleikjasvæði við. Þar er að finna afgreiðsluborð þar sem verður hægt að fá aðstoð og panta tölvur. Opna tölvuleikjasvæðið er tvískipt. Fyrra svæðið er PS5-svæðið þar sem hægt verður að setjast niður og spila PS5 leiki einn eða með vinum og verða alls 25 PS5 leikjatölvur á staðnum. Hægt verður að panta mat og drykki af Bytes í gegnum app og fá pöntunina senda beint til sín í sætið svo óþarfi er að standa upp eða bíða í röð eftir veitingum.

Á svæðinu verður einnig skjávarpi þar sem hægt verður að fylgjast með rafíþróttamótum, keppnum og öðru tölvuleikjatengdu efni.

Rafíþróttamót og lön

Seinna opna svæðið er töluvert stærra en þar eru löng borð með PC tölvum sem er hugsað fyrir rafíþróttir og lön. Tölvurnar í salnum eru af gerðinni Alienware Aurora R10 og innihalda AMD Ryzen 7 5800X (8-Core, 36MB Total Cache, Max Boost Clock of 4.7GHz) örgjörva, 32GB Dual Channel HyperX FURY DDR4 XMP á 3200MHz vinnsluminni, Nvidia GeForce RTX 3060 Ti 8GB GDDR6 skjákort og verða tölvurnar tengdar við 240hz 25” Alienware skjái.

Þess ber að geta að Arena er í samstarfi við Alienware og verða alls 120 Alienware tölvur á staðnum. Hinum megin við vegginn verður RÍSÍ, Rafíþróttasamtök Íslands, með stúdíó þar sem hægt verður að fylgjast með upptökum í beinni í gegnum stóran glerglugga.

Tekið af heimasíðu Arena – www.arenagaming.is

Öflugustu tölvurnar og VIP herbergið

Auk stærri svæðanna eru alls fjögur smærri herbergi á staðnum. Eitt þeirra er extreme leikjaherbergið þar sem kraftmeiri Alienware tölvur verða í boð. Herbergið verður ekki til útleigu og er hugsað fyrst og fremst sem keppnisherbergi. Tölvurnar eru af gerðinni Alienware Aurora R10, með AMD Ryzen 9 5900X (12-Core, 70MB Total Cache, Max Boost Clock of 4.8GHz) örgjörva, 32GB Dual Channel HyperX FURY DDR4 XMP at 3200MHz vinnsluminni, Nvidia GeForce RTX 3080 10Gb GDDR6X skjákort og eru tengdar við 360hz 25” Alienware skjái, Alienware Low-Profile RGB mekanísk leikjalyklaborð og Alienware 7.1 leikjaheyrnartól.

Við hlið extreme leikjaherbergisins verður VIP herbergið þar sem verður pláss fyrir 10 manns í sófa. Herbergið er hljóðeinangrað og inniheldur þrjú 75” sjónvörp og er hvert þeirra tengt við PS5 og Switch leikjatölvur. Í horni herbergisins verður bjórkælir og auk þess verður hægt að panta veitingar beint af Bytes og fá sent inn í herbergið. Tilvalið fyrir vinnuhópa, fjölskyldur, vinahópa og fleira. Klukkustund í VIP herberginu mun kosta 14.900 kr og er hægt að skipta þeirri upphæð milli hópsins.

Aðsend mynd / Arena

Góð aðstaða til rafíþróttaæfinga

Einnig er að finna herbergi sem eru sérstaklega hugsuð fyrir rafíþróttaæfingar …

Einnig er að finna herbergi sem eru sérstaklega hugsuð fyrir rafíþróttaæfingar en Breiðablik hefur staðfest að lið þeirra mun æfa í Arena og líklega eiga fleiri lið eftir að bætast í hópinn. Fyrra herbergið er með glerveggjum og er hugsað sem svæði þar sem rafíþróttamenn geta gert léttar æfingar, jóga og teygjur fyrir og eftir rafíþróttaæfingar. Við hlið þess er langt herbergi sem hægt er að skipta niður í smærri einingar og er hugsað fyrir rafíþróttaæfingar. Hægt er að hafa rýmið alveg opið eða skipta því niður í afmarkaðar einingar þar sem hver eining inniheldur fimm tölvur og gert er ráð fyrir því að þjálfarinn geti flakkað auðveldlega á milli eininga.

Stutt í opnun

Gert er ráð fyrir því að Arena opni snemma í septembermánuði en engin opinber opnunardagur hefur verið gefinn út. Opnunartími verður 11:30 – 01:00 á virkum dögum og um helgar verður opið til kl. 03:00. Hægt er að fylgjast með nýjustu fréttum frá Arena í gegnum Facebook og heimasíðu Arena.

Fjallað var um heimsóknina í Leikjavarpinu #27 (hefst 15:55) sem hægt er að hlusta á hér fyrir neðan og á öllum helstu hlaðvarpsveitum.


Forsíðumynd: Aðsend mynd / Arena

Deila efni

Tögg: , , , , , , , , , ,


Upplýsingar um höfund:Efst upp ↑