Leikjarýni

Birt þann 30. mars, 2017 | Höfundur: Steinar Logi

Leikjarýni: Mass Effect: Andromeda – „hefði viljað sjá fleiri nýjungar“

Leikjarýni: Mass Effect: Andromeda – „hefði viljað sjá fleiri nýjungar“ Steinar Logi

Samantekt: Yfir meðallagi en þurfti fínpússun. Aðdáendur fá samt sitt.

3.5

Fínn, ekki frábær


Einkunn lesenda: 0 (0 atkvæði)

Fyrri Mass Effect leikirnir gerðust árið 2183 í skáldaðri útgáfu af Vetrarbrautinni en í ME: Andromeda erum við komin í Heleus hluta Andrómeda stjörnukerfisins 634 árum seinna. Við vitum ekki hvað hefur gerst þessi 634 ár því að árið 2185, rétt eftir atburði fyrri leikjanna, lögðu geimskip eða arkir af stað með 20.000 einstaklingum hverrar tegundar (mannverur, túríans, salaríans o.sfrv.) og í hlutverki Nóa voru svokallaðir Leiðsögumenn (Pathfinders). Tilgangurinn var að finna nýjar plánetur í framtíðinni sem þóttu lífvænlegar og til þess voru ferðalangarnir frystir í þessi 634 ár (cryosleep). Skemmtileg nálgun því að þetta eru samtímamenn Shephards úr fyrri leikjum, fluttir fram í tímann og það er allt nýtt fyrir okkur.

Þú spilar annan af Ryder tvíburunum, efnileg en óreynd ungmenni, sem lifa í skugga föður síns Alec Ryder en þau eru af sitt hvoru kyninu og hægt er að breyta útliti þeirra. Fljótlega þarft þú að taka við sem leiðsögumaður og skoða og finna lífvænlegar plánetur fyrir alla þá sem komu með þér.

Það er erfitt að hafa annað en blendnar tilfinningar til ME: Andromeda. Bioware er með nokkuð skothelda vöru með marga aðdáendur, eins og undirritaðan. Gallinn er bara að þeir ná ekki að gera eins góðan leik og maður bjóst við, til þess eru of margir litlir gallar, of fáar nýjungar og hann er einfaldlega of misjafn. Sumt er vel gert en annað furðar maður sig á að hafi fengið grænt ljós. Maður lendir stundum í tæknilegum vandræðum og það sama virðist gilda fyrir PS4 sem ég spilaði á og PC. Eitthvað hefur klikkað í þróun þessa leiks og líklega hefði hann mátt vera lengur í þróun þrátt fyrir að fimm ár hafi liðið frá ME3.

Eitthvað hefur klikkað í þróun þessa leiks og líklega hefði hann mátt vera lengur þar þrátt fyrir að fimm ár hafi liðið frá ME3.

Mikið hefur verið talað um andlitin í leiknum og hversu illa þau eru gerð. Þetta er alveg rétt, það eru einstaka andlit sem eru vel undir meðallagi en þetta hefur ekki það mikil áhrif á leikinn sjálfan (svo lengi sem þú velur ekki sjálfgefnu Söru Ryder, þeir klúðruðu því og það er alltaf eins og hún sé brosandi sem er pirrandi í allri dramatíkinni). Það er löngu kominn tími til að Bioware hysji upp um sig í þessum efnum því að aðrir leikir, eins og t.d. Horizon Zero Dawn, eru algerlega að skilja þá eftir í rykinu. Það sem verra er er að nýju karakterarnir eru ekki að grípa mann. Þetta er langt frá Mass Effect 2 sem státaði af mjög eftirminnilegum persónum með betri bakgrunn og það sama á við söguþráðinn sem er bæði óljós og óspennandi. Leikinn vantar líka sárlega sannfærandi vondan gaur. Mass Effect 3 var t.d. frábær í því að skapa þrúgandi og stigvaxandi andrúmsloft en hérna einhvern veginn finnur maður ekki fyrir neinni ógn, maður keyrir áfram söguþráðinn og allt í einu er hann búinn þrátt fyrir ágætis sjónarspil á köflum.

Það góða er að þetta er stór heimur með mörgum plánetum, tunglum og loftsteinum til að skoða. Reyndar er heimurinn það stór að ef þú klárar bara söguna, og sleppir flestum aukaverkefnunum, þá ertu bara búinn að sjá lítið brot af öllu sem ME: Andromeda hefur upp á að bjóða. Bioware hefði mátt draga samt aðeins úr öllum þessum aukaverkefnum því að þau eru fáránlega mörg og stundum of leiðinleg og langdregin en auðvitað getur maður bara sleppt þeim. Kosturinn við aukaverkefnin eru samt að þú ert að byggja upp her og auðlindir smátt og smátt, líkt og var í Mass Effect 3.

Það góða er að þetta er stór heimur með mörgum plánetum, tunglum og loftsteinum til að skoða.

Geimbíllinn þinn þjónar aftur tilgangi og er núna mun betur hannaður en áður. Maður getur valið hvort maður fer í drif á öllum og þannig kemst maður yfir nær öll fjöll eða bara keyrt hratt og stokkið um sem er ansi skemmtilegt. Allt sem pirraði mann við Mako í fyrsta Mass Effect er farið og fyrir vikið er að skoða sig um mun skemmtilegra.

Það er búið að straumlínulaga heilmikið en ekkert eins mikið og bardagakerfið. Núna ertu með „jetpack“ og getur notað það til að hoppa eða svífa þegar þú gengur um en í bardögum þá geturðu haldið þér aðeins lengur í loftinu og látið skotin dynja á óvinum sem geta þarafleiðandi ekki lengur falið sig bak við eitthvað. Maður er því mun hreyfanlegri og getur líka skotist í burtu frá erfiðum aðstæðum. Það er þrennt sem maður getur þjálfað sig í: almennri bardagafærni (combat), tækni (tech) og hugarorku (biotics). En núna er búið að hræra þessu öllu í einn graut og í þessu nýja bardagakerfi þá er nær allt opið frá byrjun og því fleiri stig sem maður notar því fleiri prófílar opnast. Það er til dæmis ansi öflugur prófíll sem byggist á því að þú setur jöfn stig í allt þrennt þannig að tilraunastarfsemi er lykillinn í ME: Andromeda. Sem dæmi er að þú getur verið hugarorkusérfræðingur með eldvörpu eða návígisgaur sem getur falið sig. Það er hægt að skipta um prófíl hvenær sem, jafnvel í miðjun bardaga ef maður þarf að breyta um taktík. Sem dæmi þá er prófíll sem heitir hermaður (soldier) og það styrkir allt sem viðkemur vopnum. Það sama gildir um hugarorku (adept prófíll) sem styrkir allt tengt því. Það er erfitt að útskýra þetta til fullnustu en þetta er skemmtilegt og opið (það er lítið mál að endurræsa og deila þróunarstigum upp á nýtt).

Núna ertu með „jetpack“ sem þú getur notað í bardögum eða til að skoða þig um.

Skannari er önnur nýjung og safnar rannsóknarstigum með því að skanna allan fjandann í kringum þig hvort sem það er lífrænt eða einhver geimverutækni. Skannarinn er líka notaður í verkefni og til að fá alls konar upplýsingar. Rannsóknarstig geturðu svo notað til að þróa og búa til alls konar vopn og búnað. Reyndar borgar sig stundum frekar einfaldlega að kaupa hlutina eins og oft í svona leikjum, en til að búa til hluti sjálfur þarftu að safna saman alls konar hlutum í umhverfinu en það er semsagt „tradeskill“ kerfi leiksins þ.e.a.s. handiðnaðurinn. Viðmótið fyrir þetta er því miður alls ekki nógu gott sem gildir um viðmót leiksins almennt eins og t.d. kortin. Þetta er líka einn af þessum þáttum sem minnir aðeins of mikið á mmorpg-leiki þ.e.a.s. að maður þarf að fara á sama staðinn aftur og aftur til að safna t.d. kopar ef maður ætlar að búa til þetta fína N7 sett.

Fyrir þá sem hafa spilað Dragon Age. Inquisition, einnig þróað af Bioware þá er margt kunnuglegt hérna og þess vegna er ég óánægður með frumleikann því það er eins og þeir hafi endurnotað grunnuppbyggingu leiksins þaðan. Svæðin eru eins uppbyggð og með fullt af misskemmtilegum hlutum til að dunda sér við. Það er ákveðið stjórnborð í geimskipinu þínu þar sem þú getur sent bardagalið í ýmis verkefni sem taka tíma rétt eins og í DA:I. Landslag í báðum leikjum lítur hins vegar frábærlega út og ýtir undir að skoða sig um enda er þessi leikur draumur „explorer“ leikjatýpunnar.

það vantar aðeins upp á að hann fari á sama stall og Mass Effect 2 og 3.

Núna skiljið þið vonandi þessar blendnu tilfinningar; það er sumt sem mætti betur fara og maður hefði viljað sjá fleiri nýjungar en þetta er stór Mass Effect leikur þar sem alltaf hægt að finna sér eitthvað að dunda sér við. Þrátt fyrir að þessi gagnrýni fókusi á neikvæðu hlutina þá er samt skemmtilegt að skoða sig um, kynnast nýju fólki og drepa það í betrumbætta bardagakerfinu. Fyrir þá sem vilja fá marga tíma úr leiknum sínum þá er þessi ofarlega á blaði og það þarf varla að taka fram að ef þú ert Mass Effect aðdáandi þá svíkur Andromeda ekki þrátt fyrir hæga byrjun. En það vantar aðeins upp á að hann fari á sama stall og Mass Effect 2 og 3.

Deila efni

Tögg: , , , ,


Upplýsingar um höfund:



Efst upp ↑