Fréttir

Birt þann 21. apríl, 2019 | Höfundur: Bjarki Þór Jónsson

Fyrsti íslenski tölvuleikurinn nú aðgengilegur á netinu!

Sjóorrusta, einn fyrsti útgefni íslenski tölvuleikurinn er nú aðgengilegur almenningi í gegnum netið. Leikurinn er frá árinu 1986 og voru það feðgarnir Erling Örn og Jón Erlings sem forrituðu leikinn fyrir Sinclair ZX Spectrum tölvuna á sínum tíma. Leikurinn spilast líkt og klassísk sjóorrusta (Battleship) og geta tveir spilað á móti hvor öðrum; byrjað er á því að ákveða hvar bátarnir eiga að liggja og í kjölfarið skiptast spilarar á að velja sér reiti til að skjóta á þar til öllum bátum andstæðingsins hefur verið sökkt.

Eintök af leiknum voru fyrst afhend Landsbókasafni Íslands árið 2013 til varðveislu en engar opinberar reglur eru í gildi um varðveislu íslenskra tölvuleikja eða (borð)spila.

Þökk sé Tölvunördasafninu er tölvuleikurinn Sjóorrusta nú aðgengilegur almenningi í gegnum netið og er hægt að nálgast eintak af leiknum á heimasíðu safnsins. Til að spila leikinn er nauðsynlegt að sæka Spectrum hermi (e. emulator).

Uppfært 21. apríl 2019 kl. 21:04:
Breytt upphafssetningu úr því að fullyrða að Sjóorrusta sé fyrsti íslenski tölvuleikurinn yfir í að Sjóorrusta sé einn af fyrstu útgefnu íslensku tölvuleikjunum. Vitað er til þess að til séu eldri íslenskir tölvuleikir en Sjóorrusta en ekki eru til íslenskar heimildir um eldri íslenskan tölvuleik sem hefur verið gefinn út og seldur í verslunum.

Deila efni

Tögg: , , , ,


Upplýsingar um höfund:



Efst upp ↑