Fréttir

Birt þann 18. júlí, 2016 | Höfundur: Bjarki Þór Jónsson

Nintendo Classic Mini leikjatölva með 30 innbyggðum leikjum væntanleg

Nintendo tilkynnti útgáfu Nintendo Classic Mini leikjatölvunnar fyrir fjórum dögum. Nintendo Classic Mini er smávaxin útgáfa af klassísku NES leikjatölvunni sem naut mikilla vinsælda á níunda áratuginum. Nintendo Classic Mini inniheldur 30 innbyggða leiki, þar á meðal Super Mario Bros., Zelda, Castlevania og PAC-MAN. Tölvan er mjög lítil eins og sést á myndinni hér fyrir ofan og keyrir klassíska NES leiki á hermi (emulator). Ekki er hægt að bæta fleiri leikjum við tölvuna þar sem tölvan inniheldur ekkert netkort og er ekkert pláss fyrir minniskubba, kort eða annað sambærilegt.

NES_mini_AmazonUK-IcelandTölvan kostar ekki nema 50 pund í Bretlandi, sem gerir u.þ.b. 8.000 íslenskar krónur á núverandi gengi (pundið er á 161 íslenskar kr.). Með tölvunni fylgir svo ein Nintendo Classic Mini NES fjarstýring, HDMI snúra (til að tengja við sjónvarpið) og USB kapall (til að tengja við rafmagn). Hægt er að tengja tvær fjarstýringar við tölvuna og spila tveggja manna leiki eins og PAC-MAN, TECMO BOWL, og Dr. Mario. Auka fjarstýring mun kosta 10 dollara í Bandaríkjunum sem gera u.þ.b. 1.200 íslenskar krónur á núverandi gengi (dollarinn er á 122 kr.) Fjarstýringin verður í sömu stærð og upprunlega NES fjarstýringin samkvæmt opinberu heimasíðu NES Mini leikjatölvunnar. Fjarstýringuna er auk þess hægt að tengja í Wii og Wii U til að spila gamla klassíska Nintendo leiki í gegnum Virtual Console.

Athugið að verðið hér á landi verður eflaust hærra þar sem eftir á að reikna sendingarkostnað, tolla og önnur gjöld við breska og bandaríska verðið á leikjatölvunni og fjarstýringunni. Eins og sést á kvittuninni hér til hægri þá rukkar Amazon í Bretlandi íslenska kaupendur um samtals 93 pund, eða um 15.000 kr. sem er nær tvöföldun á verði.

Nýja leikjatölvan er væntanleg í verslanir 11. nóvember á þessu ári

Nýja leikjatölvan er væntanleg í verslanir 11. nóvember á þessu ári en margar erlendar vefverslanir bjóða upp á forpantanir. Nintendo Classic Mini er tilvalinn gripur fyrir eldri spilara sem vilja endurspila gömlu góðu Nintendo leikina eða kynna nýrri kynslóð fyrir klassíkinni. Leikirnir 30 sem fylgja tölvunni eru eftirfarandi:

 • Balloon Fight
 • BUBBLE BOBBLE
 • Castlevania
 • Castlevania II: Simon’s Quest
 • Donkey Kong
 • Donkey Kong Jr.
 • DOUBLE DRAGON II: THE REVENGE
 • Dr. Mario
 • Excitebike
 • FINAL FANTASY
 • Galaga
 • GHOSTS’N GOBLINS
 • GRADIUS
 • Ice Climber
 • Kid Icarus
 • Kirby’s Adventure
 • Mario Bros.
 • MEGA MAN
 • Metroid
 • NINJA GAIDEN
 • PAC-MAN
 • Punch-Out!! Featuring Mr. Dream
 • StarTropics
 • SUPER C
 • Super Mario Bros.
 • Super Mario Bros. 2
 • Super Mario Bros. 3
 • TECMO BOWL
 • The Legend of Zelda
 • Zelda II: The Adventure of Link
Deila efni

Tögg: , ,


Upplýsingar um höfund:Efst upp ↑