Leikjarýni

Birt þann 23. apríl, 2019 | Höfundur: Bjarki Þór Jónsson

Gris er gullfallegur og afslappandi þrautaleikur

Gris er gullfallegur og afslappandi þrautaleikur Bjarki Þór Jónsson

Samantekt: Fallegur, listrænn og frumlegur þrautaleikur sem gefur spilaranum tíma til að staldra við og njóta.

5

Frábær!


Tölvuleikurinn Gris kom á markað í desember í fyrra og er hannaður af spænska leikjafyrirtækinu Nomada Studio. Gris er fyrsti leikur fyrirtækisins og er samvinnuverkefni þeirra Adrián Cuevas, Roger Mendoza og listamannsins Conrad Roset.

Í hefðbundinni leikjarýni er venjan að ræða aðeins um söguþráð leiksins, en Gris er svolítið öðruvísi. Í leiknum er lögð áhersla á ferðalagið sjálft og þína upplifun frekar en hefðbundinn söguþráð. Aðalakarakterinn í leiknum er ung kona að nafni Gris sem vaknar upp í dularfullum og litríkum heimi sem er fullur af fegurð. Spilarinn er skilinn eftir í algjörri óvissu, þú veist í raun ekki hver tilgangurinn er í leiknum en áttar þig þó fljótt á því að nauðsynlegt sé að safna einhverskonar stjörnum sem er að finna vítt og dreift um heiminn. Til að ná þessum stjörnum er nauðsynlegt að leysa fjölbreyttar þrautir sem tengjast hæfileikum Gris, en hún öðlast nýja hæfileika reglulega í gegnum leikinn.

Það sem gerir Gris að eftirminnilegum leik er fyrst og fremst útlitið sem er mjög litríkt og unnið í samstarfi við listamanninn Conrad Roset.

Það sem gerir Gris að eftirminnilegum leik er fyrst og fremst útlitið sem er mjög litríkt og unnið í samstarfi við listamanninn Conrad Roset. Útlitið eitt og sér gerir leikinn einstakan en spilun leiksins (sem dansar oft á milli þess að vera gagnvirk upplifun og hefðbundinn tölvuleikur) er auk þess mjög vel heppnuð. Í leiknum finnurðu afskaplega fáar hættur og er ætlast til þess að þú njótir ferðalagsins og upplifir það sem leikjaheimurinn hefur upp á að bjóða í stað þess að stressa þig yfir óvinum eða öðrum hættum. Róleg tónlist leiksins smellpassar við fallegt og listrænt útlit hans og ýtir þessi samblanda undir innlifun leiksins.

Þrautirnar í leiknum eru frumlegar og hæfilega erfiðar. Engin þraut var það erfið að hún náði að gera mann óþolinmóðan og lausnin var ávallt handan við hornið, en yfirleitt voru lausnirnar þrátt fyrir það skemmtilega frumlegar og er lítið um endurtekningu svo hver þraut er ákveðin heilaleikfimi. Leikurinn er hæfilega langur, eða í kringum fimm klukkutímar í spilun.

Hraði, hasar og stöðugar uppfærslur er það sem einkennir heldur marga tölvuleiki í dag og er Gris afskaplega vel heppnuð andstæða slíkra leikja.

Gris er skemmtilega öðruvísi leikur. Hraði, hasar og stöðugar uppfærslur er það sem einkennir heldur marga tölvuleiki í dag og er Gris afskaplega vel heppnuð andstæða slíkra leikja. Í Gris er sjálfsagt að staldra við og þefa af blómunum ef svo má segja, njóta heimsins, litanna og tónlistarinnar. Þegar allt er lagt saman er varla hægt að biðja um mikið meira frá slíkum leik, allt sem leikurinn hefur upp á bjóða er gert einstaklega vel heppnað og faglegt útfært og er óhætt að fullyrða að Gris sé einn af betri indíleikjum ársins 2018.

Deila efni

Tögg: , ,


Upplýsingar um höfund:



Efst upp ↑