Leikjarýni

Birt þann 17. apríl, 2018 | Höfundur: Bjarki Þór Jónsson

Leikjarýni: A Way Out – Ágætis tímaþjófur í góðum félagsskap

Leikjarýni: A Way Out – Ágætis tímaþjófur í góðum félagsskap Bjarki Þór Jónsson

Samantekt: Ágætis tímaþjófur með góðum félagsskap en nær þó ekki að halda manni nægilega vel við efnið með of auðveldum verkefnum.

3

Ágætur


A Way Out er nýr samvinnuleikur í leikstjórn Josef Fares, en hann hefur bæði leikstýrt kvikmyndum og tölvuleikjum og er meðal annars þekktur fyrir aðkomu sína að tölvuleiknum Brother: A Tale of Two Sons frá árinu 2013 sem kom skemmtilega á óvart og náði miklum vinsældum í kjölfarið. Leikurinn endaði meðal annars á okkar lista yfir góða norræna leiki frá árinu 2014.

A Way Out er samvinnuleikur í styttri kantinum, sem sannast meðal annars á verðmiða leiksins, en leikurinn kostar í kringum 25 pund í bresku leikjaverslun PSN, eða um 3.500 kr. Leikurinn er þróaður sem tveggja manna samvinnuleikur frá upphafi til enda og er enginn möguleiki á að spila leikinn í einspilun. Hægt er að spila leikinn í gegnum netið eða lókal með öðrum spilara. Þess ber að geta að þá dugar að annar spilarinn eigi leikinn, sama hvort leikurinn sé spilaður lókal eða í gegnum netið.

Í leiknum fara spilararnir tveir með hlutverk fanganna Vincent Moretti og Leo Caruso. Vincent er að hefja afplánun á dómi vegna morðs og Leo situr inni fyrir þjófnað. Krimmarnir tveir verða fljótt félagar og komast að því að þeir eiga sameiginlegan óvin sem þeir vilja koma á hefndum. Fullir hefndarþorsta skipuleggja þeir flótta úr fangelsinu, en til að planið þeirra gangi upp þurfa þeir að vinna vel saman. Og þar með hefst ævintýrið.

A Way Out nær að bjóða upp á nokkra klukkutíma af ágætri samvinnuspilun. Umgjörð leiksins er vel heppnuð og ekkert hægt að setja út á útlit hans, hljóð, talsetningu eða tæknilega útfærslu.

Byrjum á því góða við leikinn. Nokkur eftirspurn er eftir góðum samvinnuleikjum í dag þar sem spilarar fá tækifæri til að spila saman í átt að sameiginlegu markmiði. A Way Out nær að bjóða upp á nokkra klukkutíma af ágætri samvinnuspilun. Umgjörð leiksins er vel heppnuð og ekkert hægt að setja út á útlit hans, hljóð, talsetningu eða tæknilega útfærslu. Leikurinn keyrir áfram í gegnum heldur þungan og mikinn söguþráð sem er ekki ýkja algengt í samvinnuleikjum í dag og gefur leiknum ákveðið sérkenni. Leikurinn býður upp á fjölbreytta hluta þar sem spilarar þurfa meðal annars að leysa þrautir, taka þátt í skotbardaga, keyra bíl og fleira.

Helsti ókostur leiksins er hve auðveldur hann er, svo auðveldur að hann hættir frekar snemma að svala leikjaþorstanum.

Helsti ókostur leiksins er hve auðveldur hann er, svo auðveldur að hann hættir frekar snemma að svala leikjaþorstanum. Lítið þarf að hafa fyrir hlutunum þar sem leikurinn matar spilarann út allan leikinn. Línulegt umhverfi leiksins passar vel upp á það að takmarka kosti og möguleika spilaranna.

Saga leiksins er ansi umfangsmikil miðað við hve stuttur leikurinn er, en það tekur í kringum 5-6 klukkutíma að klára leikinn. Leikurinn virkar sem samblanda af kvikmynd og tölvuleik þar sem stór hluti leiksins fer í að horfa á myndbrot (cut-scenes) sem keyra söguþráð leiksins áfram. Sagan er ekkert slæm þannig séð, en þegar verið er að spila samvinnuleik er takmörkuð þolinmæði til staðar fyrir miklu magni af myndbrotum. Ef sagan nær ekki að grípa mann er auðvelt að ergjast þar sem leikurinn býður ekki upp á þann möguleika að sleppa myndbrotunum og verður þetta til þess að trufla flæði leiksins og hægir enn frekar á spiluninni.

A Way Out missti af góðu tækifæri að mínu mati. Þrátt fyrir að einstaka þrautir í leiknum séu frumlegar og skemmtilegar eru þær flestar of auðveldar og fyrirsjáanlegar.

A Way Out missti af góðu tækifæri að mínu mati. Þrátt fyrir að einstaka þrautir í leiknum séu frumlegar og skemmtilegar eru þær flestar of auðveldar og fyrirsjáanlegar. Leikurinn matar spilarana of mikið og krefst of lítils af þeim sem verður fljótt þreytt. En vegna þess hve leikurinn er auðveldur býður hann aftur á móti upp á kjörið tækifæri til að spila með vini eða vinkonur sem spila sjaldan tölvuleiki. Ég spilaði leikinn með eiginkonunni sem spilar tölvuleiki sárasjaldan, nema þá Sims, og við þutum í gegnum leikinn eins og fagmenn. Það er hreinlega erfitt að taka feilspor í leiknum.

Á heildina litið er leikurinn er ágætis tímaþjófur og svo sem fínn ef leitast er eftir nýjum samvinnuleik til að spila. Fyrir utan nokkur áhugaverð atriði skilur leikurinn frekar lítið eftir sig þar sem stór hluti tímans fer í að horfa á myndbrot saman og endurtaka of auðvelda spilun.

Deila efni

Tögg: , ,


Upplýsingar um höfund:Efst upp ↑