Fréttir

Birt þann 11. júní, 2019 | Höfundur: Bjarki Þór Jónsson

Fyrsti hluti Final Fantasy VII endurgerðarinnar væntanlegur á PS4 árið 2020

Square Enix tilkynnti á E3 kynningu fyrirtækisins í ár að Final Fantasy VII endurgerðin væri komin langt á leið og að fyrsti kaflinn leiksins yrði fáanlegur á PlayStation 4 þann 3. mars árið 2020. Endurgerðin verður sumsé kaflaskipt en óljóst er hve margir kaflarnir verða og hvenær næsti kafli verður tilbúinn til útgáfu. Leikurinn er endurgerður frá grunni en upprunalegi leikurinn var gefinn út árið 1997, þá fyrir fyrstu PlayStation leikjatölvuna. Leikurinn þótti stór í sniðum á sínum tíma og samanstóð af alls þremur geisladiskum en endurgerðin verður augljóslega líka umfangsmikil þar sem innihald fyrsta kafla leiksins verður á tveimur Blu-ray diskum.

Út frá sýnishornum að dæma þá virðist Square Enix ætla að halda í sömu sögu og karaktera og í upprunalega leiknum en spilunin verður ekki nákvæmlega sú sama.

Út frá sýnishornum að dæma þá virðist Square Enix ætla að halda í sömu sögu og karaktera og í upprunalega leiknum en spilunin verður ekki nákvæmlega sú sama. Upprunalegi Final Fantasy VII innihélt svokallað turn-based bardagakerfi, sem þýðir að karakterar og óvinir skiptust á að gera sem gaf spilaranum ákveðinn tíma til að hugsa sig um áður en lagt var til atlögu hverju sinni. Í endurgerðinni virðast bardagar eiga sér stað að mestu leyti í rauntíma, sem þýðir að hver ákvörðun gerist um leið og hún hefur verið tekin óháð því í hvaða röð karakterar eða óvinir raðast upp í. Endurgerðin mun þó innihalda gamla bardagakerfið með nýrri útfærslu, en hverjum karakter í endurgerðinni fylgir svokallaður ATB (Active Time Battle) mælir og þegar hann fyllist er hægt að hægja verulega á tímanum og hoppa yfir í bardagakerfi sem minnir mjög mikið á gamla turn-based kerfið í upprunalega leiknum. Þessi ákvörðun um að hafa bardagana í rauntíma er í anda þeirrar þróunar sem hefur átt sér stað innan Final Fantasy seríunnar undanfarin ár og má segja að sé ákveðin leið fyrir Square Enix til að kom til móts við breyttan markað.

Í kynningunni voru sýnd tvö myndbönd sem hægt er að horfa á hér í fréttinni, annars vegar stiklu úr leiknum sem fókusar á söguþráðinn og hins vegar spilun úr leiknum þar sem var sýnt dæmi um hvernig bardagarnir virka. Þar sem bardagarnir gerast að mestu í rauntíma þá fær spilarinn val um að skipta á milli karaktera í bardaga en þeir karakterar sem spilarinn stjórnar ekki sér tölvan um að stjórna.

Nú þegar er hægt að forpanta leikinn sem verður eingöngu fáanlegur á PlayStation 4. Safnarar geta fjárfest í dýrari útgáfum. Deluxe Edition af leiknum inniheldur myndabók, tónlist úr leiknum ásamt nokkrum minniháttar aukahlutum og svo er það 1st Class Edition sem inniheldur allt það áðurnefnda ásamt styttu af Cloud, söguhetju leiksins, á mótorhjólinu sínu með sverðið sitt fræga. 1st Class Edition fæst á Square Enix Store og kostar 329,99 dollara, eða um 41.000 íslenskar krónur.

Deila efni

Tögg: , , , , , ,


Upplýsingar um höfund:Efst upp ↑